Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 21:17:52 (2231)

1995-12-20 21:17:52# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[21:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða eitt stærsta mál þingsins fram til þessa sem er frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Það gengur undir nafninu ,,bandormurinn mikli`` og ég verð að segja, virðulegi forseti, að hef ég setið lengi á Alþingi og fjallað um ýmsa bandorma, en engan hef ég séð skrautlegri eða ljótari en þann bandorm sem við ræðum hér.

Það er ljóst að það hlýtur að kalla á mjög langa umræðu að fara í gegnum þennan bandorm sem tekur á hvorki meira né minna en 34 lögum og er einar 63 greinar. Það ljótasta við þennan bandorm, eins og kannski í mörgum frumvörpum sem frá þessari ríkisstjórn koma að ekki sé talað um fjárlögin, er að þar er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Þessi ríkisstjórn virðist helst hitta fyrir aldraða, öryrkja, sjúklinga eða atvinnulausa þannig að hér er verið að ráðast mjög grimmilega að kjörum þessa fólks.

Það er auðvitað einnig ljóst, virðulegi forseti, að hér er ekki einungis verið að gera breytingar sem tengjast fjárlagaafgreiðslunni sem er nú kannski alvanalegt að sjá í bandormum. Hér er verið að gera grundvallarbreytingar á ýmsum mikilvægum lögum í þessu þjóðfélagi, ekki síst almannatryggingalögunum, lögum um málefni fatlaðra, málefni aldraðra o.s.frv.

Við fórum yfir það fyrr í dag, virðulegi forseti, þegar byrjað var að ræða þennan bandorm að hann snertir alla ráðherra í þessari ríkisstjórn. Það er ljóst að ríkisstjórn, sem leggur svona mikla áherslu á að fá þetta mál í gegnum þingið þó stutt lifi til jóla, hlýtur að gefa sér tíma til þess að sitja undir þessari umræðu sem hér fer fram. Ég tel því alveg nauðsynlegt, virðulegi forseti, að kalla til þá ráðherra sem þetta mál heyrir undir. Ég hef helst hug á að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Fjmrh. er auðvitað nauðsynlegt að fá hingað í salinn líka að ekki sé talað um hæstv. heilbrrh. Ég sé að hæstv. félmrh. heiðrar okkur með nærveru sinni og ég mun örugglega eiga orðastað við hann. Ég læt mér því nægja við fyrri hluta ræðu minnar ef þessir ráðherrar kæmu a.m.k. hingað í salinn.

(Forseti (GÁS): Forseti verður við því og gerir ráðstafanir til þess að fá nefnda hæstv. ráðherra til fundarins.)

Ég held að það liggi alveg í augum uppi að það virðist svo sem þessi ríkisstjórn, og við höfum reynslu af því frá því í vor, hafi í raun enga aðra stefnu en bullandi árás á velferðarkerfið í landinu, velferðarkerfi fólksins. Það er sorglegt til þess að vita að Framsfl. sem vann kosningabaráttuna undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi skuli standa að þessum aðgerðum sem við verðum vitni að dag eftir dag af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar er helst ráðist á báða bóga á garðinn þar sem hann er lægstur, að kjörum aldraðra, öryrkja og atvinnulausra svo ekki sé minnst á sjúka í þjóðfélaginu. Það er þeim mun alvarlegra, þar sem við erum á siglingu út úr kreppunni samkvæmt þjóðarspá, að ríkisstjórnin virðist helst sjá matarholurnar hjá þeim sem vart eiga til hnífs eða skeiðar.

Ráðherrarnir hafa talað um að það sé tiltölulega bjart fram undan, það sé efnahagsbati. Við vorum að fjalla um það á síðasta sólarhringi að tekjuhlið fjárlaganna skilar einum milljarði meira í ríkiskassann en menn gerðu ráð fyrir þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust. Og nóg var um atlöguna gagnvart þeim sem minnst mega sín í fjárlagafrv. En þegar birtir til, eins og sést af tekjuhlið fjárlaganna þar sem milljarði meira var til ráðstöfunar en menn gera ráð fyrir, er enn haldið áfram nánast á hverjum einasta degi að finna nýja matarholu, einhverjar nýjar aðgerðir, einhverja nýja atlögu gagnvart þeim sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu. Það er alveg furðulegt að hv. framsóknarmenn skuli standa að þessum aðgerðum. Ég er svo sem ekkert hissa á sjálfstæðismönnum. Þeir sýna sitt rétta andlit en það gerðu framsóknarmenn ekki fyrir kosningar. Þeir gerðu það eftir kosningar. Þá féll gríman. Og ég held að þetta séu kannski mestu kosningasvik síðari ára sem Framsfl. er ber að á þessum haustdögum og vetrardögum núna fyrir jólin. Þar er hver jólaglaðningurinn á fætur öðrum sendur inn á heimili öreiga, aldraðra og sjúkra.

Sjálfstfl. er samur við sig. Hann verndar fjármagnseigendur og peningafólk í þjóðfélaginu með dyggri aðstoð framsóknarmanna og ræðst af fullkominni hörku á þá sem síst skyldi. Ég verð að segja að ég hafði meiri trú á framsóknarmönnum en svo. Það hafa orðið alger umskipti á framsóknarmönnum. Ekki einn einasti framsóknarmaður snýst til varnar gegn atlögu gagnvart þessum hópum. Ekki einu sinni nýir þingmenn Framsfl. eins og hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Örn Haraldsson, snúast til varnar fyrir þennan hóp. Ég verð að segja að ég bjóst við meiru af þessum hv. þm. sem auglýsti dag hvern, ég man ekki hvort það var í Morgunblaðinu eða DV, að hann stæði vörð um þetta og hitt í þjóðfélaginu. Það voru ekki síst aldraðir og öryrkjar og heimilin í landinu. Hvar er þessi hv. þm. nú? Af hverju snýst hann ekki til varnar fyrir þessa hópa í þjóðfélaginu?

Nei, þetta eru svik og blekkingar við fólkið í landinu þar sem eitt er sagt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Ég bjóst líka við miklu af hv. 4. þm. Reykn. þegar hann settist í þingsalinn. Og mér fannst aðeins bjartara um að litast í þessari leiðinlegu ríkisstjórn þegar ég sá hér ungan og sprækan þingmann eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég var alveg sannfærð um að hún mundi með dyggri aðstoð heilbrrh. standa vörð um það þegar sjálfstæðismenn færu að gera atlögu að velferðarkerfinu eins og þeir gera ávallt þegar þeir eru í ríkisstjórn. Það hefur ekkert heyrst frá hv. þm., ekki orð. Á hverjum einasta degi sjáum við atlögu gagnvart þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Og jafnvel þótt við sjáum aukningu, hv. þm., á tekjuhlið fjárlaganna, eða um 1 milljarð kr., er enn ráðist að öldruðum. Ykkur þarf því ekki að undra, hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar, að við skulum standa hér í ræðustóli og þurfa að tala nokkuð mikið um þetta mál sem hér er til umræðu.

Ég geymi mér viss atriði, virðulegi forseti, þar til hæstv. heilbrrh. heiðrar okkur með nærveru sinni sem ég vona að verði fljótlega. Ég get enn sýnt biðlund ef ráðherrann er vant við látinn.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess af þessu tilefni að hæstv. forsrh. er í húsinu og hefur fengið boð um óskir hv. þm. Hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. eru hins vegar ekki í húsinu. Þeim hafa verið gerð boð um að mæta hingað til fundar og hlýða á mál hv. þm. Við vonum því hið besta.)

Ég hef ekki gert mikið af því að ónáða hæstv. heilbrrh. en mér finnst full ástæða til að hressa upp á minni hæstv. ráðherra. Það virðist svo að gleymskan sé það mikil að hæstv. ráðherra, sem var hér þingmaður fyrir ári, sé búinn að gleyma hverju einasta orði sem hann sagði í þessum ræðustól fyrir ári. Hún var með stór orð og yfirlýsingar. Hún gerði atlögu að þáv. ríkisstjórn og Alþfl. varðandi öll þau atriði sem hún stendur sjálf að núna í enn verri mynd. Ég ætla, virðulegi forseti, að fara yfir það sem fram kemur í þessum bandormi. Ég fer ekki yfir hverja einustu grein þótt ástæða væri til þess. Það hefur verið gert fyrr í dag úr þessum ræðustól. Ég fer þó yfir nokkur atriði sem ástæða er til að skoða sérstaklega.

Það hefði vissulega verið ástæða til þess líka, hæstv. forseti, að fá hingað hæstv. dómsmrh. vegna 18. gr. í þessu frv. Það er ákvæðið um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Maður hefur gegnum árin í þessum þingsal séð ýmislegt sem maður trúir varla að þessi virðulega stofnun ætli að festa í lög. En ég held að ég hafi aldrei séð ljótari aðgerð en þá sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir varðandi það að breyta ákvæðunum í nýsettum lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Og er þó af mörgu að taka.

Ég hef sagt og ræddi það í hv. allshn. að ég tel að það jaðri við að um brot á stjórnarskránni sé að ræða. Hér var verið að lögfesta ákvæði sem átti að ná til þolenda afbrota frá 1993. Ríkisstjórnin ætlaði sér að fella niður með lögum að þetta næði til ársins 1993, þótt hún sé kannski fallin frá því núna. Við erum ekki að tala um verulega stórar fjárhæðir í þessu sambandi. Dómarnir sem hafa fallið í þessu efni eru ekki upp á háar fjárhæðir. Ég hygg að þótt menn séu tala um 60 millj. kr. séu þessar tölur í reynd ekki svo háar þegar upp er staðið. En þær geta auðvitað skipt sköpum fyrir þolendur afbrota.

[21:30]

Hér á dögunum vakti athygli mína grein sem birtist í Morgunblaðinu sem var opið bréf til ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna af þessu tilefni. Þar var móðir að skrifa þeim bréf um afleiðingar og áhrif þess þegar dóttir hennar sem var nýlega orðin 16 ára hafði lent í þessari bitru reynslu. Hún lýsir andlegu ástandi dóttur sinnar. Hún lýsir hræðslu hennar við að fara út úr húsi um hábjartan dag, brotinni sjálfsímynd, ofsahræðsluköstum, sektarkennd og martröðum á hverri einustu nóttu, mánuðum saman. Hún talar um hvernig hún datt út úr skóla og tónlistarnámi vegna þessa og treysti sér varla til eins eða neins. Hún lýsir þrautagöngu sinni gegnum kerfið, sem er kapítuli út af fyrir sig, og hún lýsir því hvernig dómurinn síðan hljóðaði upp á fjögurra ára fangelsi og 500 þús. kr. miskabætur. Hún lýsir því í greininni að þegar hún hafði samband við lögfræðinginn kom hinn bitri sannleikur í ljós: 16 ára barnið átti sjálft að sjá um að innheimta sektina og það hjá stórhættulegum síbrotamanni. Þess vegna segir móðirin frá því að það hafi verið ljós í myrkri óréttlætisins, eins og hún segir, þegar Alþingi setti lög um greiðslu skaðabóta til fórnarlamba glæpamanna og skyldu þau taka gildi um áramótin 1995/1996. Þetta treysti fólkið á, virðulegi forseti, og hafði gert sínar ráðstafanir í samræmi við þessi lög sem voru sett á þinginu sl. vor. Farið var að skipuleggja nýja framtíð fyrir dóttur hennar varðandi nám og fleira en síðan kom hinn bitri sannleikur í ljós. Hún taldi að þessi lög væru viðurkenning yfirvalda á sjálfsögðum mannréttindum en sannleikurinn kom í ljós á þessu þingi, eins og hún orðar það: ,,Nú ætli þessi ríkisstjórn, sem komst á þing vegna fallegra loforða um bætt kjör þeirra sem minna mega sín og fegurra mannlíf í landinu, að sýna það snautlega atferli`` --- ég les orðrétt, virðulegi forseti, upp úr greininni í Morgunblaðinu --- ,,að fresta bótagreiðslum og ýmist að afnema þær eða lækka um helming. Þó sat rúmlega helmingur ykkar í þeirri stjórn sem samþykkti lögin, rétt fyrir síðustu kosningar.``

Móðirin endar greinina með því að segja, orðrétt, virðulegi forseti:

,,Ég spyr ykkur, virðulegu alþingismenn: Getið þið virkilega horfst í augu við sjálfa ykkur og samfélagið?``

Ég held að grein þessarar móður segi allt sem segja þarf um aðgerð ríkisstjórnarinnar sem er fyrir neðan allt velsæmi, virðulegi forseti. Ég hefði trúað því að hv. 4. þm. Reykn. sæi óréttlætið í þessu og mundi berjast mjög hart fyrir því í þingflokki sínum að fallið yrði frá þessari fráleitu aðferð. Við erum ekki þarna að tala um stórar fjárhæðir sem ekki hefði verið hægt að ráða við. Stjórnarandstaðan hefur komið með tillögur um hvernig afla skuli tekna á móti til að fallið verði frá þessari aðgerð, sem fólkinu var lofað með lögum. Ég held að þetta jaðri við stjórnarskrárbrot. Það er alveg ástæða til þess, virðulegi forseti, að hafa mörg orð um þessa grein í frv.

Ég ætla næst að víkja að lögunum um málefni fatlaðra, sem heyra undir hæstv. félmrh. Hér er ráðist að sjóði fatlaðra sem ég held að hafi verið pólitískt samkomulag um að skerða ekki. Í síðustu tveimur ríkisstjórnum var það samkomulag að skerða ekki Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þó að menn þyrftu að fara í niðurskurð á ýmsum stöðum þá var pólitísk samstaða um það í fyrri ríkisstjórnum. Menn vissu, ekki síst þeir sem setið höfðu lengi á þingi, hver var ástæðan fyrir því að þessi framkvæmdasjóður var samþykktur. Það var vegna þess að málaflokknum hafði ekki verið sinnt og menn töldu ástæðu til þess að setja verulegt fjármagn í hann til þess að jafna stöðu fatlaðra gagnvart öðrum hópum í þjóðfélaginu. Það hefur verið gert gífurlegt átak í því efni.

Árið 1991 var fallist á og samstaða um að sjóðurinn tæki að hluta til á sig ýmis rekstrarverkefni, gegn því skilyrði, hæstv. félmrh., að hann fengi óskertar tekjur erfðafjársjóðs, ég vona að ráðherrann hlýði á mál mitt, að ekki væri verið að skerða tekjur sjóðsins og setja hluta af erfðafjárskatti í ríkissjóð. En nú bregður svo við að hér er alger stefnubreyting, undir forustu hæstv. félmrh. Hér er gerð grundvallarbreyting sem samstaða hefur verið um í þinginu að gera ekki, Tekjur sjóðsins eru skertar tekjur og ekki um neina smáaura. Í fararbroddi er hæstv. ráðherra, virðulegi forseti. Hann stendur fyrir því að skerða sjóðinn um 150 millj. kr. Þar af eru 130 millj. kr. (Gripið fram í.) Já, ég held að hv. þm. Guðni Ágústsson ætti að hlýða á mál mitt. Ég hélt einmitt að hann bæri fyrir brjósti hag fatlaða. Hér stendur hv. þm. og ætlar að standa að því að skerða framlög í sjóðinn um hvorki meira né minna en 150 millj. kr. Hvaða áhrif heldur hv. þm. að það hafi á hagi fatlaðra? Ég vænti þess að hann hafi hlustað á formann Öryrkjabandalagsins nýverið sem lýsti því hvernig hundruð fatlaðra, bara í Reykjavík, væru á biðlista eftir búsetuúrræðum. Hv. þm. ætlar væntanlega að styðja hæstv. félmrh. í því að skerða framlög í sjóðinn. (ÖS: Hann er í stjórnarandstöðu ...) Ég vænti þess að það komi í ljós við atkvæðagreiðslu að hv. þm. styðji okkur stjórnarandstöðuþingmenn í því að verja sjóðinn. Þetta eru 130 millj., hæstv. ráðherra, sem er erfðafjárskattur, sem gengur núna beint í ríkissjóð. Síðan eru það 20 millj. kr. sem áttu að ganga til uppbyggingar í málefnum geðfatlaðra. Það átti að vera fimm ára átak og ef ég man rétt þá er þetta síðasta árið. Þetta áttu að vera 20 millj. á hverju ári til þess að bæta úr slæmum aðstæðum sem geðfatlaðir búa við. En hæstv. ráðherra stendur að því að skerða sjóðinn um 150 millj. kr.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra og hv. þm. Guðni Ágústsson hafa lesið skýrslu landlæknis um stöðu geðfatlaðra. Verulegt átak hefur verið gert í fyrir geðfatlaða á sl. fjórum árum, sérstaklega varðandi búsetuúrræði því að margir þeirra eru á götunni og í reiðuleysi. Nei, nei. Ríkisstjórninni kemur það náttúrlega ekkert við. Þar er ein matarholan til að ráðast í. Hún sér ekkert nema þá sem verst hafa það í þjóðfélaginu. (GÁ: ... ráðherrann úr ríkisstjórn?) Ráðherrann fyrrverandi --- ég held að ég hafi lagt sérstakan metnað í að framlög kæmu í þennan sjóð, Framkvæmdasjóð fatlaðra. Aldrei nokkurn tímann var gerð atlaga að þessum sjóði þótt skorið væri niður. Menn vissu fyllilega um þörfina og hve brýnt væri að sjóðurinn væri óskertur þrátt fyrir þær þrengingar sem við höfum búið við. Það er athyglisvert, hv. þm., (Gripið fram í.) að í þau sjö ár sem við gengum í gegnum samdrátt og efnahagsþrengingar var þessi sjóður ekki skertur. Menn stóðu nefnilega vörð um málaflokkinn. En núna þegar birtir til, við sjáum efnahagsbata og bjartara er fram undan, þá tekur ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sig til og skerðir þennan mikilvæga sjóð. Meira að segja Tímanum blöskrar þetta, málgagni hæstv. ráðherra og hv. þm. Guðna Ágústssonar. (Gripið fram í.) Maður sér í fyrirsögnum hvernig málgagnið hneykslast á þingmönnum Framsfl.: ,,Ríkissjóður seilist í erfðafé fatlaðra.`` Það er meira að segja gengið fram af málgagni hv. þm. (Gripið fram í: Er þetta í Tímanum?) Þetta er í Tímanum, hv. þm. Mig rak í rogastans og las fyrirsögnina aftur og aftur. (Gripið fram í: Ég trúi því.) ,,Ríkissjóður seilist í erfðafé fatlaðra.`` Þar fundu þeir músarholu, 150 millj. kr. (Gripið fram í: Það er góð hola.) (Gripið fram í: Tíminn styður eitt og annað.) Hver eru svo rökin? Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. er nú kominn í salinn. Hver voru rökin fyrir því að skerða þennan sjóð? Jú, þeir voru að selja Sólborg á Akureyri og fengu fyrir Sólborg á Akureyri 80 millj. kr. sem síðan áttu að ganga í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þá var allt í lagi að skerða erfðafjárskattinn sem átti að renna í sjóðinn. En ég minnist þess að þegar ég var ráðherra, þá gekk hæstv. núv. heilbrrh. hvað eftir annað að mér og spurði um það þegar til stóð að selja Sólborgu hvort ekki væri öruggt að féð mundi renna í sjóðinn. Nú er það látið renna í sjóðinn en í staðinn eru teknar 150 millj. kr. sem þessi sjóður á að hafa. Þetta er nú öll reisnin. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar Framsfl. þekki langa biðlista sem er að finna hjá Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu eftir búsetuúrræðum fyrir fatlaða.

[21:45]

Þessi sjóður hefur einmitt haft það verkefni að fjármagna t.d. aðgengismál fatlaðra. Nú verður honum gert erfitt fyrir í þessu efni. Þetta er einmitt það sem Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg í Reykjavík og Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra hafa sérstaklega mótmælt skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þeir tala um að 173 millj. fari nú til almenns rekstrarkostnaðar í málefnum fatlaðra og er það til viðbótar 40% heimildinni. Það er því ekki ofáætlað að skerðing sjóðsins verði 143 millj. kr. og eru þá ekki taldar með þær 20 millj. sem eiga að ganga til geðfatlaðra.

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega mótmæla þessari aðgerð gegn fötluðum. Að þessu standa hv. þingmenn Framsfl. sem ætluðu að verja heimilin í landinu, verja kjör aldraðra og fatlaðra. Bara að kjósa Framsfl., þá yrði heimilunum borgið. (GÁ: Þetta er til enn.) En nú er þetta ekki lengur fólk í fyrirrúmi, þetta er Framsókn gegn kjörum fólksins í landinu. Ekki síst þess sem verst stendur.

Ég hef orðið vör við það undanfarna daga að það er ekki síst hv. þm. Guðna Ágústssyni sem líður mjög illa hér og ráfar um þinghúsið með hendur í vösum, órólegur mjög. Honum líður best í forsetastóli þar sem hann þarf ekki að standa fyrir máli sínu. Þetta er rétt byrjunin, virðulegi forseti, vegna þess að hér er af mörgu að taka.

Ég ætla næst, virðulegi forseti, að snúa mér að málefnum aldraðra. Nú hefur einmitt borist ályktun frá Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra. Þar er ýmsu af því sem fram kemur í bandorminum og reyndar fjárlögunum líka mótmælt og kallað aðför og atlaga að kjörum lífeyrisþega og aldraðra í þjóðfélaginu. Þar er listinn langur, virðulegi forseti. Það er ástæða til að fara yfir þann langa lista. Ég vísa í bréfið sem barst í dag frá landssambandi fatlaðra þar sem farið er yfir þau atriði sem koma m.a. fram í þessum bandormi.

Í gær var mikið rætt um tvísköttun á lífeyri. Nú er verið að taka skattafsláttinn af öldruðum en fyrir ári var hann jólagjöf ríkisstjórnarinnar rétt fyrir kosningar til aldraðra. Þar er verið að taka af öldruðum upphæð miðað við meðallífeyri sem samsvarar á bilinu 22--82 þús. kr. Hér getur verið um að ræða 6--7 þús. kr. á mánuði sem er verið að taka af fólki sem er kannski með 40--50 þús. kr. tekjur. Ég segi að þetta hljóti líka að jaðra við brot á stjórnarskránni. Fólkið treysti því að fá þessa upphæð. En jólagjöfin sem þessu fólki var rétt á sl. ári er tekin af því aftur núna rétt fyrir jólin. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Hvaða vitleysa, segir hv. þm. Þetta segir mér glögglega að hv. þm. er hættur að þora að lesa frumvörpin sem koma frá þessari ríkisstjórn ef hann veit ekki af þessari atlögu ríkisstjórnarinnar að fötluðum og öldruðum í landinu.

Síðan hefur borist frá Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra mótmæli vegna fjármagnstekna, að þær skuli skerða almannatryggingabætur. Ég er ekki hissa á því að landssamband fatlaðra mótmæli því. Ég vitna hér í bréfið fyrir hv. þm.:

,,Byrjað verður á því að skerða greiðslu til þeirra sem fá lífeyri, þ.e. aldraðra og öryrkja, gagnvart fjármagnstekjum áður en fjármagnstekjuskattur hefur verið lagður á aðra landsmenn.``

Þeir eru út af fyrir sig ekki að mótmæla því að fjármagnstekjur geti skert lífeyri. Þeir eru að mótmæla því að það sé byrjað á öldruðum og lífeyrisþegum áður en lög um fjármagnstekjuskatt eru komin á. Ég ætla að lesa hér bréf sem Sjálfsbjörg sendi frá sér í dag sem ég held að þurfi að skoða milli 2. og 3. umr. um þetta mál, virðulegi forseti. Ég tel að hér sé mjög alvarlegt bréf á ferðinni en þar segir, með leyfi forseta:

,,Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra lítur það alvarlegum augum ef niðurstaða Alþingis verður sú að fjármagnstekjuskattur verði látinn skerða bætur almannatrygginga.`` Hvar er hæstv. heilbrrh. nú? Ég spyr, virðulegi forseti, hlýðir hæstv. heilbrrh. á mál mitt?

(Forseti (GÁS): Forseti mun gaumgæfa hvort hæstv. ráðherra sé ekki nærstaddur og gera ráðstafanir til þess að fá hann enn nær.)

Ég tel að hún sé einhvers staðar í hliðarsal en það nægir mér ekki nema ég viti að hún hlýði á mitt mál. --- Já, gott að sjá hæstv. heilbrrh. í salnum. Við vorum einmitt að ræða í gær um fjármagnstekjuskattinn. Hann mun skerða bætur almannatrygginga á næsta ári og mér fannst hæstv. ráðherra hafa góð orð um það að hún mundi beita sér fyrir því að fjármagnstekjuskattur mundi ekki skerða bætur almannatrygginga fyrr en búið væri að setja heildarlög varðandi fjármagnstekjuskatt. Og ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa bréf frá landssambandi fatlaðra sem hljóðar svo:

,,Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra lítur það alvarlegum augum ef niðurstaða Alþingis verður sú að fjármagnstekjuskattur verði látinn skerða bætur almannatrygginga þegar byrjað verður á því að skerða greiðslu þeirra sem fá lífeyri, þ.e. aldraðra og öryrkja, gagnvart fjármagnstekjum áður en fjármagnstekjuskattur hefur verið lagður á aðra landsmenn á næsta ári.`` Síðan kemur það, virðulegi forseti, sem ég óska eftir að ráðherrann veiti athygli: ,,Það hlýtur að koma mjög til álita hvort hér er um brot á stjórnarskránni að ræða sem kveður á um að allir séu jafnir fyrir lögum. Auk þess er um afturvirkni skattalaga að ræða og svo virðist að gengið sé einnig gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þessi aðgerð kemur mjög í bakið á ákveðnum hópi í þjóðfélaginu þar sem skattur á fjármagnstekjur vegna ársins 1995 verður látinn skerða bætur á árinu 1996.

Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra mun leita niðurstöðu hjá umboðsmanni Alþingis verði þetta ákvæði að lögum.``

Hér er verið að segja að það sé álitaefni hvort hér sé hreinlega um brot á stjórnarskránni að ræða. Þegar við hv. þingmenn fáum í hendur svona alvarlegt bréf frá landssambandi fatlaðra, hlýt ég að gera kröfu til þess að hv. efh.- og viðskn. fjalli um þetta mál milli 2. og 3. umr. Ég kem þeirri ósk á framfæri, virðulegi forseti, að þegar við erum komin með svona alvarlegt bréf í hendurnar að hv. nefnd fjalli um það mál og fái úrskurð lögfróðra aðila um það hvort hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða.

Mér sýnist reyndar á þessu bréfi að hér sé um tvíþætt brot eða a.m.k. komi til álita að hér sé um tvíþætt brot að ræða. Annars vegar að allir skuli jafnir fyrir lögum en hér er verið að leggja skatt á einn ákveðinn þjóðfélagshóp, fjármagnstekjuskatt, og í annan stað er um afturvirkni skattalaga að ræða, ef ég skil málið rétt, vegna þess að skattur á fjármagnstekjur aldraðra á yfirstandandi ári, árinu sem er að líða, verður látinn skerða bætur almannatrygginga á næsta. Maður spyr því: Ef aldraðir hefðu vitað fyrr á árinu að fjármagnstekjur mundu skerða bætur þeirra á næsta ári, hefðu þeir þá ekki gert aðrar ráðstafanir? Það er ávallt svo, hæstv. ráðherra, og hef ég mörg vitni að því á þingi, að þegar kemur að því að leggja skatta á fyrirtæki kannski í desembermánuði sem eiga að taka gildi í janúarmánuði, er því alltaf borið við að þar sé um að ræða afturvirkni skattalaga. En hvað annað er hér um að ræða en afturvirkni skattalaga? Fjármagnstekjuskattur eða skattur á vexti sem til falla á árinu sem er að ljúka á að skerða bætur almannatrygginga á næsta ári og þetta er ekki einu sinni orðið að lögum. Mér finnst ekki skrýtið þótt hér liggi fyrir bréf frá landssambandi fatlaðra sem varar Alþingi við að samþykkja þessi lög og segist leita álits umboðsmanns Alþingis verði þetta að lögum. Ég ítreka því ósk mína um það, virðulegi forseti, að nefndin sem um þetta fjallar, efh.- og viðskn., ræði þetta milli umræðna. Ég held að það hljóti að koma til álita, og þá reynir á orð hæstv. heilbrrh. hér í gær, að það verði flutt tillaga sem kveður á um að þetta ákvæði í bandorminum komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt. Þetta ákvæði á að taka gildi 1. september á næsta ári gagnvart vaxtatekjum á þessu ári og þá finnst mér útgjaldalaust fyrir hæstv. ráðherra, ef hann meinar það sem hann sagði í gær, að samþykkja tillögu þess efnis, hugsanlega ákvæði til bráðabirgða, að þetta ákvæði komi til framkvæmda um leið og sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að þykja það mjög ásættanleg niðurstaða. Væntanlega munum við í stjórnarandstöðunni styðja ráðherrann í að fá þetta samþykkt á þingi. Þegar fyrir liggur bréf frá landssambandi fatlaðra þar sem að því er látið liggja að hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða og aldraðir munu leita til umboðsmanns Alþingis, getur það ekki verið nein spurning að við verðum að lögfesta ákvæði um að byrja ekki að skerða bætur fyrr en sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt.

Síðan er hér sérkennilegt ákvæði sem felur í sér að skerða tekjutryggingu þeirra sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóð, eins og orðað er í fjárlagafrv. Þetta hefur nokkuð verið rætt og ástæða til að ræða það frekar hvaða hópa er hér verið að tala um. Hæstv. ráðherra nefnir að hér sé eingöngu um atvinnurekendur að ræða sem ekki hafi greitt í lífeyrissjóði og það sé verið að reyna að ná til þeirra með þessu. Hér sé ekki um að ræða að verið sé að skerða tekjutryggingu þeirra sem ekki hafa getað greitt í lífeyrissjóð eins og öryrkja á vernduðum vinnustöðum, heimavinnandi fólk o.s.frv.

Síðan var ákvæði um frekari skerðingu á grunnlífeyri, að hann verði skertur um 35% gagnvart tekjum í stað 25%. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kom mér mjög á óvart að sjá þessa breytingu sem nýlega er til komin. Ég hélt reyndar að hér væri nóg að gert. En ríkisstjórninni fannst það greinilega ekki og leggur til að ofan á ýmsa aðra skerðingu á kjörum þessa hóps lífeyrisþeganna og aldraðra verði grunnlífeyririnn einnig skertur um 35% gagnvart tekjum en ekki 25%.

[22:00]

Ég minnist þess að hæstv. heilbrrh. var mjög mikill málsvari lífeyrisþega á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra steig aftur og aftur í ræðustól og skammaðist m.a. út í forseta þann sem nú situr í stóli sem þá var hæstv. heilbrrh. og taldi hann ganga mjög hart að kjörum lífeyrisþega. Ég verð að segja það að hæstv. ráðherra sem þá var þingmaður varði kjör þessara hópa með mikilli reisn. En nú gengur hæstv. heilbrrh. miklu lengra en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson þegar hann var ráðherra eða hv. þm. Sighvatur Björgvinsson þegar hann var heilbrrh. og áttu framsóknarþingmennirnir mörg orð þá til þess að hneykslast yfir framferði forvera sinna í starfi, hvernig þeir réðust að kjörum þessara hópa.

Síðan vil ég einnig ræða það sem ég raunar trúði ekki að hæstv. ráðherra mundi standa að en það er að gjaldtaka fyrir sérfræðilæknisþjónustu og heilsugæslu yrði hækkuð, vegna þess að ég taldi þegar við ræddum þessi mál í gær að hæstv. ráðherra mundi beita sér fyrir því að hlífa öldruðum, öryrkjum og barnafjölskyldum við þessari hækkun á komugjaldi. Hæstv. ráðherra talaði ekki svo sjaldan fyrir ári síðan um sjúklingaskatt og menn fyndu ekki neitt nema sjúklingaskatta og hækka þjónustugjöld á fólk en hér er hæstv. ráðherra nákvæmlega að beita sér fyrir sjúklingasköttum, hækkun á þjónustugjöldum. Ég hélt að hæstv. ráðherra mundi hlífa a.m.k. öldruðum og öryrkjum við þessari kostnaðarhækkun og þjónustugjaldi á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga. Mér fannst og ég skildi ekki orð hennar öðruvísi í gær en að hæstv. ráðherra mundi gera það. En samkvæmt samtölum mínum við ráðherrann í dag virðist vera komið annað hljóð í hæstv. ráðherra og það eigi ekki að hlífa þessum hópi. Það veldur mér vissulega miklum vonbrigðum að svo er.

Virðulegi forseti. Áður en ég vík frá því sem snýr að málefnum heilbrrh. er ástæða til að fara yfir ályktun frá Alþýðusambandi Íslands sem þingmönnum barst í dag. Eftir því sem menn átta sig betur á því með hverjum degi hvað þetta er grimmileg atlaga að kjörum fólksins, aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu, eru samtök þessara hópa og verkalýðshreyfingin farin að senda inn ályktanir til að mótmæla eins og það er orðað ,,atlögu ríkisstjórnarinnar að velferðarkerfinu``. Ég ætla að lesa þessa ályktun, virðulegi forseti. Ég þarf að beina spurningu til hæstv. ráðherra í sambandi við ályktunina og ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi fengið hana. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega tillögum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar um verulegan niðurskurð og aukna gjaldtöku í heilbrigðis- og tryggingakerfinu sem kynntar hafa verið undanfarna daga. Ef þessar tillögur verða samþykktar á Alþingi jafngilda þær einhverri alvarlegustu og víðtækustu atlögu að velferðarkerfinu sem nokkur ríkisstjórn hefur kynnt í seinni tíð.``

Þetta er góð einkunn fyrir flokkinn sem segir ,,fólk í fyrirrúmi``. (Gripið fram í: Og stendur við það.) Hvað segja stærstu samtök launafólks? Þau segja að hér sé um að ræða víðtækustu atlögu að velferðarkerfinu sem nokkur ríkisstjórn hefur kynnt í seinni tíð. Það er bara hvorki meira né minna, þannig að það er tekið undir það sem við höfum verið að vara við. Og það er enn tími, hv. þm. Guðni Ágústsson og hæstv. félmrh., til að sjá að sér í þessu efni vegna þess að atkvæðagreiðslan er eftir. Er hv. þm. að bera það upp á Alþýðusamband Íslands að það sé að skrökva í þessu bréfi? (Gripið fram í.) Hv. þm. taldi það nú alltaf heilagan sannleik sem kom frá Alþýðusambandi Íslands þegar hann var í stjórnarandstöðu ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Framsfl. eru algerir umskiptingar. Það er sama hvar maður ber niður í þessu efni. Þetta eru ekki sömu menn og voru hér fyrir ári síðan. Þið eruð búin að plata fólk til að kjósa Framsfl. og þá bara snúið þið við blaðinu, bara sisvona. Ég held að ég hafi aldrei nokkurn tíma á mínum ferli á þingi upplifað annað eins. Ég ætla að fá að halda áfram, virðulegi forseti, því að hér er sagt að þetta sé víðtækasta atlaga að velferðarkerfinu sem nokkur ríkisstjórn hefur kynnt í seinni tíð og síðan segir:

,,Miðstjórn ASÍ lýsir sig algerlega andsnúna áformum ríkisstjórnarinnar um að afnema þær tengingar sem verið hafa um áratuga skeið milli bótafjárhæða almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga og kjarasamninga verkalýðsfélaganna. Með því væri ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að þessir hópar, sem búa við lökustu kjörin, fái notið þeirra kjarabóta sem um semst í kjarasamningum. Ef þetta ranglæti verður látið koma til framkvæmda mun verkalýðshreyfingin þegar við undirbúning að gerð næstu kjarasamninga á komandi hausti taka þetta mál til umfjöllunar með kröfu um að tengingin verði órofin eða með beinum kröfum um hækkanir á þessum bótum til samræmis við breytingar á kjarasamningum, áður en formlega verður gengið frá kjarasamningum við viðsemjendur.

Miðstjórn ASÍ átelur harðlega útfærslu ríkisstjórnarinnar á hækkun almannatryggingabóta um næstu áramót. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. nóvember sl. ættu allir bótaflokkar ...`` og nú kemur að hæstv. ráðherra að hlusta, af því að ég beini spurningum til ráðherrans. ,,Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. nóvember sl. ættu allir bótaflokkar almannatrygginga að hækka um 3,5% frá og með 1. janúar nk. Nú hefur komið í ljós að fyrirhugað er að þessi hækkun nái ekki til allra bótaflokka almannatrygginga. Miðstjórn ASÍ krefst þess að þessi hækkun verði látin ná til allra bótaflokka almannatrygginga eins og fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega tillögum ríkisstjórnarinnar um að hækka gjaldtöku á sjúklinga vegna komu til heimilislækna og sérfræðinga og telur að skattlagning á veikindum fólks samrýmist engan vegin þeirri grundvallarforsendu sem velferðarkerfið hefur byggt á.

Miðstjórn ASÍ lýsir einnig megnustu andúð sinni á tillögu heilbrigðisráðherra um að auka enn frekar við tekjutengingu grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega úr 25% í 35%. Það framferði að hækka skattbyrði elli- og örorkulífeyrisþega sem eru með tekjur á bilinu 68--100 þúsund króna með þessum hætti en halda skattbyrði þeirra sem eru með yfir 300 þúsund krónur á mánuði óbreyttri segir meira um pólitískar áherslur og siðferði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar en orð fá lýst.``

Ég tek undir þetta en mér finnst alveg óþarfi að kenna hæstv. heilbrrh. um. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi verið þröngvað til þess af Sjálfstfl. að fara þessa leið. Ég trúi því að það sé þvert gegn vilja hæstv. heilbrrh. að leggja þessar auknu álögur á lífeyrisþega. En ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. að því og vænti þess að fá svar við því hvort það sé rétt sem fram kemur hér að þessi fyrirhugaða hækkun, 3,5%, nái ekki til allra bótaflokka almannatrygginga eins og um var samið í kjarasamningum.

Virðulegi forseti. Það er af ýmsu að taka sem ég get út af fyrir sig látið bíða 3. umr. Það er löng mælendaskrá og ég veit að það eru margir sem vilja komast að. En ég vil ræða örfá atriði til viðbótar. Það snertir ekki síst 61. gr. Hún er mjög sérstæð eins og hér hefur komið fram og raunverulega veit enginn hv. alþm. hvað hann er að samþykkja með þessari grein. Hún orðast svo:

,,Ekki má setja á fót nýja ríkisstofnun, nema með lögum. Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt, telji hann það hagkvæmt, að sameina þjónustusvæði og semja við sveitarfélög eða einkaaðila um að þeir taki að sér að veita þjónustu sem tiltekinni ríkisstofnun er ætlað að veita, svo og að heimila einni ríkisstofnun að taka að sér þjónustu sem er á ábyrgð annarrar ríkisstofnunar. Flutningur verkefna og fjárheimilda samkvæmt þessari málsgrein skal vera tímabundinn.``

Það er enga skýringu að fá í frv. um hvað hér er raunverulega á ferðinni. Eftir því sem mér best skilst hafa engar upplýsingar heldur komið fram um það í þeirri nefnd sem fjallað hefur um þetta mál hvaða einkavæðing er hér á ferðinni. Ég óttast mjög að hægt sé að beita þessari einkavæðingu, t.d. gagnvart heilbrigðiskerfinu. Ég spyr: Er það nokkuð á döfinni að beita þessari grein, t.d. að því er varðar einkavæðingu á velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu? Það er mjög nauðsynlegt að fá það upplýst og það er ekki boðlegt fyrir Alþingi að hér sé verið að setja fram ákvæði í frv. sem enginn veit hvað þýðir og síðan geti framkvæmdarvaldið og ráðherrarnir farið með það nánast eins og þeim þóknast. Því er mjög mikilvægt að þessi grein sé skoðuð sérstaklega.

Virðulegi forseti. Það er af nógu að taka og ég mun ræða málið frekar, annaðhvort síðar í þessari umræðu eða við 3. umr. málsins. Margt af því sem ég hefði viljað ræða fellur einnig undir fjárlagagerðina og mun ég taka upp ýmsa þætti þessa máls þar. Það á við um m.a. Framkvæmdasjóð fatlaðra sem ég ræddi mikið. Ég trúi vart enn að framsóknarmenn og hæstv. félmrh. ætli að hafa forgöngu um að breyta þessum sjóði sem hefur grundvallarþýðingu fyrir fatlaða og brjóta upp þá samstöðu sem verið hefur milli allra flokka á þinginu um að þessi sjóður ætti að hafa óskertar tekjur erfðafjársjóðs og það sé verið að skerða sjóðinn eins og hér er gert. Hér erum við að tala um verulegar fjárhæðir. Þetta var raunverulega forsenda fyrir því að sjóðurinn tók á sig aukin verkefni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hugsar sér í þessu efni. Hæstv. félmrh. hefur væntanlega kynnt sér þau mörgu viðfangsefni sem þessi sjóður hefur og hæstv. ráðherra hlýtur að hafa kynnt sér þá löngu biðlista sem eru hjá fötluðum, hjá Sjálfsbjörgu og Öryrkjabandalaginu. Öryrkjar svo að hundruðum skiptir bíða eftir búsetuúrræðum.

Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég held að það sé nauðsynlegt og ítreka það að milli 2. og 3. umr. verði skoðað það bréf sem hefur borist frá landssambandi fatlaðra um að hér gæti verið á ferðinni stjórnarskrárbrot að því er varðar það að fjármagnstekjur fyrir árið 1995 geti skert bætur á næsta ári. Ég ítreka því þá ósk mína að það verði gert.

Ég lýk svo máli mínu, virðulegi forseti, að sinni en mun síðar í umræðunni eða við 3. umr. fara nánar yfir ýmis atriði sem ekki hefur gefist tími til þess að ræða frekar.