Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:43:20 (2214)

1995-12-20 13:43:20# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við störf meiri hluta hv. efh.- og viðskn. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvaða hlutverki þjónar það starf sem fer fram í fagnefndunum. Við fáum til umsagnar þá kafla bandormsins sem varða beinlínis fagsvið þessara nefnda, þær vinna afskaplega samviskusamlega og menn senda frá sér tillögur. Eins og gengur og gerist skerst það oft eftir pólitískum línum og menn skila áliti meiri hluta og minni hluta fagnefndanna.

Hv. allshn. fékk þetta frv. til umsagnar og hún hefur mjög alvarlegar athugasemdir, bæði meiri hluti og minni hluti varðandi tiltekin atriði bandormsins, þ.e. lög um miskabætur til fórnarlamba ofbeldis. Það kemur mjög skýrt fram. Í fyrri umsögn hv. allshn., frá 23. nóv. minnir mig, þar sem menn taka hreinlega af skarið og leggjast gegn frv. og síðan er aftur vísað í það álit í umsögn meiri hluta allshn. um bandorminn. Svo kemur hv. formaður, Vilhjálmur Egilsson og flytur hérna álit meiri hluta efh.- og viðskn. og það kemur fram hjá honum að þetta álit allshn. er að engu haft. Fagnefndin sem hann og fólk hans hefur vísað málinu til umfjöllunar hefur unnið það mjög samviskusamlega og hv. formaður efh.- og viðskn. hefur það að engu, meiri hlutinn hefur það að engu.

Herra forseti. Það tengist því líka að hæstv. fjmrh. gaf í samtölum, formlegum viðtölum við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar mjög sterkar væntingar um það að þessu máli yrði breytt. Hvernig stendur þá á því að hæstv. ráðherrar standa ekki við orð sín og í öðru lagi hvernig stendur á því að meiri hluti hv. efh.- og viðskn. hefur að engu álit meiri og minni hluta fagnefndarinnar?