Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 23:06:49 (2243)

1995-12-20 23:06:49# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[23:06]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég mun í aðalatriðum gera grein fyrir brtt. minni hluta efh.- og viðskn. varðandi bandormsfrv. sem hér er til umræðu. Þetta frv. sem er meginþáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar er vont frv. bæði að efni til og formi. Það eru margvísleg efnisatriði í því sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega og komu mjög skýrt fram í ræðum stjórnarandstæðinga í efh.- og viðskn., þeirra hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, auk þess sem Kristín Ástgeirsdóttir ræddi málið hér ítarlega. Þær brtt. sem minni hlutinn leggur til eru á þskj. 444 og þær eru 26 talsins þannig að það er augljóst að það er mjög margt athugavert við frv. Þær brtt. sem minni hlutinn leggur til og lúta að 1., 2., 3., 4. og 5. gr. frv., kveða allar á um að gera ekki þá varanlegu skerðingu á tekjustofnum á sviði menntamála eins og meiri hlutinn leggur fyrir. Það er afnuminn fastur tekjustofn Listskreytingasjóðs og Kvikmyndasjóðs. Það eru gerðar breytingar á tekjumöguleikum Ríkisútvarpsins og það eru skertar tekjur til þjóðminjavarna.

Við teljum að kjósi ríkisstjórnin að skerða þessi framlög til að koma fram sínum fjárlögum, sem má vera stefna hennar, þó við séum ekki sammála henni, þá beri að gera það með svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum og gera ekki varanlegar breytingar í bandormi rétt fyrir jól þegar verið er að afgreiða fjárlög. Þessi stefna að afgreiða nú með þessum hætti eins og meiri hlutinn leggur fyrir er gjörsamlega óviðunandi, ekki einungis fyrir þá sjóði sem hér um ræðir heldur fyrir þingstarfið í heild. Þessi mál eiga að koma fram í sérstöku frv. og fá eðlilega þinglega meðferð. Allir þessir sjóðir byggja á sérlögum og það má vel vera að það sé eðlilegt að endurmeta tekjustofna þeirra en þá eiga menn ekki að smygla þeim inn í bandorm eins og hér er gert til að ná þannig fram varanlegum breytingum sem auk þess er mikið vafamál að séu til bóta. Okkar tillögur miða við það að þetta mál verði afgreitt með svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum en að fjárlagatillögurnar sem meiri hlutinn leggur til standi. Þetta væri þinglega rétt afgreiðsla á málinu.

5. brtt. okkar sem varðar Stofnlánadeild landbúnaðarins er sömuleiðis þessa efnis um að gera ekki niðurfellinguna varanlega heldur endurskoða það í heild við betra tækifæri.

6. brtt. okkar lýtur að ákvæði um Fiskveiðasjóð. Við leggjumst gegn því að þetta sé fellt varanlega niður, ekki vegna upphæðarinnar heldur vegna þess að það er óóeðlilegt breyta á einhvern hátt stöðu Fiskveiðasjóðs, sérstaklega í ljósi þess að það eru uppi hugmyndir að breyta rekstrarfyrirkomulagi hans á næsta ári.

7. brtt. okkar lýtur að því að fella brott 15. og 16. gr. bandormsins. Þar er fjallað um Fiskistofu og Reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Það er fullkomlega óeðlilegt að taka þessi ákvæði inn í bandorminn með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar.

8. brtt. okkar er um samsvarandi ákvæði varðandi kirkjubyggingasjóð. Vera má að þetta þurfi endurskoðunar við en þá eiga menn að gera það í víðara samhengi í sérstöku frumvarpi.

Áður en ég kem að 9. brtt. okkar sem fjallar um 18.--20. gr. frv. um þolendur afbrota, vil ég geta þess að það hefur verið tekist mjög harkalega á um bandorminn undanfarna daga. Þær viðræður sem hafa fyrst og fremst verið innan efh.- og viðskn. hafa leitt til þess að meiri hlutinn leggur nú fram brtt. við þennan sama bandorm. Þessar brtt. meiri hlutans eru gerðar til að mæta gagnrýni okkar og aðila í þjóðfélaginu varðandi þau skerðingarákvæði sem voru í bandorminum. Þannig eru endurbættar núna greinar varðandi bætur til þolenda afbrota en það var með eindæmum ákvæðið í bandorminum sem gerði það að verkum að nýsett lög voru í reynd afnumin. Það má lýsa því þannig að hafi lögin gert ráð fyrir greiðslum eða réttindum sem við getum mælt í 100, má segja að bandormurinn sýndi að niðurstaðan væri um 30, 30% af þeim fyrirheitum sem lögin kváðu á um voru í bandorminum. Nú hefur meiri hlutinn, því miður, ekki fallist á að fella niður þessi skerðingarákvæði algjörlega heldur gert á þeim endurbætur þannig að ekki verður um að ræða þá 70% skerðingu sem þar var gert ráð fyrir. Nú er komið inn að taka tillit til vaxta auk þess sem bætur hafa verið hækkaðar og getum við þá sagt á sama mælikvarða að nú séu komin 70% af þeim áætluðu 100 sem upphafleg lög gerðu ráð fyrir. Þetta er til bóta og minni hlutinn fagnar því að þessi breyting hafi verið gerð. Vissulega hefði þurft að gera þarna betur og þetta ákvæði í bandorminum hefði vitaskuld átt að fella niður eins og við gerum tillögu um í 9. brtt. okkar.

Varðandi brtt. meiri hlutans vil ég geta þess að það er ekki einungis varðandi þolendur afbrota sem meiri hlutinn hefur komist að því að rétt sé að lina þau högg sem bandormurinn greiddi því það eru einnig gerðar breytingar á ákvæðum 28. gr. frv. sem varðar eitt af grundvallaratriðum þess þ.e. um afnám tengingar atvinnuleysisbóta við laun og verðlag. Þetta er það ákvæði sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt hvað harðast í þessari umræðu. Nú er gerð brtt. af hálfu meiri hlutans um að þegar þessar bætur eru ákveðnar á fjárlögum, þá bætist við í þessa grein að þessar bætur ákvarðist, með leyfi hæstv. forseta: ,,... með tilliti til þróunar launa, verðlags- og efnahagsmála``. Hér eru gefin fyrirmæli í lögum með hvaða hætti löggjafinn mun ákvarða þessar bætur þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Það hefði vissulega verið betra að fella þessa grein algjörlega út en það verður ekki á allt kosið í þeim efnum og þessi brtt. sem meiri hlutinn gerir er þó í áttina að meira réttlæti varðandi þennan þátt.

Ein af brtt. sem meiri hlutinn lagði til varðandi bandormsfrumvarpið var um skerðingu á lífeyrisgreiðslum sem eru nú 25%. Upprunalega var gert ráð fyrir að hækka þessa skerðingu í 35%. Nú gerir meiri hlutinn tillögu um að skerðingin verði 30%. Þarna er dregið úr skerðingu. Því ber að fagna en vissulega hefði verið best að þetta ákvæði hefði verið fellt niður.

[23:15]

35. gr. frv. er aðalgrein þess og varðar það að afnumin er tenging bóta almannatryggingakerfisins við laun og verðlag í landinu sem verið hefur um langt árabil. Sú breyting er gerð að sett er inn ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: ,, Frá 1. jan. 1996 til ársloka 1997 skulu eftirfarandi ákvæði gilda í stað ákvæða 65. gr. laganna ...`` Jafnframt kemur inn í textann tilvísun til þess að þessar bætur, þegar þær eru ákveðnar á fjárlögum, skulu settar þannig í fjárlög að það sé með tilliti til þróunar launa og verðlags- og efnahagsmála. Þessi útfærsla gildir einungis í tvö ár eins og brtt. meiri hlutans hljóða nú upp á. Við í minni hlutanum fögnum þessari brtt. og teljum hana stefna í rétta átt. Þarna er að nokkru komið til móts við gagnrýni okkar varðandi þennan þátt þótt svo við hefðum kosið að þetta ákvæði hefði verið fellt algerlega úr og það fyrra öryggi gagnvart bótaþegum hefði mátt standa. Einnig er gerð sú breyting að 61. gr. frv., sem fjallar um mjög sérkennilega endurskipulagningu í ríkisrekstri, er tekin út úr bandorminum og það er víst ætlun ríkisstjórnarinnar að taka það mál í sérstöku frv. til eðlilegrar, þinglegrar meðferðar. Jafnframt er dregin til baka tillaga sem varðar það að felldar eru niður bætur sem nema 600 kr. og lægra á mánuði. Þetta var eitt af þeim skerðingarákvæðum sem við gagnrýndum harðlega en þessi hlutur er dreginn til baka í tillögum meiri hlutans.

Eins og heyra má á þessari upptalningu eru fjölmörg atriði sem meiri hlutinn leggur fram sem betrumbæta þennan bandorm að nokkru leyti og hér er komið eitthvað til móts við þá gagnrýni sem við höfum haldið uppi á þessu frv. Í ljósi þess hafa nokkrar af brtt. minni hlutanum náð fram að ganga með þessum brtt. meiri hlutans en þrátt fyrir það standa nógu margar eftir svo þær koma allar til atkvæða. Við teljum að það hefði þurft að gerbreyta þessu frv. og stjórnarandstaðan í heild er andsnúin því þrátt fyrir að hér hafi verið gerðar nokkrar lagfæringar á því.

Í 13. brtt. á þskj. 444 gerum við tillögur um að fella niður þau ákvæði sem kveða á um fjármagnstekjuskatt eldri borgara. Eini fjármagnstekjuskatturinn sem ríkisstjórnin leggur á er gagnvart eldri borgurum. Þetta finnst okkur vera ósanngirni. Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til að fá stjórnarliða ofan af þessari ráðagerð. Þeir koma að nokkru til móts við það með því að lækka það hlutfall í útfærslu þessarar greinar en hér er samt sem áður um mikið óréttlæti að ræða og tillaga okkar gengur út á það að fella þennan fjármagnstekjuskatt eldri borgara niður.

Sömuleiðis gerum við tillögu um það að skerða ekki hlut þeirra einstaklinga sem hafa ekki sinnt því að greiða í lífeyrissjóði. Við teljum fullkomlega óeðlilegt að taka slík ákvæði inn í bandorm því að bandormur er eðli málsins samkvæmt óaðskiljanlegur hluti fjárlaga hvers árs og það á ekki að gera varanlegar breytingar við slíka lagasetningu. Við gerum sömuleiðis tillögu um fella þau ákvæði sem lúta að slysabótum sjómanna út fyrst og fremst með þeirri tilvísun að þessi atriði eiga að koma til vandaðri umfjöllunar. Að ýmsu leyti snúa þau að samningsmálum sjómanna og útgerðarmanna og aðila á vinnumarkaði og það er óeðlilegt inngrip á þennan hátt eins og hér er gerð tillaga um. Það þarfnast þá miklu betri og ítarlegri umfjöllunar.

Við gerum tillögu um að 35. gr. falli öll í burtu. Ég lýsti áðan hvaða brtt. meiri hlutinn vill gera á henni. Þar er komið að nokkru til móts við hugmyndir okkar en eftir sem áður stendur tillaga okkar um að fella þetta ákvæði alveg niður. Sömuleiðis eru í þessu frv. skerðingar hvað varðar mæðra- og feðralaun og ekkjulífeyri. Þar ná þeir í 5 millj., þeim er svo sem ekkert heilagt í þessum efnum. Við gerum tillögu um að þessi ákvæði verði felld út úr bandorminum. Þeir hafa ekki léð máls á því. Við gerum líka tillögu um að skerðingarákvæði sem tengjast Framkvæmdasjóði fatlaðra verði felld niður og bíði heildarendurskoðunar laga um almannatryggingar eins og eðlilegt er við slíkan málaflokk. Það er fullkomlega óeðlilegt að gengið sé að þessum málum eins og hér er gert. Stjórnarandstaðan hefur ekki skorast undan því að tekið sé á ýmsum þáttum í löggjöf sem varða markaða tekjustofna og er reiðubúin hvenær sem er í alvarlega umræðu um það við stjórnarliða þegar þeir eru búnir að búa þau mál í þann farveg sem hæfir hinu háa Alþingi. Þannig eru forkastanleg ákvæði einnig í þessum bandormi sem lúta að stjórnskipulagi í heilbrigðisþjónustunni, þættir sem hafa ekkert með afgreiðslu fjárlaga að gera en eru sett inn í eins og fjölmörg önnur ákvæði til að stytta ráðherrunum biðina eftir að koma sínum málum í gegn. Ég sé með því að líta mér til beggja handa virðingu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart löggjafarvaldinu. Hér sé ég, herra forseti, ekki einn einasta ráðherra sitja í sæti sínu til að fylgjast með því máli sem þeir bera svo fyrir brjósti. Þetta er e.t.v. lýsandi fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna gagnvart þeirri gagnrýni sem kemur á þá. Þeir kjósa að vera fjarri þegar á þá er deilt.

Við gerum sömuleiðis tillögu um það í 21. brtt. okkar að skerða ekki á varanlegan hátt tekjustofna Ferðamálaráðs eins og stjórnin leggur til. Þeir skerða allt sem þeim dettur í hug. Enginn steinn er látinn óhreyfður í því sem þeir ná höndum yfir. Það átakanlegasta í þessum bandormi og fjárlögunum er þó það að einungis er ráðist á þá sem minni máttar eru. Það er ráðist á velferðarkerfið, þar er atlagan gerð. Þar liggja menn best við höggi. Það er látið falla með fullum þunga bæði í þessu frv. og fjárlagafrv. og öðrum tengdum frv.

Við gerum sömuleiðis tillögu um að fella á brott skerðingarákvæði sem eru viðkomandi flugmálum á Íslandi þar sem það er óeðlilegt að gera það eins og hér er lagt til að kippa gjörsamlega úr sambandi allri tengingu við áætlanagerð og ekki beðið heildarendurskoðunar á þeim málaflokki eins og eðlilegt væri.

Sömuleiðis er gerð tillaga um að fella niður ákvæði sem lúta að skipulagsmálum sem snerta sveitarfélögin. Þar er ráðist á og skert framlög en gengið er úr skugga um að sveitarfélögin verði að standa að fullu við sinn hlut. Þessu hafa sveitarfélögin mótmælt harðlega og er ekki að efa að þessi ákvæði sem meiri hlutinn ætlar að láta standa óbreytt munu hafa mjög slæm áhrif á samskipti ríkis og sveitarfélaga sem er beinlínis hættulegt efni þegar litið er til þeirra verkefnaflutninga sem nú eru í gangi. En þarna er slegið utan undir alveg eins og gert er í fyrri ákvæðum. Það er algerlega óeðlilegt að gera þetta með þessum hætti. Þessi ákvæði hafa engin fjárhagsleg áhrif, þau eru sett inn vegna þæginda fyrir ríkisstjórnina til að láta stjórnarflokka sína afgreiða þau mál á færibandi eins og við höfum orðið vitni að.

Sömuleiðis eru gerð ákvæði um breytingar á þáttum sem snerta umhverfismál, verndun dýra og menn geta spurt sig hvað í ósköpunum þetta komi fjárlögunum við. Jú, þeir fundu þarna þátt sem þeir gátu aðeins klipið í og rétt eitthvað af án þess að leggja til nokkra heildarendurskoðun.

Síðasta tillaga okkar er að fellt verði út úr þessum bandormi hin sérkennilega tillaga um endurskipulagningu í ríkisrekstri sem fól raunverulega ráðherrum allt vald bæði til að leggja niður stofnanir og færa verkefni fram og til baka án þess að það væri rökstutt á nokkurn hátt. Það var ætlun ríkisstjórnarinnar að fá ,,blankó`` ávísun líka með þessu frv. til að geta valsað innan ríkiskerfisins án þess að ræða það á hinu háa Alþingi hvernig þessum málum væri best fyrir komið.

Þessar brtt. sem minni hlutinn leggur fyrir og rökstuðningur hefur að öðru leyti komið mjög vel fram í málflutningi stjórnarandstæðinga fyrr í dag. Þær standa hér til afgreiðslu þegar kemur að því að afgreiða þetta mál. En ég endurtek að lokum þau orð að efnið í því frv. sem ríkisstjórnin ætlar að knýja hér í gegn er mjög slæmt. Það er mikil skerðing á viðkvæmum þáttum í þjóðlífi okkar. Það er formlega mjög illa búið og það er lítilsvirðing fyrir löggjafann eins og það er búið úr garði.