Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 16:53:21 (2230)

1995-12-20 16:53:21# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[16:53]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Við erum að ræða um stefnu og tillögur hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum. Stærsta mál ríkisstjórnarinnar á því málasviði er að sjálfsögðu fjárlagafrv. og samkvæmt hefð tekjufrumvörp tengd fjárlagafrv. en eins og hefur reyndar oft hefur gerst áður eru þessi tvö meginríkisfjármálafrumvörp ríkisstjórnarinnar ekki svo burðug að þau standi á eigin fótum. Þess vegna er fram lagður þessi einstæði bandormur sem hefur enst hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem umræðuefni í um tvo og hálfan tíma og þarf kannski ekki að undra vegna þess að þetta þskj. er því sem næst einsdæmi í þingsögunni. Til þess að ná fram tiltölulega litlum sparnaði í ríkisfjármálum í samanburði við útgjaldahlið fjárlaga er hvorki meira né minna undirlagt af ríkisstjórninni en 33 lagabálkar lagasafnsins þar sem verið er að boða breytingar, misjafnlega róttækar, misjafnlega skynsamlegar, misjafnlega óskynsamlegar, en í sumum tilvikum boða þær þó stefnubreytingu.

Það er ástæða til að spyrja, herra forseti, hvaða skilaboð það eru sem hæstv. ríkisstjórn er að senda frá sér til þjóðarinnar nú fyrir jólahaldið með þessum málabúnaði. Það er eðlilegt að spyrja: Hver eru skilaboðin til skattgreiðenda sem eru þeir sem standa undir útgjöldum ríkisins? Hvað er það sérstaklega sem er ekki að finna í þessum bandormi og yfirleitt ekki í þessum ríkisfjármálapakka ríkisstjórnarinnar? Er ríkisstjórnin kannski í ljósi þess að hún tíundar mjög væntanlegan efnahagsbata að boða landslýðnum einhver gleðitíðindi svona rétt fyrir jólin? Er hún að sýna fram á að erfiðleikaárin séu að baki og að fram undan sé betri tíð? Eru stjórnarflokkarnir kannski í þessum meginlagafrumvörpum sínum að sýna kjósendum sínum fram á að þeir hafi lokið heimavinnunni til þess að standa við stóru orðin frá því fyrir kosningar, efna eitthvað af kosningaloforðum sínum? Hver eru skilaboðin frá hæstv. ríkisstjórn? Hver eru skilaboðin til þeirra sem lent hafa í þeirri lífsreynslu að vera fórnarlömb afbrotamanna? Hver eru skilaboðin sérstaklega vegna þeirra væntinga sem vaktar voru um réttarbót þeim til handa með lagasetningu sem samþykkt var einróma í tíð fyrrv. ríkisstjórnar á Alþingi Íslendinga? Hver eru skilaboðin sérstaklega með hliðsjón af boðuðum efnahagsbata til hinna öldruðu í þjóðfélaginu, til öryrkja og til barnafjölskyldna? Hver eru skilaboðin sérstaklega frá hæstv. heilbrrh. í stjórnarandstöðu sem óbreyttur þingmaður Framsfl. boðaði það að nærtækast væri á sviði heilbrigðismála að afnema þau þjónustugjöld sem sett höfðu verið á í tíð fyrri ríkisstjórnar, afnema þau með öllu, hefur boðað prívat og persónulega skattahækkanir, markaðan tekjustofn fyrir heilbrigðiskerfið í formi nýs sjúkrasamlagsgjalds?

Hver eru skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til þess stóra hóps Íslendinga sem orðið hefur fyrir þeirri þungbæru reynslu að missa vinnuna og þurfa að framfleyta sér og sínum á atvinnuleysisbótum? Hver eru skilaboðin til þeirra sem lokið hafa dagsverkinu og byggja afkomu sína á lífeyrisbótum eða bótagreiðslum almannatrygginga? Hver eru skilaboðin í þessum bandormi til fatlaðra og þá sérstaklega að því er varðar Framkvæmdasjóð fatlaðra sem verið hefur þeim skjól og hlíf? Hver eru skilaboðin að því er varðar aðbúnað aldraðra sem er í verkahring Framkvæmdasjóðs aldraðra? Hver eru skilaboðin til aldraðra að því er varðar yfirlýst áform um að taka upp fjármagnstekjuskatt? Á að bjóða öldruðum sparifjáreigendum sem komnir eru yfir 67 ára aldur að vera þeir einu sem eiga að þola skertar bætur vegna framtalinna fjármagnstekna og á þannig að bjóða upp á mismunun þegnanna? Hver eru skilaboðin til þeirra sem standa í fararbroddi í nýsköpun á sviði menningar og mennta eins og t.d. til kvikmyndaframleiðenda sem gert hafa garðinn frægan að undanförnu? Hver eru skilaboðin til Alþingis að því er varðar vinnubrögðin sem hér eru sýnd frá þeirri ríkisstjórn sem hefur innbyrðis fleiri lögfræðinga en setið hafa á ráðherrabekkjum langa hríð? Hver eru skilaboðin að því er varðar málsmeðferðina í heild gagnvart Alþingi þar sem boðið er upp á í einum bandormi og einum skröltormi sem svo hefur verið kallaður, endurskoðun á ýmsum grundvallarþáttum löggjafar á a.m.k. 33 meginsviðum löggjafar sem tekur ekki aðeins til ríkisfjármála, ekki aðeins til skattamála, ekki aðeins til velferðarmála, atvinnuleysismála, málefna lífeyrisþega heldur einnig jafnframt til menntamála, landbúnaðarmála, samgöngumála, hafnamála, ferðamála, flugmála og svo mætti lengi telja? Hver eru skilaboð hæstv. ríkisstjórnar?

Lítum á þessi mál lið fyrir lið, herra forseti.

Þegar Alþingi Íslendinga samþykkti samhljóða á seinasta þingi nýja löggjöf þar sem það var boðað að þolendur afbrota, fórnarlömb afbrotamanna, skyldu ekki lengur sæta því að geta ekki innheimt dæmdar eða úrskurðaðar bætur, einfaldlega vegna þess að afbrotamennirnir sjálfir reyndust ekki vera borgunarmenn þótt um niðurstöðu dómstóls væri að ræða, þá var það löngu tímabær réttarbót og um það var fullkomin samstaða á Alþingi Íslendinga. Þessi lög voru reyndar sett í framhaldi af þáltill. sem einn hv. stjórnarþingmaður hafði frumkvæði að. Þessu er nánar lýst í bandorminum í athugasemdum við 18.--20. gr. þar sem segir á þessa leið:

,,Fyrr á þessu ári voru sett lög nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Við gerð fjárlagafrv. ákvað dómsmrh., þar sem fjárveitingar til dóms- og kirkjumálaráðuneytis væru takmarkaðar, að leita eftir frestun á gildistöku laganna um eitt ár og jafnframt að ákvæði laganna gildi um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. jan. 1994 og síðar í stað 1. jan. 1993``. Með öðrum orðum frestun á gildistöku og lögin skyldu ekki ná afturvirkt til þess tíma sem áður hafði verið boðað.

Þar að auki er síðan í framhaldi af þessu í bandorminum gert ráð fyrir því að skerða þær bótagreiðslur sem ríkið ábyrgist mjög verulega. Það kom fram strax við 1. umr. af hálfu stjórnarandstöðunnar að þetta væri kannski einhver smánarlegasta aðgerð sem ríkisstjórnin hefði gert sig seka um að boða borgurum þessa lands. Ég held að það sé hvergi ofmælt ef menn líta af sanngirni á það hvernig þetta mál er til komið. Að hæstv. dómsmrh. skuli hafa gert tillögu um það að ná fram sparnaði í rekstri ráðuneytis síns með þessum hætti er hneyksli, hneyksli sem ber að andmæla harðlega og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, láti bjóða sér þetta. Það er athyglisvert að bera saman aðgerðir og það hugarfar sem býr að baki í sambandi við sparnaðaraðgerðir ráðherra í ráðuneytum sínum þegar annars vegar er um þetta mál að ræða og svo hins vegar tillögur dómsmrh. um það að fækka sýslumannsembættum um tvö með sameiningu sýslumannsembætta. Þetta er svokölluð frönsk tillaga, frönsk vegna þess að þetta er sýndartillaga sem engin alvara lá á bak við. Tillagan staðfestir að hæstv. dómsmrh. heyktist á því að koma fram sparnaðartillögum sem hann hafði þó samþykkt við ríkisstjórnarborð með því að fallast á rammafjárlög og eins og reyndar var fordæmi fyrir áður, setur hann fram tillögu sem honum var fullkunnugt um af fyrri reynslu að hann hafði ekki stuðning fyrir í þingflokki sínum eða meðal þingflokka stjórnarliða og mundi því fara á þann veg sem reyndar er þegar opinbert leyndarmál að tillagan nái ekki fram að ganga.

Nú reynir á hvort þessir hinir sömu alþingismenn sem vilja ekki fallast á sparnaðaraðgerð eins og sameiningu tveggja sýslumannsembætta ætla að láta bjóða sér að hæstv. dómsmrh. tryggi sér það að halda ráðuneyti sínu innan útgjaldaramma fjárlaga með því að láta það bitna á hópi fólks sem hefur orðið fórnarlömb afbrotamanna og Alþingi hefur einróma samþykkt að ríkið eigi að taka ábyrgð á að niðurstöður dómstóla um bætur skuli greiddar.

[17:00]

Á það verður látið reyna áður en umræðu um þetta mál lýkur, hvort Alþingi réttir hlut þessa fólks og ég endurtek, herra forseti, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn láti bjóða sér slíkt.

Ég spurði áðan, herra forseti: Hver eru skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn er að senda landslýð með þessum málabúnaði? Hver eru skilaboðin til aldraðra? Það er sá hópur fólks, reyndar einn af mörgum fjölmennum hópum í þjóðfélaginu sem Framsfl. sem nú stýrir þessum málaflokki, skírskotaði til fyrir kosningar. Framsfl. gagnrýndi þá mjög harðlega allar aðgerðir fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem miðuðu að því að ná fram sparnaði eða stöðva sjálfvirkan vöxt í sumum þáttum heilbrigðiskerfisins. Sú viðleitni hans fékk óblíðar viðtökur hjá Framsfl. Nú standa þeir í þeim sporum að hafa heilbrrh. í sínum röðum og því reynir á hverjar efndir fylgja orðum þeirra frá stjórnarandstöðutímanum. Sannleikurinn er sá að þau hafa reynst ómerk, ómagaorðin þeirra framsóknarmanna frá því fyrir kosningar og kannski hvergi með eins átakanlegum hætti og í þessum málaflokki. Tökum nokkur dæmi.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga var loksins tekið á því máli sem kennt hefur verið við tvísköttun lífeyrisgreiðslna ellilífeyrisþega. Það var gert með þeim hætti að lögleiða að þeir skyldu njóta skattfrádráttar sem samsvaraði 15% af þessum lífeyrisgreiðslum en það var sú tala sem menn töldu að samsvaraði tvígreiðsluþættinum að því er varðar þessar greiðslur. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka þetta til baka og taka það til baka áður en skattfrelsi iðgjaldagreiðslna vinnandi fólks í lífeyrissjóði hefur að fullu komið til framkvæmda. Hér er um að ræða að taka til baka tekjur af lífeyrisþegum sem samsvara að mati sérfróðra manna sem komið hafa fyrir efh.- og viðskn., um það bil 250--300 millj. kr. Þetta eru skilaboð til lífeyrisþega.

Önnur skilaboð eru þau að sparifjáreigendur í hópi hinna öldruðu mega búast við því, ef þetta mál nær fram að ganga, að bætur þeirra skerðist við framtaldar fjármagnstekjur á seinasta ársfjórðungi næsta árs. Það mun þýða tekjuskerðingu þessa hóps á bilinu 80--90 millj. kr. á þessum hluta ársins en um eða yfir 200 millj. kr. á heilu ári. Hvað felst í þessu? Í þessu felst að ríkisstjórnin ætlast til þess að þessi hópur sæti þeirri mismunun að jafnvel þótt fjármagnstekjuskattur hafi ekki verið lögleiddur og því miður virðast satt að segja engar líkur á því að núverandi ríkisstjórn takist það innan þessara tímamarka, þá eigi þessi hópur einn og sér samt sem áður að þola skerðingu ef um er að ræða framtaldar tekjur af uppsöfnuðum sparnaði þeirra. Með öðrum orðum, jafnræðisreglan gagnvart þessum hópi aldraðra er brotin. Það eru skilaboðin til þessa hóps.

Þriðju skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til lífeyrisþega eru um þær bótagreiðslur, 600 kr. á mánuði, 7.200 kr. á ári, sem þykja svo lágar að þar mætti næla í sparnað fyrir ríkissjóð upp á 12 millj. kr. Hvaða hópur er þetta? Þetta er kannski fyrst og fremst sá hópur aldraðra sem jafnframt eru öryrkjar. Röksemdafærslan er sú, sem verið er að boða í miðju góðærinu, að þarna sé fundið fé, þarna megi spara. Þetta eru sömu mennirnir og lögðu fyrir á Alþingi Íslendinga samning við handhafa landbúnaðarkerfisins upp á 12 þús. millj. kr. sem fól í sér a.m.k. 200 millj. kr. aukaútgjöld á ári hverju fyrir skattgreiðendur í fimm ár umfram gamla búvörusamninginn.

Fjórðu skilaboðin til lífeyrisþega eru þau að hækka hlutfall sem er í gildi og varðar skerðingu á grunnlífeyri þeirra ef þessi hópur hefur einhverjar óverulegar tekjur aðrar en úr lífeyrissjóði. Þetta hlutfall á að hækka úr 25 í 35% og reyna þannig að ná fram sparnaði upp á 30 millj. kr.

Eins og þetta væri ekki nóg í miðju góðærinu, þá bárust þau tíðindi núna á seinustu dögum, reyndar í gær, frá hæstv. heilbrrh., þessum hinum sama hæstv. heilbrrh. sem hefur sagt að hún sé algerlega ósátt við öll þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og það ætti að afnema þau, lofaði því reyndar fyrir kosningar eins og flokkurinn hennar, þessum hinum sama heilbrrh. sem hefur sagt að hún vilji leysa fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins með sérstökum nefskatti. Efndirnar eru þær að nú er sagt að það eigi að hækka þessi gjöld fyrir komu á heilsugæslustöðvar eða fyrir þjónustu sérfræðinga í læknastétt og þar á meðal líka hjá þeim sem teljast í hópi aldraðra, öryrkja og barna. Sú aðgerð ein í þessari tekjuöflun, kannski upp á annað hundrað millj. kr. felur í sér um 15--20 millj. kr. sparnað, er enn á ný fundið fé frá hæstv. heilbrrh. Framsfl. Þetta eru skilaboðin frá Framsfl. til þeirra kjósenda sem lögðu trúnað á málflutning þeirra fyrir kosningar um að þar færi sá flokkur sem setti fólk í fyrirrúm, sem hafnaði af einhverjum grundvallarástæðum allri þjónustugjaldtöku, meira að segja frá fólki sem væri vissulega heilbrigt og í sæmilegum efnum. Með öðrum orðum, það er allt á sömu bókina lært. Öllu er snúið öfugt. Engin af þessum loforðum eru efnd og hæstv. ráðherra situr frammi fyrir vandamálum í heilbrigðiskerfinu, vandamálum varðandi sjúkrahúsin almennt í landinu. Hún reynist vera úrræðalaus og athafnir hennar eru yfirleitt þveröfugar við það sem hún hefur heitið og flokkur hennar fyrir kosningar.

Með þessum fimmföldu skilaboðum til aldraðra hefur ríkisstjórnin uppi áform um að spara í ríkisútgjöldum á þeirra kostnað upphæð sem hefur verið metin á bilinu frá 390--452 millj. kr. Eins og þetta sé ekki nóg. En ríkisstjórnin hafði enn fremur uppi áform um að spara til viðbótar með því að afnema lögbundna og hefðbundna tekjutengingu elli- og lífeyrisgreiðslna. Það átti að vera sparnaður upp á 450 millj. kr. Það er ekki fyrr en eftir að fjárlagafrv. var fram komið að verkalýðshreyfingin knúði ríkisstjórnina til undanhalds í því máli. Þau sparnaðaráform upp á 450 millj. kr. áttu reyndar að ná ekki bara til aldraðra heldur einnig til öryrkja, þannig að þetta eru skilaboðin um það sem ríkisstjórnin telur brýnast að koma á framfæri og fá lögfest á Alþingi nú fyrir jólin til þess að ná fram markmiðum sínum um sparnað í ríkisfjármálum.

Herra forseti. Skilaboðin eru fleiri. Í 28. gr. bandormsins og í 35. gr. er tekið á tveimur grundvallarþáttum velferðarþjónustunnar á Íslandi. Önnur greinin varðar rétt atvinnulausra til atvinnuleysisbóta. Hin greinin varðar rétt allra lífeyrisþega almannatryggingakerfisins á Íslandi. Hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar? Þau eru að aftengja bætur til atvinnulausra umsömdum kjarasamningum eða launum og sömuleðis að aftengja bætur til lífeyrisþega launaþróun.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að atvinnuleysisbætur á Íslandi eiga sér þá sögu að þeim var komið á eftir langvinn verkföll á sjötta áratugnum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar. Þrátt fyrir margar atrennur á hinu háa Alþingi til þess að fá atvinnuleysisbætur lögfestar sem hlut af velferðarkerfinu, hafði það ekki tekist áratugum saman fyrr en þetta var gert. Þetta er eitthvað sem er knúið fram í kjarasamningum. Allan tímann síðan hefur það verið svo hér á landi sem annars staðar að það þykir eðlilegt að miða bótarétt þeirra sem verða atvinnulausir við einhvern tiltekinn kjarasamning til að tryggja, af því að þetta er afkomutrygging, að atvinnuleysisbætur hafi einhverja viðmiðun við laun. Sömu sögu er að segja um lífeyrisbætur. Ef menn vilja segja sem svo að það sé æskilegt að draga úr sjálfvirkni í ríkisfjármálum með því að draga úr sjálfvirkni ríkisútgjalda, mörkuðum tekjustofnum, t.d. til framkvæmdaþátta o.s.frv., þá eru það rök út af fyrir sig sem vel er hægt að hlusta á. Hér er hins vegar gjörsamlega ólíku saman að jafna vegna þess að þessi tengsl milli atvinnuleysisbóta og lífeyrisbóta eru rökrétt eðlileg og sjálfsögð og hafa ekkert að gera með sjálfvirkni í ríkisútgjöldum. Þetta eru grundvallaratriði að því er varðar sjálfa velferðarþjónustuna og á þau hefur verið lögð rík áhersla allt frá upphafi, ekki síst af samtökum launþega sem upphaflega voru frumkvöðlar að því að koma þessu kerfi á.

Sjálfsagt reyna stjórnarliðar að færa einhver rök fyrir þessum gerðum sínum og þá helst þessi að því er varðar atvinnuleysisbæturnar. Þeir segja sem svo að það sé ekki vel ráðið að tengja atvinnuleysisbætur við tiltekinn taxta í kjarasamningum stéttarfélaga sem mun reyndar vera tiltekinn taxti í samningum fiskvinnslufólks. Hvers vegna ekki? Vegna þess að vinnuveitendur reyni þá eins og þeir geti í kjarasamningum að halda þessum taxta niðri eða fara fram hjá honum og nefna má dæmi um að slíkt hafi gerst. Það er einmitt vegna þessa sem sú lagabreyting var gerð fyrir allmörgum árum að því er varðar lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega, að þetta var ekki miðað við einn tiltekinn taxta, heldur vísitölur launaþróunar þar sem ýmsir taxtar starfshópa voru lagðir undir þannig að það endurspeglar almenna launaþróun og almenn lífskjör í landinu. Ef það hefði vakað fyrir stjórnarliðum að taka raunverulega á þessu máli með þeim hætti að rétta hlut hinna atvinnulausu, hefðu þeir gert það með því að taka upp einhverja slíka viðmiðun til að tryggja að hlutur atvinnulausra væri í réttu hlutfalli við almenna launaþróun á vinnumarkaðnum. En það hafa þeir ekki gert. Með þessu eru þeir raunverulega að segja: Velferðarríkið íslenska afsalar sér allri ábyrgð á afkomutryggingu þessara hópa, lífeyrisþega og þeirra sem verst hafa orðið úti á vinnumarkaðinum með því að missa vinnuna. Síðan bíta þeir höfuðið af skömminni með því að þetta gera þeir í sömu andránni og ríkissjóður er að þvo hendur sínar með öllu af ábyrgðinni á atvinnuleysisbótum með því að hann leggur Atvinnuleysistryggingasjóði ekki til fimmeyring. Með þessu eru þau skilaboð send til verkalýðshreyfingarinnar í miðri kjarasáttarumræðunni að þeir skuli sjálfir bera fjanda sinn og skuli sjálfir og einir bera ábyrgð á kjörum þessa fólks sem hefur farið út af vinnumarkaðnum við það að missa vinnuna eða á ævistarfið að baki og eru lífeyrisþegar. Þar með er verið að stefna þessum málum í algert uppnám og bjóða upp á það að í hvert skipti sem kjarasamningar eru á dagskrá, verði verkalýðshreyfingin, launþegahreyfingin að taka þessi mál upp á sína arma og beita afli samtaka sinna í átökum við ríkisvaldið um að tryggja þessi sjálfsögðu mannréttindi.

Ég hef heyrt einhverja stjórnarliða halda því fram að þetta sé gert svo til með þegjandi samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Því hefur verið haldið fram að í viðtölum milli forustumanna ASÍ og forsrh. hafi niðurstaðan orðið sú að verkalýðshreyfingin hafi sætt sig við þetta vegna þess að ríkisstjórnin bauð a.m.k. á næsta ári, að láta atvinnuleysisbætur fylgja umsömdum kjarasamningum í upphafi þessa árs. Í ljósi slíkra fullyrðinga er athyglisvert að rétt í þessu var að berast ályktun frá Alþýðusambandi Íslands, undirrituð af Benedikt Davíðssyni, forseta ASÍ, um það sem þeir kalla atlögu heilbrrh. og ríkisstjórnar að velferðarkerfinu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega tillögum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar um verulegan niðurskurð og aukna gjaldtöku í heilbrigðis- og tryggingakerfinu sem kynntar hafa verið undanfarna daga. Ef þessar tillögur verða samþykktar á Alþingi jafngilda þær einhverri alvarlegustu og víðtækustu atlögu að velferðarkerfinu sem nokkur ríkisstjórn hefur kynnt í seinni tíð.

Miðstjórn ASÍ lýsir sig algerlega andsnúna áformum ríkisstjórnarinnar um að afnema þær tengingar sem verið hafa um áratuga skeið milli bótafjárhæða almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga og kjarasamninga verkalýðsfélaganna. Með því væri ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að þessir hópar, sem búa við lökustu kjörin, fái notið þeirra kjarabóta sem um semst í kjarasamningum. Ef þetta ranglæti verður látið koma til framkvæmda mun verkalýðshreyfingin þegar við undirbúning að gerð næstu kjarasamninga á komandi hausti taka þetta mál til umfjöllunar með kröfu um að tengingin verði órofin eða með beinum kröfum um hækkanir á þessum bótum til samræmis við breytingar á kjarasamningum, áður en formlega verður gengið frá kjarasamningum við viðsemjendur.

Miðstjórn ASÍ átelur harðlega útfærslu ríkisstjórnarinnar á hækkun almannatryggingabóta um næstu áramót. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. nóvember sl. ættu allir bótaflokkar almannatrygginga að hækka um 3,5% frá og með 1. janúar nk. Nú hefur komið í ljós að fyrirhugað er að þessi hækkun nái ekki til allra bótaflokka almannatrygginga. Miðstjórn ASÍ krefst þess að þessi hækkun verði látin ná til allra bótaflokka almannatrygginga eins og fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega tillögum ríkisstjórnarinnar um að hækka gjaldtöku á sjúklinga vegna komu til heimilislækna og sérfræðinga og telur að skattlagning á veikindum fólks samrýmist engan vegin þeirri grundvallarforsendu sem velferðarkerfið hefur byggt á.

Miðstjórn ASÍ lýsir einnig megnustu andúð sinni á tillögu heilbrigðisráðherra um að auka enn frekar við tekjutengingu grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega úr 25% í 35%. Það framferði að hækka skattbyrði elli- og örorkulífeyrisþega sem eru með tekjur á bilinu 68--100 þúsund króna með þessum hætti en halda skattbyrði þeirra sem eru með yfir 300 þúsund krónur á mánuði óbreyttri segir meira um pólitískar áherslur og siðferði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar en orð fá lýst.``

[17:15]

Virðulegi forseti. Það er ósatt að þessar grundvallarbreytingar um aftengingu atvinnuleysisbóta og lífeyrisbóta miðað við launaþróun séu gerðar með þegjandi samþykki launþegahreyfingarinnar. Því er yfirlýst að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við yfirlýsingu sína frá 29. nóv. (Gripið fram í: Það er nýr punktur í umræðunni.) Já. Það er nýr punktur í umræðunni --- vegna þess að nú hafi komið á daginn að ríkisstjórnin ætli ekki að láta þá 3,5% hækkun sem um var samið í kjarasamningum 1. jan. ná til allra bóta. Þess vegna ber að fá það upplýst við þessar umræður --- nú er tímabært að fá hæstv. heilbrrh. í salinn --- hverju hæstv. ráðherrar svara yfirlýsingum Alþýðusambandsins um vanefndir eða svik á loforðum. Ég veit ekki til þess að það hafi verið upplýst áður. Það hefur hvergi komið fram á öllum þeim fjölmörgu fundum sem efh.- og viðskn. hefur haft um þetta mál, þótt hún hafi kallað fyrir óteljandi aðila, að því hafi verið haldið fram fyrr af viðmælendum ríkisstjórnarinnar að hér sé um vanefndir að ræða. Hæstv. heilbrrh. þarf að svara hvernig á því standi og hverjir þeir bótaflokkar séu sem eru undanþegnir í framkvæmd og útfærslu ríkisstjórnarinnar.

Hefur hæstv. forseti gert ráðstafanir til að hæstv. heilbrrh. komi í salinn?

(Forseti (GÁS): Forseti hefur gert þær ráðstafanir og er hans að vænta þá og þegar.)

Ég hef verið að ræða um skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til ýmissa þeirra hópa í þjóðfélaginu sem flokkur hæstv. heilbrrh. gerði sér hvað mest dælt við fyrir kosningar með hástemmdum loforðum um að rétta þeirra hlut. Meðan við bíðum eftir því að hæstv. heilbrrh. komi í salinn er rétt að halda áfram að lýsa þessum skilaboðum.

Ein skilaboðin í bandorminum varða hag fatlaðra. Í 22. og 23. gr. eru ákvæði um að skerða framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þ.e. tekjustofninn sjálfur, erfðafjárskattur, er skertur sem svarar 133 millj. kr. og því næst, eins og reyndar hefur verið gert áður, er bundinn tiltekinn hluti, 40%, við rekstur en ekki framkvæmdir. Ég geri ekki athugasemdir við það þótt hluti af ráðstöfunarfé sjóðsins fari til rekstrar. Hitt er annað mál að þegar um er að ræða skerðingu frá hinum markaða tekjustofni og þá staðreynd að verið er að gera það um leið og ríkið er að sölsa undir sig söluandvirði stofnunar, Sólborgar, sem byggð er af almannasamskotum á Akureyri, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þá eru athugasemdir við það að gera og aðferðina sömuleiðis.

Að því er varðar Framkvæmdasjóð aldraðra er nýmælið að fyrir utan hefðbundin skerðingarákvæði er breytingin gerð varanleg. Þar er athugasemdin fyrst og fremst sú að hann er byggður á sérstakri skattlagningu, sérstökum nefskatti.

Þá er komið að því að ræða eftirlætismál hæstv. heilbrrh. Hún hefur sem sé í hremmingum sínum undanfarna daga lýst því yfir að hún vilji helst leysa vanda heilbrigðiskerfisins með því að taka upp nýjan nefskatt, þ.e. einhvers konar sjúkratryggingagjald, sem áður er þekkt úr sögunni, sem leggist þá á alla landsmenn. Það verði sérstakur markaður tekjustofn fyrir heilbrigðiskerfið. Hér höfum við einmitt slíkan markaðan tekjustofn sem á að standa undir Framkvæmdasjóði aldraðra, nefskatt sem allir greiða en nú er verið að taka að hluta til í ríkissjóð. Það er einfaldlega svo að úr því að settur er á sérstakur skattur til þess að sinna sérstökum verkefnum þá ber að framfylgja þeim lögum. Ef ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að of mikið sé byggt eða að þörfin fyrir framkvæmdir á þessu sviði sé ekki lengur slík sem hún var þá ber hæstv. ríkisstjórn jafnframt að sjálfsögðu að koma með frv. til laga um breytingar á þessum skatti. Sáttin sem um hann var á sínum tíma var um að standa undir þessum framkvæmdum fyrir aldraða en ekki um að hér væri um að ræða almennar skatttekjur ríkissjóðs.

Tilefni þess að ég bað um að hæstv. heilbrrh. kæmi í salinn var sérstakt og annað. Ég var að ræða um þau áform stjórnarliða að breyta þeim grundvallarþætti velferðarþjónustunnar á Íslandi að aftengja hvort tveggja, atvinnuleysisbætur og lífeyrisbætur, almennri launaþróun í landinu. Það hefur verið gefið í skyn af hálfu ýmissa stjórnarliða að þetta sé aðgerð sem ekki sé gerð í ósátt við verkalýðshreyfinguna. Ríkisstjórnin hafði jú ákveðið að í fjárlögum fyrir árið 1996 skyldi þrátt fyrir aftenginguna leggja til aukið fé sem samsvaraði kauphækkunum, 3,5%, umsömdum 1. jan., og verkalýðshreyfingin væri að sumu leyti gagnrýnin á viðmiðun atvinnuleysisbóta við tiltekinn taxta fiskvinnslufólks.

Nú vill svo til, hæstv. ráðherra, að hingað var að berast yfirlýsing frá Alþýðusambandi Íslands. Þar er því einfaldlega lýst yfir að þetta hvort tveggja sé rangt. Yfirlýsingin ber heitið ,,Ályktun um atlögu heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar að velferðarkerfinu``. Þar er með hörðum orðum fordæmd breytingin á þessum grundvallarþætti velferðarkerfisins, ekki síst á sama tíma og ríkissjóður ákveður í fyrsta sinn að leggja ekki einn fimmeyring, ekki krónu með gati, lengur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Með þessari aðgerð er ríkissjóður, með öðrum orðum ríkisstjórnin og sér í lagi hæstv. heilbrrh., að segja að velferðarríkið á Íslandi afsali sér allri ábyrgð á því að lífeyrisþegar og þeir sem misst hafa vinnuna skuli njóta lágmarksafkomu sem tengd er umsömdum launum í landinu.

Það er meira, hæstv. ráðherra. Hér er því mótmælt harðlega að ríkisstjórnin, eins og hér segir, hyggist ekki efna yfirlýsingu sína frá því 29. nóv., gefin loforð um að þessi upphæð, 3,5% hækkun, skuli ná til allra bótaflokka almannatrygginga. Í ályktuninni segir á þessa leið:

,,Miðstjórn ASÍ átelur harðlega útfærslu ríkisstjórnarinnar á hækkun almannatryggingabóta um næstu áramót.`` --- Útfærslunni. ,,Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. nóv. sl. ættu allir bótaflokkar almannatrygginga að hækka um 3,5% frá og með 1. jan. nk. Nú hefur komið í ljós að fyrirhugað er að þessi hækkun nái ekki til allra bótaflokka almannatrygginga. Miðstjórn ASÍ krefst þess að þessi hækkun verði látin ná til allra bótaflokka almannatrygginga eins og fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.``

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu, sem undirrituð er af forseta Alþýðusambandsins, þar sem vísað er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er þess farið á leit að hæstv. ráðherra svari því: Er það rétt sem forseti ASÍ heldur fram að ráðherrann og ríkisstjórnin ætli ekki að efna yfirlýsinguna frá því í nóvemberlok? Hvaða bótaflokkar eru það sem ríkisstjórnin ætlar ekki að láta þessa 3,5% hækkun ná til? Hvaða hópar fólks eru það sem ríkisstjórnin ætlar að undanþiggja og hver eru rök hennar fyrir því að svíkja með þessum hætti loforð sitt við aðila vinnumarkaðarins sem gefið var í lok nóvember? Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum á eftir.

Ég hef verið að tala, hæstv. ráðherra, um skilaboðin sem berast frá hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórn sérstaklega til aldraðra í tengslum við þennan ríkisfjármálapakka allan saman. Ég hef verið að minna á að þessi skilaboð eru talsvert önnur en kjósendur hefðu mátt búast við hafi þeir lagt trúnað á orð frambjóðenda Framsfl., þar með talinn hæstv. ráðherra, fyrir seinustu kosningar. Ég minni á að frambjóðendur Framsfl. í stjórnarandstöðu á seinasta kjörtímabili héldu uppi stöðugri, harðri og óvæginni gagnrýni á fyrrv. ríkisstjórn þegar hún tók upp þjónustugjöld. Hæstv. ráðherra hefur látið þau orð falla að það bæri að afnema þessi þjónustugjöld.

Frambjóðendur Framsfl. fengu áreiðanlega mikið fylgi í seinustu kosningum, fylgi sem entist þeim til þess m.a. að ná samningum um myndun núv. ríkisstjórnar, út á loforðin um að afnema þjónustugjöld, út á loforðin um það að standa vörð um grundvallaratriði velferðarþjónustunnar og út á málflutninginn á fyrra kjörtímabili þar sem tekið var undir alla gagnrýni á sparnaðaraðgerðir. Nú er spurt um efndirnar. Seinustu efndirnar eru þær, frá hæstv. heilbrrh., að það sé helst að leita sparnaðar þar sem kemur að bótagreiðslum sem eru svo lágar, 600 kr. á mánuði, 7.200 kr. á ári, að það taki því ekki að greiða þær út. Þarna er fundið fé til þess að spara í ríkisfjármálum upp á 12 millj. kr. eða að ganga lengra í tekjutengingum en áður var gert með því að skerða grunnlífeyri lífeyrisþega, ekki um 25% heldur um 35% miðað við aðrar tekjur. Hæstv. ráðherra gerir sér vonir um að spara 42 millj. kr. með þessum hætti.

Því næst bætir hún um betur með boðaðri reglugerð sinni sem snertir þjónustugjöld, þjónustugjöldin sem hæstv. ráðherra hefur lofað að leggja af. Þá er helst til ráða að hækka þau, alveg sérstaklega fyrir aldraða, örykja og börn, lyfta þakinu fyrir þessa hópa vegna þess að það er hækkun, bæði almennt og einnig fyrir þá. Þegar þetta hefur verið rætt í efh.- og viðskn. og spurt hver sé raunverulega sparnaðurinn sem næst með þessu þá er hann mjög óverulegur. Það er því ótrúlegt hvernig hæstv. ráðherra hefur breyst á stuttum tíma í ráðuneyti sínu frá því þegar hæstv. ráðherra var frambjóðandi Framsfl. í seinustu kosningum eða talsmaður flokksins í stjórnarandstöðu á seinasta þingi þar til hún hefur náð því markmiði í krafti kosningaloforðanna að sitja nú í stóli heilbrrh. til þess að standa við stóru orðin. Satt að segja held ég að það sé leitun á öðrum kapítula í íslenskri stjórnmálasögu sem er jafndapurlegur þegar bornar eru saman yfirlýsingar eða loforð og svo raunverulegar efndir eða verk eins og þessi dæmi sem hér er lýst.

Herra forseti. Skilaboð ríkisstjórnarinnar til þolenda afbrota, til aldraðra alveg sérstaklega, til atvinnulausra, til lífeyrisþega, til þeirra sem eiga hluta af afkomu sinni mjög undir uppsöfnunarsjóðum, eins og Framkvæmdasjóði fatlaðra og aldraðra, skilaboðin varðandi frekari tekjutengingar bóta, skilaboðin um hina nýju reglugerð ráðherrans um hækkun þjónustugjalda, allt er þetta eins og langur listi um hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hefur snúið öllu öfugt. Frá því sem málflutningurinn snerist um á seinasta kjörtímabili og loforðin sem gefin voru í seinustu kosningum. Þetta eru allt saman öfugmælavísur. Þar með er allt tal hæstv. ráðherra og reyndar Framsfl. í fjögurra ára stjórnarandstöðu orðið að ómerkum ómagaorðum.

Af því að við erum að tala um stjórnmál og um heilindi í stjórnmálum og hvort stjórnmálamenn viji láta taka mark á sér eða ekki þá er sérstök ástæða til þess að nefna það að út á loforðin, skrumið, fengu framsóknarmenn fylgið sem dugði þeim til þess að sitja á þessum ráðherrabekkjum. Hver er svo hlutur flokksins í þessu stjórnarsamstarfi? Hver er það ræður ferðinni í þessu stjórnarsamstarfi? Hver er það rúllar yfir hæstv. heilbrrh. í hverju málinu á fætur öðru? Hver er það sem gefur fyrirmæli um hvað má og hvað má ekki? Hver er það sem snýr öllum kosningaloforðum Framsfl. öfugt? Hver er það sem gerir framsóknarmenn á ráðherrastólum að umskiptingum? Og hvernig er það í slíku stjórnarsamstarfi, hvar er formaður Framsfl., holdgervingur traustsins, sem birtist þjóðinni í seinustu kosningum í selskinnsjakkanum? (Gripið fram í: Kletturinn í hafinu.) Hvar er kletturinn í hafinu? Hvar er nú sá sem kjósendur Framsfl. settu allt sitt traust á? (Gripið fram í: Kletturinn í hafinu í selskinnsjakkanum.) Það er nákvæmlega eins og Framsfl. sé með öllu forustulaus, hugmyndalaus, viljalaus og manndómslaus í þessu stjórnarsamstarfi. Eru engin takmörk fyrir því hvað hann lætur bjóða sér? Ég er ekki að gera honum upp orð. Ég er ekki að gera honum upp skoðanir. Það er reyndar ástæða til þess, í nafni heilbrigðrar stjórnmálaumræðu á Íslandi, að gefa út og senda inn á hvert einasta heimili í landinu bæklinginn þar sem væru endurtekin og prentuð orð fyrir orð loforð frambjóðenda Framsfl., loforðin sem öfluðu honum þess fylgis sem skilaði honum hingað á þessa ráðherrabekki. Þannig að almenningur geti orð fyrir orð, málaflokk fyrir málaflokk, borið saman hvernig komið er fyrir þessum flokki. Og maður spyr sig: Hvað er orðið af þeim Framsfl. sem hafði þann metnað til að bera yfirleitt, ef hann átti þess kost, ef hann náði þeim atkvæðastyrk sem hann reyndar náði í seinustu kosningum, að leita eftir því að veita forustu í ríkisstjórn á grundvelli einhverra hugmynda eða stefnumála sem Framsfl. hefði borið fram? Hvað er orðið af þeim flokki? Hvað er orðið af forustu þess flokks?

[17:30]

Reyndar er eftirtektarvert að formaður Framsfl. hefur ekki sést í þingsölum nánast það sem af er þessu hausti. Og nú get ég sem hér stend trútt um talað því ég er forveri hans á stóli utanrrh. En ég bið menn að gera samanburð á því hvort Alþfl. í fyrra stjórnarsamstarfi hefði látið bjóða sér þær trakteringar sem Framsfl. lætur bjóða sér upp á núna. Formaður Framsfl. er ekki aðeins utanrrh. heldur hefur hann einnig tekið að sér að vera samstarfsráðherra Norðurlanda og hann hefur gengið í fleiri alþjóðasamtök en áður voru í gildi. Það er mikið áhugamál hjá honum að stofna sérstakt norðurhjararáð og hann er genginn í Eystrasaltsráð. Með því að bæta við Norðurlandasamstarfinu hefur hann nokkurn veginn tryggt það að hann er alls ekki hér á landi og hefur enga aðstöðu til þess að veita þessum flokki neina forstöðu, enda sýna verkin merkin. Það er engin forusta. Þessi flokkur er forustulaus hjörð og hann lætur það yfir sig ganga að hvert einasta orð sem hann hefur sagt og kjósendur tóku mark á er orðið að öfugmælum.

Virðulegi forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um skilaboð ríkisstjórnarinnar hæstv. og þeirra ráðherra Framsfl. sem eru helstir verkstjórnendur velferðarkerfisins á Íslandi til kjósenda eins og þau birtast í þessum frumvörpum ríkisstjórnarinnar. En það er athyglisvert líka að víkja að því hvað ekki felst í þessum skilaboðum, um hvað þau snúast ekki.

Hvað var það sem frambjóðendur nánast allra flokka sögðu fyrir seinustu kosningar að væri brýnast að gera að því er varðar ríkisfjármál og þá sérstaklega skattamálin? Hvað var það? Það er ástæða til þess að rifja það alveg sérstaklega upp. Öllum bar saman um að það sem væri brýnast væri að rétta hlut þeirra hópa í þjóðfélaginu sem eru orðnir sérstaklega fórnarlömb tekjutengingar á öllum sviðum og eru farnir að bera jaðarskatta, þ.e. skatta af viðbótartekjum umfram ákveðið lágmark upp á um það bil 70--100%. Þetta er það sem sagt var að væri langsamlega brýnast að gera, t.d. gagnvart ýmsum hópum aldraðra og þeim sem sætt hafa tekjutengingu bótagreiðslna og annarra tekna, sérstaklega reyndar barnmörgum fjölskyldum vegna tekjutengingar á fjölskyldubótum, barnabótum, barnabótaauka og vaxtabótum. Og þessi loforð voru gefin með margvíslegum rökum.

Því hefur stundum verið haldið fram að tekjutenging væri rétt leið til þess að jafna byrðar og væri þá eins konar réttlátara form skattheimtu en ella væri kostur á. Staðreyndin er sú að það er enginn munur á því þegar þessi dæmi eru tekin af skattahækkunum og tekjutengingum nema einn. Þessar tekjutengingar hafa leitt til þvílíkrar mismununar milli ýmissa hópa í þjóðfélaginu að það er með öllu gjörsamlega óásættanlegt. Þegar svo er komið að tilteknir hópar eru farnir að bera 60, 70, 80% jaðarskatta en aðrir ekki, er verið að rífa niður allt traust á skattkerfinu.

Að því er varðar unga fólkið er þetta kerfi sannarlega vinnuletjandi vegna þess að það er verið að koma þeim skilaboðum til fólks að þeim sé ekki lengur fært að leggja á sig aukna vinnu, lengri vinnudag eða forsjármönnum fjölskyldu að vinna bæði, vegna þess að af auknum tekjum umfram venjulegar tekjur eru teknar 70, 80 kr. af hverjum 100 í skatta. Þetta er sérstaklega alvarlegt og sérstaklega áberandi að því er varðar annars vegar barnmargar fjölskyldur með mikil útgjöld, fjölskyldur sem eru að leggja á sig mikla vinnu og eru að reyna að afla mikilla tekna vegna húsnæðiskostnaðar og því næst ýmissa annarra í hópi hinna öldruðu þar sem tekjutengingarnar eru komnar út yfir allan þjófabálk. Sér í lagi er þetta svo óréttlátt í þjóðfélagi þar sem skattundandráttur er jafnútbreiddur og mat opinberra aðila stendur til. En allt byggist þetta á skattframtalinu og í raun og veru er það svo eins og fram kom í umræðum í efh.- og viðskn. af hálfu fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins að í vaxandi mæli eru aldraðir farnir að hringja í Tryggingastofnunina eða koma og leita upplýsinga um það hvort eða í hve miklum mæli þeim er yfirleitt óhætt að afla einhverra aukatekna áður en að því kemur að bótagreiðslur skerðast, jafnvel að fullu, enda er hægt að finna hópa þar sem þannig háttar til að tekjutenging bóta er orðin 100%.

Herra forseti. Ég er að tala um skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til kjósenda, til almennings. Ég tek eftir því að það eru engin skilaboð frá hæstv. ráðherrum, hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. heilbrrh. til kjósenda um að leiðrétta þetta nema þó í einum mæli í fjárlagafrv., þ.e. það er varið auknum fjármunum til að draga úr tekjutengingunni að því er varðar barnabótaauka. En eftir er skilið mjög stórt svið þar sem á þessu máli er ekki tekið.

Hvað var hitt málið sem mönnum bar saman um, kannski fyrir utan frambjóðendur Sjálfstfl. að væri brýnasta umbótaaðgerðin að því er varðar skattamál á Íslandi? Það var að koma á fjármagnstekjuskatti, vegna þess að menn sögðu: Til þess að vera jafnir fyrir skattalögum er ekki hægt að réttlæta það lengur að allar tekjur sem menn afla með vinnu sinni séu skattlagðar upp í topp og með jaðarsköttum eins og ég hef verið að lýsa, en mjög verulegur hlutur af tekjum af fjármagni er ýmist algerlega tekjuskattsfrjáls eða að mestu leyti.

Það vill svo til að í tíð fyrri ríkisstjórnar var lögð mikil vinna í þetta mál og ítarlegar skýrslur liggja fyrir um það með hvaða hætti megi útfæra slíkt skattkerfi. Í tengslum við kjarasamninga, einnig í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, var gert pólitískt samkomulag um að ljúka þessari vinnu og það skyldi lagt fram frv. á hinu háa Alþingi á þessu hausti þannig að tekjuskattslög gætu tekið gildi nú um áramót. Ég fullyrði af reynslu minni og þekkingu á þróun þessa máls frá fyrri tíð að það er ekkert sem varðar nauðsyn á aukinni vinnu vegna tæknilegrar útfærslu sem dugar til skýringar á því að af þessu hefur ekki orðið. Staðreyndin er einfaldlega sú að um er að ræða vanefndir þrátt fyrir það að leitað hafi verið til stjórnarandstöðuflokkanna fyrir seinustu kosningar um atbeina að þessu máli auk aðila vinnumarkaðarins. Þetta tvennt, að leiðrétta jaðarskattana og að koma á fjármagnstekjuskatti hefur verið vanefnt. Þetta tvennt sem bar hæst í umræðunni og frambjóðendur lögðu mesta áherslu á að þyrfti að leiðrétta. En í staðinn eru skilaboð ríkisstjórnarinnar þau sem við höfum verið að lýsa. Sparnaðarviðleitnin er fyrst og fremst í því fólgin að leggja auknar byrðar á aldraða og öryrkja, að draga úr afkomuöryggi þeirra með því að afnema grundvallarþætti eins og tengsl launa og velferðargreiðslna auk þess sem hæstv. heilbrrh. beygir sig jafnvel á götu til þess að ná lítilfjörlögum sparnaði á kostnað þessara hópa.

Önnur framtíðarsýn um sparnað í ríkisrekstri eða tekjuöflun eins og með fjármagnstekjuskatti? Nei. Og þannig er niðurstaðan sú í hverju málinu á fætur öðru að Framsfl. er orðinn að ómerkingi í þessu stjórnarsamstarfi.

Virðulegi forseti. Ég vona að menn lái mér ekki þegar ég segi að skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til þjóðarinnar nú skömmu áður en að jólahelgin gengur í garð, hin mikla fjölskylduhátíð friðar og eindrægni, bera vott um það sem mætti kalla svolítinn snert af geðklofa. Í einu orðinu birtir ríkisstjórnin nýja þjóðhagsspá og nýjar tölur um tekjuhlið fjárlaga. Hver eru skilaboðin frá ríkisstjórninni að þessu leyti? Þau eru þessi. Erfiðleikatímabilið er að baki. Batamerkin, efnahagsbatinn blasir við. Hagvöxturinn á næsta ári verður meiri en að meðaltali í OECD-ríkjunum. Helsta skrautfjöðrin í hatti núv. ríkisstjórnar er að sjálfsögðu álmálið sem við samþykktum fyrr í dag. Það boðar verulegar fjárfestingar. Það boðar umsvif vegna þátttöku erlends fjármagns við uppbyggingu á atvinnulífi á Íslandi eftir langt kyrrstöðutímabil. Tölur eru nefndar um það að fjárfestingar sem verið hafa í sögulegu lágmarki á Íslandi eru aftur að aukast, fyrst og fremst auðvitað með þessum stórframkvæmdum. Menn boða ekki bara stækkun álvers. Menn gefa í skyn og eru bjartsýnir á að það komi nýtt álver og jafnvel að það verði tekin ákvörðun um það fyrir áramót. Í framhaldi af því boða menn nýjar stórframkvæmdir í virkjunarmálum og jafnvel fleiri stóriðjuáform. Í raun og veru er það svo að menn eru ekki bara að boða hagvöxt og auknar fjárfestingar. Menn eru líka að segja að þjóðarútgjöldin eru að vaxa og uppi eru ýmis þenslumerki vegna þess að neyslan er vaxandi. Útflutningur fer að vísu minnkandi en innflutningur fer ört vaxandi og viðskiptahallinn er að snúast við. Hann hefur verið jákvæður á undanförnum þremur árum en tölur eru nú birtar um það að hann verði allverulega neikvæður á næsta ári.

En hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir það að ríkisstjórnin er að segja: Ytri skilyrði eru að batna. Við höfum fengið happdrættisvinninginn að því er varðar stækkun álversins og þetta þýðir að kaupmáttur er að vaxa og umsvif eru vaxandi. Fyrirtækin nýta sér það í auknum mæli eftir að þau gátu rétt hlut sinn á seinasta kjörtímabili vegna þeirrar aðhaldsstefnu sem þá var beitt og vegna stöðugleikans sem þá náðist. Allt er þetta gott og jákvætt.

Hin skilaboðin eru hins vegar til almennings. Á sama tíma og ríkisstjórnin boðar batnandi hag og betri tíð, aukinn hagvöxt og aukin þjóðarútgjöld, auknar fjárfestingar og vonandi fjölgun starfa, eru helstu úrræði þessarar sömu ríkisstjórnar, að því er varðar sparnað í ríkisfjármálum að höggva í þann knérunn sem ég var að lýsa hér áðan, þ.e. að leita eftir sparnaði hjá öldruðum og öryrkjum og lífeyrisþegum og svipta atvinnulausa afkomuöryggi og réttindum og auka þjónustugjöld vegna þess að ríkisstjórnin hefur að því er virist engin önnur úrræði. Þetta er vissulega dauflynd og verkasmá ríkisstjórn. En það er ömurlegt hlutskipti fyrir Framsfl. sem boðaði vissulega allt aðra hluti fyrir kosningar að standa nú eins og þvara í potti í þessari dauflyndu og verkasmáu ríkisstjórn með ábyrgðina á því að gera allt öfugt við það sem þeir sögðu fyrir kosningar.

[17:45]

Hver eru svo þriðju skilaboðin frá hæstv. ríkisstjórn? Þau eru þessi, einmitt vegna þess að það er nokkur vottur um aukna þenslu, vissulega má gera ráð fyrir nokkrum vexti miðað við fjárlagafrv. og ríkisfjárlagapólitíkina. Skilaboðin eru þessi: Þrátt fyrir þenslumerki, þrátt fyrir að atvinnulífið er að taka við sér og þrátt fyrir að fjárfestingar eru að aukast og maður skyldi ætla að ríkissjóður ætti þar af leiðandi að auka eitthvað svigrúm atvinnulífsins og draga úr skuldasöfnun sinni og lántökum, nei, þá er enn lagt fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir umtalsverðum halla. Sá halli mun ef nokkuð er fara vaxandi, frá fjárlagafrv. til niðurstöðutölu fjárlaga, í meðförum stjórnarliða.

Hvaða sögu segja lánsfjárlög, hin hliðin á því máli? Þau segja að það er haldið áfram á braut skuldasöfnunar. Það á að halda áfram að slá lán. Neikvæður viðskiptajöfnuður segir þá sögu að við eigum áfram að auka skuldasöfnunina. Eins og ekki væri nóg, hæstv. heilbrrh., að við borgum núna 35 milljarða á ári hverju í afborganir og vexti af gömlum lánum. Það mætti kannski nota eitthvað af þeim peningum, ef þeim hefði verið varið á skynsamlegri máta og ef þeir hefðu skilað þjóðinni þeim arði sem ætlast hefði mátt til, núna í sálarangist og vanda hæstv. heilbrrh. gagnvart útgjaldaþenslunni í heilbrigðiskerfinu. En á sama tíma og þetta gerist leggur ríkisstjórnin fram fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv., sem eru ekki aðhaldsfrumvörp. Þau staðfesta að vegna innbyrðis ágreinings meðal stjórnarliða geta þeir ekki náð samstöðu um skynsamleg úrræði við eðlilegan sparnað í ríkiskerfinu. Þar er undanhaldið, undanhaldið fyrir sérhagsmunahópunum, landbúnaðarkerfinu og sægreifunum. Þar er ekki tekið á málum. Ég held að ég hafi fært rök fyrir því, virðulegi forseti, að kannski er ekkert ofmælt að þessi þrenn misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni til landslýðsins, núna fyrir jólahelgina, eru dálítið ,,skitsó`` eins og menn mundu segja. Þau bera vott um dálítinn pólitískan geðklofa vegna þess að það er eins og önnur höndin viti ekki hvað hin gerir. Hér er ekki ríkisstjórn sem hefur sett sér markvissa stefnu, sem veit hvað hún er að gera. Hér er heldur ekki að verki róttæk umbótastjórn sem þorir að taka á vandamálum og kemur með ný úrræði og nýjar hugmyndir eða hefur burði til þess, þrátt fyrir líkamsburðina, þ.e. þessa 40 hausa eða svo sem styðja ríkisstjórnina, að koma fram með kerfisbreytingar sem horfa til framtíðar.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, er athyglisvert að það eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem leggja fram brtt. við 2. umr. fjárlaga sem stefna að því að draga úr hallarekstrinum í ríkisbúskapnum, leggja fram sparnaðartillögur upp á 1,5 milljarða í rekstri ríkisbáknsins og fara inn á aðrar brautir að því er varðar tekjuöflun með því að leggja fram tillögur um tekjuöflun, bæði af fjármagnstekjum sem og af veiðileyfagjaldi, þ.e. að tryggja þjóðinni arð af auðlindinni sem lög kveða á um að hún eigi sameiginlega. En slíkar tillögur fá ekki fylgi í núv. ríkisstjórn. Þær eru róttækar. Þær taka nefnilega á sérhagsmununum. En sérhagsmunir sitja alls staðar á fleti fyrir í þessari ríkisstjórn og ráða. Þeir skilgreina hvað má og hvað má ekki. Þá er þrautalendingin að skipa hæstv. heilbrrh. að leita eftir sparnaði í húsum hinna öldruðu, öyrkja og annarra slíkra.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. velvirðingar, en leyfir sér að spyrjast fyrir um hvort hann hafi nokkra hugmynd hve langt er eftir að ræðu hans. Forseti spyr af því tilefni að ráð var fyrir því gert að gera hlé á þessum fundi um sexleytið og gefa þá ráðrúm til þingflokksfunda. Spurning er hvort stefna beri að því að hv. þm. ljúki ræðu sinni eða geri á henni hlé.)

Mér var kunnugt um það, virðulegi forseti, að stefnt væri að fundarhléi til þingflokksfunda um þetta leyti. Ég tel að ég hafi komið til skila öllum aðalatriðum máls míns í þessari lotu þannig að ég get prýðilega fallist á að láta ræðu minni lokið hér með, enda nógir aðrir til þess úr röðum stjórnarliða að halda þessari umræðu áfram.

(Forseti (GÁS): Í samræmi við orð forseta verður nú gert hlé á þessum fundi. Ráð er fyrir því gert að honum verði fram haldið kl. átta.)

[18:00]