Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 20:32:15 (2171)

1995-12-19 20:32:15# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[20:32]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að koma ákveðnum upplýsingum á framfæri við hæstv. forseta og þingheim. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera þinginu grein fyrir því að á fundi heilbr.- og trn. sem haldinn var í þinghléinu kom til umræðu sá vandi sem sjúkrahúsin almennt, Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalar standa frammi fyrir verði ekki gerðar breytingar á fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að verði ekkert að gert standa menn frammi fyrir stórfelldum niðurskurði og samdrætti í þjónustu, uppsögnum starfsfólks og þar af leiðandi auknu starfsálagi innan veggja sjúkrahúsanna eða auknum þjónustugjöldum. Allt þetta kom fram á fundum heilbr.- og trn. með fulltrúum frá sjúkrahúsunum, stjórnendum og starfsliði.

Herra forseti. Ég tel brýnt að fjárln. fái sérstaka skýrslu um þetta frá heilbr.- og trn. þingsins þar sem afstaða eða álit nefndarinnar komi fram. Ég tel að nefndin rísi ekki undir skyldum sínum ef hún ekki kemur á formlegan hátt frá sér upplýsingum til fjárln. um þessi efni.

Fulltrúi meiri hluta í heilbr.- og trn. óskaði sérstaklega eftir fresti til að taka afstöðu til þessarar beiðni frá minni hluta nefndarinnar. Nefndarmenn voru reiðubúnir að veita þennan frest til að þingmenn meiri hlutans gætu íhugað málið til morguns. En þetta segir mér, hæstv. forseti, að svo alvarlegum augum líta fulltrúar í heilbr.- og trn. þann vanda sem sjúkrahúsin standa frammi fyrir að minni hlutinn óskar eftir afgreiðslu með þessum hætti og meiri hlutinn hefur óskað eftir að málið verði tekið fyrir að nýju á fundi heilbr.- og trn. á morgun. Það er ljóst að hér er um alvarlegan vanda að ræða sem mér þótti rétt að gera forseta þingsins og þingmönnum almennt grein fyrir hér í upphafi þessa fundar.