Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:23:07 (2212)

1995-12-20 13:23:07# 120. lþ. 73.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:23]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil að fram komi að ég hef ákveðnar efasemdir um þennan samning, einkum með tilliti til mengunarvarna. Þar eru ekki gerðar nægar kröfur af hálfu okkar Íslendinga og það er ástæða til að vara við því að hér verði til einhvers konar þriðja heims hugsunarháttur þar sem réttmæt gagnrýni er hrópuð niður ef hægt er að sýna fram á hagvöxt. Yfirgnæfandi meiri hluti má aldrei meina okkur að leita sannleikans. Alþingi má aldrei vera í sporum bæjarstjórnarinnar í leikriti Ibsens um þjóðníðinginn sem stimplaði Tomas Stockmann lækni óvin samfélagsins vegna þess að hann sagði sannleikann um heilsuböðin sem bæjarbúar byggðu afkomu sína á. Stundum getur sá reynst sterkastur sem þorir að standa einn. Sú varð niðurstaða Ibsens.

Það verður svo ekki fram hjá því horft að þessi framkvæmd mun skipta miklu máli fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og atvinnustigið í landinu. Sönnunarbyrði er þar af leiðandi mikil, ætli menn að hafna þessum samningi. Þar sem þetta fer saman við þá staðreynd að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um orkusölu og skatta, þá hef ég ákveðið að segja já.