Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 23:20:51 (2184)

1995-12-19 23:20:51# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[23:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í prinsippinu sammála því sem hæstv. ráðherra segir um fjármagnstekjuskatt og tengingu hans við lífeyrisbætur. Ég er í prinsippinu sammála. En ég segi hins vegar: Það er ekki verjanlegt að hefja upptöku fjármagnstekjuskattsins með því að ráðast fyrst að þessum hópi. Og það er alls ekki verjanlegt hjá ráðherra flokks sem bauð upp á sérstakan sáttmála milli Framsfl. og öryrkja, sérstakan samning milli Framsfl. og eldra fólks í þjóðfélaginu. Það er ekki boðlegt. Það er allra síst hægt fyrir Framsfl. að ætla sér t.d. að hefja fjármagnstekjuskatt fyrst á öryrkjum. Ég bendi hæstv. heilbrrh. á að lesa aftur kaflann sem samþykktur var á flokksþingi Framsfl. sem haldinn var í í Reykjavík 25.--27. nóvember 1994 og fjallaði um fatlaða. Ég get skrifað undir hvert einasta orð sem þar stóð. En hæstv. heilbrrh. hefur gengið fram fyrir skjöldu og hann er búinn að rjúfa þann samning sem formaður Framsfl. sagði í sjónvarpinu að því þingi loknu að hann vildi gera í senn við öryrkja landsins og við aldraða Íslendinga. Gott og vel. Ég spurði hins vegar: Getum við ekki sæst á að greinin verði tengd ákvæði um það að hún komi því aðeins til framkvæmda að fjármagnstekjuskattur yrði tekinn upp á alla landsmenn? Ég veit að það er stefna hæstv. heilbrrh. Er það ekki bara réttlætismál?

Í annan stað gengur það ekki, hæstv. heilbrrh., að hlaupa frá því sem ráðherra hefur sagt. Orð ráðherra eru gulls ígildi þegar kemur að því að skýra frumvörp og merkingu þeirra. Og það er á grundvelli orða ráðherrans sem féllu hér í síðustu viku sem ég tjáði ákveðna afstöðu til þessarar greinar um þá sem hafa forsómað að greiða í lífeyrissjóði. Ráðherrann sagði þá fortakslaust: Þetta eru atvinnurekendur. Núna segir hún að atvinnurekendur séu ,,áberandi`` í þessum hóp.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Hvað til að mynda um öryrkja sem hafa með óreglulegum hætti getað tekið þátt í atvinnulífi landsmanna en hafa löngum tímum þurft að vera fjarri atvinnu sökum sjúkleika síns? Hvað með þá? Hvernig er t.d. tæknilega hægt að finna þetta fólk sérstaklega og sýna fram á að það hefur unnið sér þennan rétt sem hæstv. heilbrrh. nefnir til handa nokkrum hópum en hefur enga útfærslu á?