Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 11:40:05 (2311)

1995-12-21 11:40:05# 120. lþ. 74.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KHG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur


[11:40]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Tekjur af umferð eru um 18.000 millj. kr. á ári hverju. Stærstur hluti þeirra rennur beint í ríkissjóð. Þó er ætlað að um 7 milljarðar renni til vegaframkvæmda og reksturs Vegagerðar ríkisins, í samræmi við vegáætlun hverju sinni. Nú er gert ráð fyrir að skerða um tíunda hluta markaðra tekjustofna, svokallaðra, og taka í ríkissjóð til viðbótar við það sem áður er þangað komið. Ég bendi á að gríðarlega mikil verkefni bíða í umferðarmálum hér á landi, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni, og sú þörf vex með ári hverju en minnkar ekki. Skerðing á framkvæmdafé er einfaldlega að búa til vanda og geyma til framtíðar það sem verður að leysa úr með frekari framlögum. Ég greiði því atkvæði gegn þessari tillögu, virðulegi forseti, og bendi á að það er verulega kjánalegt að leggja til að skerða fé til framkvæmda í vegamálum og koma svo á eftir með tillögu um ríkisábyrgð til sams konar framkvæmda.