Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 16:51:08 (2229)

1995-12-20 16:51:08# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[16:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara örstutt. Ég ætla ekki að svara fyrir önnur lög sem hér er breytt en þau sem heyrir undir þau ráðuneyti sem ég er að fást við, landbrn. og umhvrn. Ég tel að ég hafi gert það á þann hátt að fyrst og fremst sé leitað eftir því að almennt sé samræmi í þeim lagabreytingum sem hér er verið að gera með undantekningum sem ég gerði grein fyrir varðandi búfjárræktarlögin og jarðræktarlögin. Það kann að vera, ég ætla ekki að svara fyrir það, með aðra þætti eða önnur ráðuneyti, hvaða rök hafa verið hjá þeim hæstv. ráðherrum sem þar hafa lagt til mála inni í málaflokkum sínum hvernig breytingarnar hljóðuðu hvað þetta varðar.

Örstutt um skipulagslögin. Þetta er eins og ég sagði áðan fyrst og fremst til þess að gæta hins almenna samræmis sem ég hélt að væri í þessu og er a.m.k. með þau lög eða þau frumvörp sem hér eru gerðar tillögur um að breyta sem heyra undir þau ráðuneyti tvö, umhverfis- og landbúnaðarmálin með þessum tveimur undantekningum sem varða landbúnaðarmálin. Ég hélt að það væri alveg skýrt hvað skipulagsmálin varðar að öðru leyti og ég endurtek að í það minnsta muni þetta ekki vera fjárhagsmál sem neinu nemur. Ég vil ekki fullyrða að það geti verið nánast algerir smáaurar, 2 eða 4 milljónir sem eru ekki stórar tölur í þessu dæmi, sem varðar endurgreiðslu til sveitarfélaganna af skipulagsgjaldinu sem ákveðið er af því að það greiðist í raun eftir á. Það er innheimt 1995 en endurgreiðist 1996 og sama hefur auðvitað verið á árinu áður. Það var skert 1995 en ekki var gert ráð fyrir skerðingu á árinu 1996 þannig að það sem þarna gæti munað væri þá aldrei nema eitthvert misræmi sem mætti hugsanlega leiðrétta eftir á en þá verður það eins og lögin kveða á samkvæmt ákvæðum fjárlaganna sjálfra. Fjárlögin yrðu þá að kveða á um það hvernig ætti að standa að endurgreiðslunni að ári liðnu.

Ég hef það kannski flókið og ekki nægilega skýrt í stuttu máli en ég var að reyna að gera það eins skilmerkilega og ég gat, herra forseti.