Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Litáens

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 09:52:45 (2274)

1995-12-21 09:52:45# 120. lþ. 74.6 fundur 256. mál: #A fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Litáens# þál., 257. mál: #A fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Lettlands# þál., 258. mál: #A fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Eistlands# þál., Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur


[09:52]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þeim þremur þáltill. sem á dagskrá hafa verið teknar. Hér er um að ræða till. um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Eystrasaltsríkjanna, Litáens, Lettlands og Eistlands hins vegar.

Fram skal tekið að málsmeðferð varðandi þessar tillögur er eilítið óvenjuleg. Fyrir utanrmn. hafa legið þáltill. um fullgildingu tveggja tvíhliða samninga milli Íslands annars vegar og Litáens og Lettlands hins vegar. Frá því að þeir samningar komu fram hafa hins vegar verið gerðir fjölþjóðasamningar milli EFTA og þessara tveggja ríkja en einnig Eistlands. Þar sem tími er naumur og mikil áhersla er á það lögð bæði af viðskiptalegum en ekki síður af pólitískum ástæðum að ljúka þessum samningum hefur orðið samstaða um að utanrmn. flytti þessar tillögur til fullgildingar í stað þess að þær kæmu frá ríkisstjórninni eins og venja er og eins og alla jafna eðlilegast er.

Þessir fríverslunarsamningar eru með hefðbundnum hætti. Þar er um að ræða ákveðna aðlögun að fríverslun með fisk, svo nefndir séu helstu hagsmunir Íslands, mislanga í hverju tilfelli og reyndar enga að því er varðar Eistland.

Samningarnir skipta Eystrasaltslöndin miklu máli og þessi ríki hafa lagt þunga áherslu á að geta lokið samningum sem þessum við ríki EFTA. Þess vegna er eðlilegt að við Íslendingar, sem staðið höfum framarlega í flokki ríkja sem stutt hafa við bakið á Eystrasaltslöndunum, kostum kapps um að fullgilda þessa samninga sem fyrst.

Utanrrh. gerði Alþingi grein fyrir efni tvíhliða samninganna milli Íslands og Lettlands og Litáens þegar þeir komu hér til umræðu og efnislega má segja að fjölþjóðasamningurinn sé eins. Í samningnum milli EFTA og Litáens er gert ráð fyrir sjö ára aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla á söltuðum, þurrkuðum og reyktum fiskafurðum frá Íslandi miðað við hins vegar níu ára aðlögunartíma í tvíhliða samningnum. Jafnframt er 340 tonna tollfrjáls kvóti fyrir saltsíld frá Íslandi sem tekur gildi fyrsta ár fríverslunarsamningsins og stækkar um 40 tonn á ári. Litáen fær aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla á vissum iðnaðarvörum frá EFTA en slíkur aðlögunartími var hins vegar ekki í tvíhliða samningnum.

Fjölþjóðlegi fríverslunarsamningurinn milli EFTA og Lettlands er sömuleiðis nær samhljóða tvíhliðasamningnum. Fjögurra ára aðlögunartími gildir fyrir niðurfellingu tolla á vissum fiskafurðum frá Íslandi en þó þannig að tollurinn lækkar um þriðjung eftir tvö ár og á ný um þriðjung eftir þrjú ár en fellur alveg niður eftir fjögur ár. 200 tonna tollfrjáls kvóti fyrir saltsíld frá Íslandi verður í gildi árlega á aðlögunartímanum og gert er ráð fyrir endurskoðun hans með stækkun í huga. Eins og fram hefur komið í máli mínu gerir fríverslunarsamningurinn milli EFTA og Eistlands ráð fyrir fullri fríverslun með fiskafurðir og sömuleiðis iðnaðarvörur strax frá gildistöku hans.

Ég vil leggja áherslu á að þessu máli verði lokið hér í dag, virðulegi forseti. Ég þakka meðnefndarmönnum mínum í utanrmn. fyrir að hafa fallist á þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Það er að sjálfsögðu gert í ljósi þeirra aðstæðna sem lýst hefur verið en ekki síst vegna þess að nefndin og auðvitað þingið allt, vona ég, vill undirstrika stuðning sinn í verki við baltnesku löndin þrjú.

Það liggja hins vegar fyrir fleiri samningar af þessu tagi en þeim verður komið til afgreiðslu á Alþingi með hefðbundnum hætti eftir áramót. Það er ekki gerð tillaga um það, virðulegi forseti, að þessu máli verði vísað til nefndar þar sem það er nefndin sem flytur tillögurnar. Hins vegar er lagt til að tillögunum verði vísað til síðari umræðu.