Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:20:10 (2191)

1995-12-20 10:20:10# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég er að velta því fyrir mér hvaða augum menn almennt líta þessa umræðu, hvort menn líta þetta sem einhvers konar glímuæfingu í þinginu, eitthvað sem tilheyrir þessum hluta þingstarfanna. Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að það geri ég ekki.

Í heilbrn. í gær var fjallað um vanda sjúkrahúsanna, bæði Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þar kom fram að þessi vandi er miklu meiri en við höfðum áður gert okkur grein fyrir. Ég setti fram þá tillögu í nefndinni að nefndin kæmi áliti sínu á framfæri við fjárln. Það urðu síðan um það umræður í nefndinni hvaða kosti við ættum og hv. formaður nefndarinnar, Össur Skarphéðinsson, reifaði þar tvo kosti. Annars vegar að við kölluðum frv. aftur til nefndarinnar eða að við legðum fram sjálfstætt mat og álit sem við kæmum á framfæri við fjárln. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir óskaði eftir því að við tækjum okkur frest til morguns. Hún vildi ræða þetta í þingflokki sínum áður en hún greindi frá afstöðu sinni.

Nú er hv. þm. að segja okkur að það hafi allt annað vakað fyrir sér, það átti að ræða málin vítt og breitt --- og hvað? Koma þeim á framfæri á næsta ári, einhvern tíma? Ég talaði um það í tillögu minni að við kæmum áliti okkar núna til þeirra sem um þessi mál véla, þ.e. fjárln., kæmum áliti þingnefndarinnar til hennar. Ég vil vekja athygli á því að sami þingmaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, bar upp frv. fyrir nokkrum vikum um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Til hvers? Til þess að efla aðhald löggjafarsamkundunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það þarf ekki, hv. þm., að bíða eftir slíkri lagabreytingu. Tíminn til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald er núna og ábyrgðin hvílir hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur ekki síður en okkur hinum.