Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:14:08 (2188)

1995-12-20 10:14:08# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Við hljótum að velta fyrir okkur undir þeim kringumstæðum sem nú hafa skapast hvert hlutverk stjórnarandstöðunnar er. Það er auðvitað að sýna það aðhald sem þarf til þess að löggjöf og þær ákvarðanir sem hér eru teknar séu gerðar með vandaðri hætti, með aðhaldi og með þeirri nákvæmu skoðun sem þarf að vera aðall þessarar stofnunar. Þetta hlutverk fær stjórnarandstaðan ekki að rækja nú um stundir.

Hér er hrúgað inn eins og margoft hefur verið komið inn á í bandormi frumvarpi til breytinga á mörgum lagabálkum. Viðunandi efnisumfjöllun hefur ekki fengist í ýmsum fagnefndum og þær hafa ekki einu sinni enn allar lokið störfum. Þetta er þeim mun merkilegra að svo skuli vera staðið að málum nú að ýmsar þær lagasetningar sem eru á ferðinni í nefndum bandormi hafa í sjálfu sér ekkert með þau fjárlög að gera sem menn eru að reyna að setja fyrir árið 1996.

Vegna þessara aðstæðna allra tek ég undir það sem hér hefur komið fram að stjórnarandstaðan hlýtur að firra sig ábyrgð af þeim hugsanlegu mistökum sem hér kunna að vera á ferðinni, af þeim hugsanlegu mistökum sem hér kunna að verða við lagasetninguna. Það hlýtur að vera algerlega ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna það sem hér er að gerast þar sem stjórnarandstöðunni er ekki einu sinni skapað ráðrúm til að koma að þeim athugasemdum í fagnefndum sem hún þó hefði þurft og viljað gera.