Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 22:18:53 (2233)

1995-12-20 22:18:53# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[22:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Framsfl. og ekki síst hv. þm. Guðna Ágústssyni er einstaklega lagið að snúa hlutunum á hvolf. (Gripið fram í: Hann er á hvolfi.) Ég trúi því ekki að hann finni ekki fyrir því að öryrkjar og aldraðir um allt land eru skelfingu lostnir yfir þeim aðgerðum sem þessi ríkisstjórn stendur að. Ég spyr þingmanninn: Hefur hann ekki lesið bréf sem komið hefur frá Sjálfsbjörgu þar sem í 10 liðum er farið yfir þá atlögu sem framsóknarmenn standa nú að gagnvart fötluðum, öldruðum og atvinnulausum? Bara einn liðurinn, afnám á tvísköttun aldraða, getur þýtt 82 þús. á ári fyrir lífeyrisþega, og þá á ég níu atriði önnur eftir ótalin. Ég tel ástæðu til þess að biðja um orðið aftur og bið um að ég verði sett á mælendaskrá vegna þess að ég get ekki í stuttu andsvari farið yfir allar þær staðreyndir sem hv. þm. lokar eyrum og augum fyrir. Ég þarf að flytja ræðu mína enn einu sinni til að fara ítarlegar í málið og stafa ofan í þingmanninn þá grimmu atlögu sem Framsfl. stendur að gagnvart fötluðum og öldruðum í þjóðfélaginu.

Hvað sjóð öryrkja varðar bið ég hv. þm. um að lesa fjárlagafrv. betur. Það eru 257 millj. í Framkvæmdasjóði fatlaðra og það er verið að ráðast að þeim sjóði sem aldrei hefur verið gert fyrr á undanförnum árum. 150 millj. kr. skerðing lengir biðlistana en nú skipta öryrkjar sem bíða eftir búsetuúrræðum hundruðum. Ég bið hv. þm. að fara með rétt mál úr þessum ræðustóli.