Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:19:34 (2209)

1995-12-20 13:19:34# 120. lþ. 73.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:19]

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Við umræður um þetta frv. hefur komið í ljós að líklegt er að Landsvirkjun verði á næstu árum að láta skerðingarákvæði í samningum um sölu ótryggðrar orku til innlendra atvinnufyrirtækja koma til framkvæmda. Verð fyrir þessa afgangsorku er svipað og það útsöluverð sem Ísal greiðir eða á að greiða fyrir forgangsorku vegna stækkunar álbræðslunnar fyrstu átta árin. Allt raforkuverð til bræðslunnar verður að því loknu háð verðþróun á áli. Með breytingum á skattákvæðum aðalsamnings er óverðtryggður lágmarksskattur í formi framleiðslugjalds lækkaður um helming. Engar líkur eru á að Ísal greiði tekjuskatt á afskriftatíma fjárfestingarinnar. Áfram getur Ísal dregið frá fyrir skatta sölu- og tækniþóknun sem nemur 3,7% af veltu þótt engin rök séu fyrir slíkum fríðindum. Fjárhagsleg hagnaðarvon af þessum samningi er sannarlega sýnd veiði en ekki gefin.

Með starfsleyfi umhvrh. er bræðslunni heimilað að menga umhverfið langt umfram það sem viðgengst á öðrum Norðurlöndum. Skipulagsmál Hafnarfjarðar eru sett í uppnám vegna mengunarhættu og eftir að starfsleyfi hefur verið útgefið boðar iðnrh. þreföldun á framleiðslu verksmiðjunnar.

Herra forseti. Illa hefur verið staðið að þessum samningi af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þetta er slæmur gjörningur. Ég segi því nei.