Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:37:01 (2213)

1995-12-20 13:37:01# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, oftast kallað bandormur.

Nefndin hefur fjallað um málið, sent það til umsagnar til fagnefnda þingsins og fengið á sinn fund ýmsa aðila sem raktir eru í nefndarálitinu. Nefndin hefur lagt til ýmsar breytingar á frv. á þessu stigi málsins og ætla ég þá að rekja þær breytingar.

1. Lagt er til að 21. gr. frv. falli brott. Í þessari grein var kveðið á um endurskipan í stjórnsýsluumdæmi og aðsetur sýslumanna. Það er hætt við þær breytingar á þessu stigi en dómsmrh. hyggst skipa nefnd til að fjalla um hvernig skipan stjórnsýsluumdæma og aðsetur sýslumanna verður best háttað, hvernig þjónustu sýslumannsembætta við íbúana verður hagkvæmast fyrir komið.

2. Gert er ráð fyrir því að prósentutalan 70% í 30. gr. frv. lækki í 50%. Þetta þýðir að fjármagnstekjur eins og þær eru skilgreindar samkvæmt skattalögunum koma aðeins að helmingi inn í ákvörðun á tekjum vegna frádráttar þeirra fyrir mat á tekjutryggingunni og öðrum tekjutengdum bótum almannatrygginga.

3. Lagt er til að skerðingarprósentan vegna ellilífeyrisins verði hækkuð úr 25% í 35%.

4. Lagt er til að á eftir 34. gr. komi ný grein er verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ef reiknaðar bætur einstaklings samkvæmt lögum þessum auk bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, sbr. 13. gr. þeirra laga, nema 600 kr. á mánuði eða minna skulu þær falla niður. Þetta nær þó ekki til sjúkrahjálpar skv. III. og IV. kafla laga þessara og endurgreiðslu skv. 12. gr. laganna um félagslega aðstoð.``

Hér er gert ráð fyrir því að bætur sem ná ekki ná þessari upphæð á hverjum mánuði verði felldar niður, með ákveðnum undantekningum þó.

5. Gert er ráð fyrir því að breyta 47. gr. frv. Efnisleg þýðing þessarar breytingar er að halda áfram því fyrirkomulagi að ráðherrafulltrúar í stjórnum heilsugæslustöðva komi af starfssvæði á viðkomandi stöð.

6. Gert er ráð fyrir því að hægt sé að tilnefna varamenn í stjórn Ríkisspítala og enn fremur er í þessum lið lagt til að ráðherrafulltrúar í stjórnum sjúkrastofnana komi af starfssvæði viðkomandi stofnunar.

7. Verið er að bæta við efnismálslið 55. gr. tveimur orðum og að greinin orðist þannig í heild sinni:

,,Tekjum af flugvallargjaldi skal varið til framkvæmda í flugmálum og til rekstrar flugvalla samkvæmt flugmálaáætlun.`` Orðunum ,,samkvæmt flugmálaáætlun`` er bætt við og þessu orðalagi breytt til þess að afmarka þau rekstrarframlög sem tekjur af flugvallargjaldi geti runnið til.

Samhliða þessum breytingartillögum hefur meiri hluti nefndarinnar lagt fram sjálfstætt frv., svokallaðan skröltorm, sem er fylgimál með þessu frv. Ástæðan er sú að í því frv. er verið að gera tillögur um breytingar á lögum sem er ekki fjallað um í svokölluðum bandormi og verður nefndin því að flytja um það sjálfstætt mál samhliða þessu frv.