Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:50:31 (2218)

1995-12-20 13:50:31# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:50]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég er nú ekki viss um að ég geti sem frsm. minni hluta efh.- og viðskn. lofað jafn stuttri ræðu og framsöguræða formanns var. Með fullri virðingu fyrir okkar ágæta formanni í efh.- og viðskn. verð ég að segja alveg eins og er að ég hef sjaldan heyrt jafnrýra framsöguræðu fyrir jafnstóru máli og hér var flutt. Og ég leyfi mér að efast um að margir hv. þm. séu miklu nær um efni frv. eða umfjöllun efh.- og viðskn. eftir þessa 2--3 mín. löngu framsöguræðu. Ég hélt satt best að segja að það væri venjan að gera í einhverjum mæli grein fyrir störfum nefndar, fyrir þeim sem til nefndarinnar hefðu komið og sjónarmiðum þeirra ásamt brtt. sem fluttar væru í meiri háttar máli af þessu tagi við 2. umr. En hér eru uppi nýjar venjur af ýmsum toga og þar á meðal sú að framsögumenn meiri hlutans sleppi því að skýra málin þegar þau eru hér til umfjöllunar og efnislegrar afgreiðslu við 2. umr. Er þó ekki eins og hér sé verið að ræða einhverja minni háttar tæknilega lagfæringu á einum lögum heldur eru hér undir 33 mismunandi lagafrv. og 62 greinar. Reyndar stendur til að þær verði talsvert fleiri, herra forseti. Sá bandormur sem hér er á dagskrá hefur fjölgað sér og lítið afkvæmi hans er nú komið hér á borð þingmanna, lítill ormsungi ef svo má að orði komast. Guð má vita hversu mikill þessi ættbogi verður orðinn áður en yfir lýkur ef svo heldur áfram sem horfir.

Herra forseti. Það er alveg óhjákvæmilegt að gera hér aðeins athugasemdir við vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á þingi í þessu máli. Það mun hafa verið hæstv. núv. forseti vor sem hóf feril sinn m.a. með nokkuð metnaðarfullum yfirlýsingum um að hann hefði hug á að bæta samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu í sambandi við meðferð mála á þingi og koma betri svip á vinnubrögðin hvað varðar skipulag og framgangsmáta allan. Og ekki dreg ég í efa góðan vilja hæstv. forseta. Ég hygg að hæstv. forseti hafi einmitt reynt að gera sitt til að mál kæmust fram á skikkanlegum tíma og að sæmileg sanngirni ríkti í samskiptum manna hér inni, einstakra hv. þm. stjórnar og stjórnarandstöðu, meiri hluta og minni hluta o.s.frv. En einhvers staðar annars staðar liggur þá meinsemdin, herra forseti, og það er spurning hvort að ekki er nauðsynlegt að ræða aðeins þá hluti hér í upphafi umfjöllunar um þetta mál. Í því sambandi langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort flm. málsins, hæstv. forsrh., sé einhvers staðar á næstu grösum.

(Forseti (ÓE): Hann er nú ekki skráður í húsið en forseti gerir ráðstafanir til að ...).

Mér finnst nú heldur dapurlegt, herra forseti, að hæstv. forsrh. skuli ætla okkur að ræða þessi mál án þess að hann sé viðstaddur. Það er spurning hvort ég fæ þá ekki að gera hlé á máli mínu, herra forseti, þar til forsrh. er kominn í húsið.

(Forseti (ÓE): Jú, það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. Þá gerum við hlé í stutta stund, vonandi stutta stund.)