Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 22:39:44 (2176)

1995-12-19 22:39:44# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[22:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda að ónáða hæstv. heilbr.- og trmrh. þótt oft hafi verið ærin ástæða til. Ég held að það verði ekki hjá því komist við þessa umræðu að óska eftir nærveru hæstv. heilbr.- og trmrh. sem öðrum ráðherrum fremur ber ábyrgð á málaefnum aldraðra en þetta frv. snertir einmitt að hluta til aðgerðir gegn þessum hópum.

(Forseti (RA): Hv. ræðumaður hefur óskað eftir því að heilbrrh. verði hér nærstaddur. Það skal upplýst að samkvæmt töflu er hæstv. heilbrrh. ekki í húsinu en ég er að láta athuga hvar hann er niðurkominn. --- Hæstv. heilbrrh. mun vera í nálægu húsi og er væntanlegur.)

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að hæstv. ráðherra verði hér við þessa umræðu. Hún þarf að svara ýmsu um þetta frv. og annað sem snertir þennan málaflokk. Það er mjög mikilvægt að ráðherrarnir, sem leggja áherslu á að fá mál sín afgreidd í gegnum þingið á þeim fáu sólarhringum sem eftir lifa til jóla, geri svo lítið þá að vera viðstaddir umræðurnar til þess að greiða fyrir því að málin gangi í gegnum þingið.

Ég get auðvitað notað tímann þangað til að hæstv. heilbr.- og trmrh. kemur í salinn og spjallað við hæstv. iðnrh. sem lætur svo lítið að sitja hér með okkur. Það er ærið tilefni til að spjalla við hæstv. iðnrh. um málefni aldraðra og málefni tryggingaþega yfirleitt.

Hæstv. forseti. Ég lagði á mig undir umræðum hér í dag og líka í gærkvöldi að lesa nokkrar af ræðum hæstv. iðnrh. og hæstv. heilbrrh. sem þeir hafa flutt hér á liðnum árum, ekki síst á síðasta ári, um árásir fyrrv. ríkisstjórnar á kjör aldraðra og öryrkja. Þar voru ekki spöruð stóru orðin. Ég er ekki með ræður hæstv. iðnrh. mér við hönd vegna þess að ég ætlaði að lesa þær upp þegar ég kæmi upp í annað sinn við þessa umræðu síðar í nótt. Vænti ég þess að hæstv. ráðherra geti þá verið viðstaddur síðla nætur. En ég minnist þess þó að hæstv. iðnrh. talaði um það aftur og aftur að það væri svívirða af fyrrv. ríkisstjórn að byrja á því að ráðast að elli- og örorkulífeyrisþegum. Taldi hann það mikið óheillaverk og þó ég ætli ekki að taka að mér að verja hv. síðasta ræðumann, fyrrv. heilbrrh., hann getur vel gert það sjálfur, mátti hann sitja undir mörgum ræðum frá hæstv. iðnrh., vegna aðgerða sem hann beitti sér fyrir að því er varðaði aldraða og öryrkja. Honum voru ekki spöruð stóru orðin.

Það er full ástæða til þess að eyða hér tíma á eftir að fara yfir þessar ræður, hæstv. forseti. Vegna þessa tiltekna máls sem við ræðum hér vil ég byrja á því að vitna til þess að ríkisstjórnin síðasta sendi frá sér yfirlýsingu 14. des. sl. Þá var öðru fremur tveimur atriðum sérstaklega fagnað í þeirri yfirlýsingu og ASÍ hafði beitt sér fyrir meðal annarra. Það var ákvæðið um hækkun á persónuafslættinum og ákvæðið um afnám tvísköttunar á lífeyri sem Samtök aldraðra höfðu barist mjög fyrir. Allir voru sammála því að hér væri um verulega kjarabót að ræða fyrir lífeyrisþega. Ég minnist þess að þingmenn Sjálfstfl. fluttu frv. um þetta efni. Mig minnir að hv. 10. þm. Reykv. hafi aftur og aftur flutt frv. um þetta mál. Það var því full ástæða til þess að aldraðir fögnuðu þessu máli þar sem nú átti að afnema tvísköttun á lífeyri hjá þeim. Þetta var rétt fyrir jólin fyrir ári síðan. Þetta voru jólagjafir sem ríkisstjórnin var þá með, vissulega rétt fyrir kosningar. Nú eru kosningarnar búnar, liðnar og við hefur tekið ríkisstjórn Sjálfstfl. og framsóknarmanna. Eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar er að afnema þessar kjarabætur til aldraðra og frysta persónuafsláttinn gagnvart launafólki.

[22:45]

Við erum ekki að tala um neinar smáfjárhæðir í þessu sambandi. Það kom fram fyrir ári að hér gæti verið um að ræða skattafslátt til aldraðra sem gæti numið, miðað við meðallífeyri hjá SAL-sjóðunum og hjá opinberum starfsmönnum, frá 22 þús. til 82 þús. kr. Við erum kannski að tala um skattafslátt til aldraðra upp á 6--7 þús. kr. á mánuði. Ég vil, virðulegi forseti, taka undir það með síðasta ræðumanni, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að það er ansi sérkennilegt svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að eftir það samdráttarskeið sem við höfum gengið í gegnum sl. sjö ár og nú tala allir um að við séum að sigla inn í góðæri og efnahagsbata, að þá skuli aldrei sem nú vera ráðist að öldruðum. Það er ekki bara á þessu eina sviði, heldur höfum við í Þjóðvaka tekið saman langan lista þar sem vegið er að öldruðum og öryrkjum úr öllum áttum.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það er mjög sérkennilegt að hér skuli einungis vera tveir þingmenn Þjóðvaka og virðulegur forseti í sínum sætum að hlýða á ræðu mína sem fjallar um mikilvægt mál og skerðingu á kjörum aldraða. Ég sé að hæstv. iðnrh. hefur liðið virkilega illa undir þessari umræðu vegna þess að hann er flúinn líka. Ráðherrabekkirnir eru tómir hvort sem litið er til hægri eða vinstri. Ég veit ekki betur, virðulegi forseti, en það séu ráðherrarnir sem séu að leggja áherslu á að við afgreiðum þetta mál núna fyrir jólaleyfið.

(Forseti (RA): Forseti vil taka það fram sérstaklega að hæstv. iðnrh. fór úr þingsalnum til að athuga hvort að hann gæti ekki flýtt fyrir því að hæstv. heilbrrh. kæmi hér, því það er samkomulag um afgreiðslu mála í kvöld og gert ráð fyrir að það líði senn að fundarlokum. Forseti vildi gjarnan að hæstv. heilbrrh. kæmi samt áður en hv. ræðumaður lýkur ræðu sinni og þess vegna er lagt á það kapp að fá hana í salinn. Þetta er skýringin á því.)

Já ég skil. Ég hélt að hæstv. iðnrh. hefði flúið af því ég var komin með ræður hans frá því fyrir ári um heilbrigðismál í hendurnar. En það er þá ekki skýringin. Það er gott.

En virðulegi forseti, það er mjög sérstakt að þessi tími sé notaður þegar við erum að sigla inn í efnahagsbata að því er ríkisstjórnin segir, til að ráðast á þennan hóp. Við vorum í gær að fá það upp varðandi tekjuhlið fjárlaganna að það eru aukin umsvif núna miðað við það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, um 1 milljarð kr. og samt sjá þeir ástæðu til enn þá á þessum degi að bæta við á þennan langa lista sem við höfum tekið saman og lýtur að því að skerða kjör aldraðra.

Ég ætla, virðulegi forseti, aðeins að hlaupa á því hvað hér er verið að gera. Það er tvísköttun á lífeyri sem ég nefndi og þó það sé verið að breyta þessu þannig að það verði iðgjaldið sem verður skattfrjálst í staðinn fyrir lífeyrinn, þá munu lífeyrisþegar einskis njóta af því. Það sem er náttúrlega alvarlegast í þessu er að það er verið að gera grundvallarbreytingu á velferðarkerfinu með því að hætta að tengja lífeyrisbætur almannatrygginga við launaþróun í landinu. Ég hygg að þetta sé kannski hvað alvarlegasta atlagan að öldruðum og öryrkjum. Eins og hv. þm. vita þá hafa lífeyrisgreiðslurnar fylgt hækkunum á vikukaupi verkamanna í áratugi.

Ég held að það verði að leggja mikla áherslu á það að hnekkja áformum ríkisstjórnarinnar um það að lífeyrisgreiðslur fylgi ekki lengur launahækkunum. Ég held að svo sé komið að forsvarsmenn aldraðra og samtök aldraðra verði að fara taka raunverulega upp mjög harða kjarabaráttu varðandi þá atlögu sem sífellt er í gangi gagnvart þessum hópi.

Ég óskaði eftir nærveru hæstv. heilbrrh. þar sem ég sagði sem ég veit að hæstv. ráðherra hlýtur að vera mér sammála um að ráðherrann ber öðrum fremur ábyrgð á málaflokki aldraðra og finnst mér ekki til of mikils mælst, virðulegi ráðherra, að ráðherrann sitji undir þessari umræðu. Hér stígur hver ræðumaðurinn í stólinn á fætur öðrum til að gagnrýna þessa atlögu að öldruðum. Ég hef ekki lagt í vana minn eins og ég sagði að óska eftir nærveru hæstv. heilbrrh. Ég vildi gefa henni smátíma vegna þess að ég trúði því ekki að hæstv. ráðherra myndi samþykkja þessa aðför að öldruðum, öryrkjum og atvinnulausum, ekki síst í þeim málaflokki sem hún ber ábyrgð á. Ég er ekki að ónáða hæstv. ráðherra, en mér blöskrar svo að ég get ekki orða bundist. Það sem er mjög sérstakt, af því ég var að ræða hér við hæstv. iðnrh. áðan meðan ég beið eftir hæstv. heilbrrh., er að ég lagði líka á mig að lesa ræður hæstv. heilbrrh. frá síðasta þingi og þinginu þar áður þar sem við vorum að fjalla um bandorm og fjárlagafrumvörp. Þar voru ýmsar aðgerðir að því er varðaði elli- og örorkulífeyrisþega en eru þó smámál á móti þeim aðgerðum sem nú er beitt gagnvart þessum hópum. Ég verð að segja að aðgerðir hæstv. fyrrv. heilbrrh., Sighvats Björgvinssonar, voru hátíð til móts við það sem hæstv. heilbrrh. stendur nú fyrir gagnvart þessum hópum. Allt það sem ég las í ræðum ráðherrans ætla ég nú að geyma mér að lesa upp þar til við ræðum bandorminn á morgun. Þá ætla ég að fara yfir það. Ég hafði ætlað mér að gera það í kvöld en mér skilst að hér sé komið eitthvað samkomulag sem ég skal virða og skal því stytta mál mitt. En ég mun fara yfir þetta allt saman vegna þess að ráðherrann talaði um atlöguna að sjúkrahúsunum, það væri ekki hægt að ganga þar lengra eða skerða þar þjónustuna meira. Hún talaði um atlöguna að öldruðum og öryrkjum. Það má rekja hér lið fyrir lið hvernig ráðherrann tók á þessu máli á síðasta þingi og þetta er nákvæmlega, hæstv. ráðherra, það sama sem þessi ríkisstjórn er að gera núna nema miklu verra. Það er vegið að þessum hópum úr miklu fleiri áttum.

Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, úr því hér er komið samkomulag, rétt bara að rekja mig í gegnum þennan tíu punkta lista sem ég ætla að gera fljótt en mun fara mjög ítarlega í við umræðuna um ráðstafanir í ríkisfjármálum á morgun. Ég hef nefnt að lífeyrisgreiðslurnar fylgja ekki lengur launahækkunum í landinu. Ég hef nefnt að tvísköttun lífeyris er hafin að nýju gagnvart öldruðum. Fjármagnstekjur eiga að skerða almannatryggingabætur. Það á að byrja á því að skerða lífeyri gamla fólksins og láta fjármagnstekjurnar telja þar. Það hefur verið grundvallaratriði. Ég kannast við að það hefur verið reynt í ríkisstjórn eftir ríkisstjórn að byrja á öldruðum. Það hefur alltaf verið komið í veg fyrir þessi áform. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér fyrir því að fjármagnstekjuskattur á aldraða verði ekki tekinn upp fyrr en hann verður tekinn upp á alla þjóðina. Ég skildi orð hæstv. ráðherra svo í útvarpi, fjölmiðlum fyrir skömmu, að hann mundi beita sér fyrir því að þetta yrði tekið upp samtímis. Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að fjármagnstekjuskattur skerði ekki almannatryggingabætur fyrr en hann hefur verið lagður á alla? Líka á þá sem eiga tugi og hundruði milljóna í bönkum en sleppa þessa ferðina hjá ríkisstjórninni. En aldraðir, þeir skulu ekki sleppa. Hver króna sem þeir hafa í vaxtatekjur skal nú skerða þeirra lífeyri.

Síðan er sagt hér og ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum. ,,Skerða á tekjutryggingu þeirra sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóð,`` eins og það er orðað í fjárlagafrv. Hverjir eru það sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði? Í hópi þeirra sem ekki hafa getað greitt í lífeyrissjóði eru m.a. öryrkjar á vernduðum vinnustöðum, húsmæður og heimavinnandi fólk. Ætlar hæstv. ráðherra virkilega að beita sér fyrir því að skerða tekjutryggingu þessara hópa af því þeir hafa ekki getað greitt í lífeyrissjóð? Ég er svo yfir mig gáttuð á því hvað hér er að gerast að ég held, virðulegi forseti, að þingið geti hreinlega ekki farið heim fyrr en komið er samkomulag um hvernig haldið verður á þessum málum. Þetta getur ekki verið meining ríkisstjórnarinnar þegar hún sér þetta allt í heild sinni. Ég er viss um að ríkisstjórnin áttar sig ekki á því hvað hér eru mörg atriði á ferðinni sem skerða kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Því hljótum við að ná einhverju samkomulagi í þessu málum.

Ég hef talað um fjögur atriði. Það síðasta sem við fengum frá ríkisstjórninni var að grunnlífeyrir er skertur um 35% gagnvart tekjum í staðinn fyrir 25%. Ég held að það hafi verið í morgun sem þessar nýjustu hugmyndir komu fram. Þá var enn þá verið að leita leiða til hægt væri að ná meira fé af þessu fólki í ríkiskassann. Fólki með kannski 40--50 þús. kr. á mánuði. Ég er alveg viss um það að til hæstv. heilbrrh. hafa komið elli- og örorkulífeyrisþegar sem er búnir með sinn framfærslueyri um miðjan mánuðinn. Ég veit það og það hefur komið fram á nefndarfundum að stór hópur öryrkja og aldraðra þarf að leita til félagsmálastofnunar til að eiga bara fyrir brýnustu framfærslu og mun hann enn stækka með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, með þessari aðgerð að grunnlífeyrir er skertur um 35% gagnvart tekjum í stað 25%. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að greiðslur grunnlífeyris geta skerst hjá einstaklingum um allt að 62% við þessa breytingu og í allt að 84% hjá hjónum. Ég spyr: Er þetta síðasti jólaglaðningurinn sem aldraðir fá frá hæstv. ríkisstjórn eða eigum við kannski von á meiru? Það er nú einn dagur eftir. Það er kannski hægt að leita í einhverri músaholunni þarna í heilbrrn. að einhverju meira á þennan hóp.

Síðan er það Framkvæmdasjóður aldraðra. Nú er leitað eftir heimild sem var tímabundin, til að framkvæmdaféð fari að mestu í rekstur. Á meðan eru það yfir 100 manns sem bíða í brýnni neyð eftir hjúkrunarrými í Reykjavík einni.

[23:00]

Síðan er það sem við vorum að heyra í dag. Það eru þessi komugjöld. Það er hægt að fletta ræðu eftir ræðu og lesa yfir þar sem hæstv. núv. heilbrrh. var að mótmæla sjúklingasköttum sem hún kallaði svo. Hún hélt þessar fínu ræður á síðasta þingi þar sem hún mótmælti því að sífellt væri verið að auka gjöld á sjúklinga og aldraða. Nei, nú boðar hæstv. ráðherra, í sjónvarpi í gær að mér skilst, að gjöld fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu verði hækkuð. Það er talað um 17--50%. Ég spyr: Á að undanþiggja aldraða, öryrkja eða barnafólk frá þessum gjöldum?

Ég skal senn ljúka máli mínu vegna þess samkomulags sem gert hefur verið. En ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra svari þótt ekki væri nema tveimur spurningum áður en umræðunni lýkur. Það er í fyrsta lagi spurningin um hvort gjöldin fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu verði hækkuð, hvort hún ætli að beita sér fyrir því að aldraðir, öryrkjar og barnafólk verði þá undanþegið þessari greiðslu. Hverjir eru það helst sem sækja þjónustu heilsugæslunnar? Eru það ekki börn og aldraðir? Þó að hæstv. ráðherra finnist þetta ekki mikið og tali um 100 eða 200 kr., þá eru þetta miklir peningar fyrir aldraða, sérstaklega þá sem oft þurfa að leita þangað.

Síðan er það níunda atlagan, þ.e. að aldraðir greiði fullt gjald fyrir læknisþjónustu og lyf til 70 ára aldurs í stað 67 ára. Ég veit ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi breytt þessu. Þá er hægt að nefna að Framkvæmdasjóður fatlaðra er skertur um 150 millj. kr. sem ég ætla, virðulegi forseti, að taka nánar upp þegar við ræðum um bandorminn.

Ég skal ljúka máli mínu þótt ég eigi ýmislegt ósagt. Ég geri það einungis vegna þess samkomulags sem mér skilst að hafi náðst. En ég spyr hæstv. ráðherra um gjöldin fyrir læknisþjónustu, bæði til sérfræðinga og heilsugæslu, hvort þau verði hækkuð og hvort þessum hópi verði hlíft. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hún muni beita sér fyrir að beðið verði með að fjármagnstekjur skerði almennar tryggingabætur þangað til við höfum komið á fjármagnstekjuskatti, sem taki þá til allra í þjóðfélaginu en ekki bara aldraðra.