Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 12:45:55 (2312)

1995-12-21 12:45:55# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[12:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég talaði lítillega um þetta mál sem manna á milli gengur undir nafninu skröltormur eða skrölti litli sökum þess að það er hálfgert afkvæmi bandormsins. Ég ræddi það í nótt að mér þætti ekki við hæfi að ekki væri með einhverjum hætti gerð grein fyrir því að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum. Þar er ein af tillögunum, akkúrat sú sama og 1. gr. þessa frv. fjallar um, en þó í öðrum tilgangi, þ.e. að hækka svo nefnt umferðaröryggisgjald. Frv. gerir ráð fyrir að þetta sé gert í því skyni að afla tekna í ríkissjóð. Á sama tíma liggur fyrir þinginu stjórnartillaga flutt af hæstv. dómsmrh., yfirmanni umferðarmála, sem gengur út á það meðal annars að hækka svonefnt umferðaröryggisgjald og verja þeim peningum til aðgerða í umferðaröryggismálum. Ég vakti athygli á þessu ósamræmi sem ég held að hljóti að verða að teljast, í nótt og bað um að meiri hlutinn skoðaði þetta milli umræðna og það yrðu gefnar skýringar á því hvernig menn hygðust halda á þessu máli. Ég lýsti því sjónarmiði mínu að ef þessi breyting, sem frv. gerir ráð fyrir, næði fram að ganga, að umferðaröryggisgjaldið yrði hækkað og þeim tekjum ráðstafað til annarra þarfa en að auka umferðaröryggi, þá vonaði ég að sú breyting yrði tímabundin.

Mér finnst ekki við hæfi, herra forseti, að menn vinni þannig að málunum að samtímis liggi á borðum þingmanna tvenns konar stjórnartillögur eða plögg sem ganga í sína áttina hvor. Það má láta bjóða sér ýmislegt hér hvað vinnubrögð snertir, eins og kunnugt er og sjá má, en þetta er að mínu mati fulllangt gengið. Ég tel líka að það sé þá að fara fyrir lítið það starf sem liggur að baki þessari þingsályktunartillögu sem mér finnst nokkur akkur í. Ég vil gjarnan heyra hvað hv. 6. þm. Reykv., formanni í nefnd um þetta mál sem lagði til efniviðinn í þingsályktunartillöguna, finnst um þessa stöðu sem upp er komin.

Ég fer fram á að það komi hér einhvers konar skýring á þessu máli, a.m.k. yfirlýsing frá hæstv. ráðherra eða hv. form. efh.- og viðskn. um hvernig menn hyggist hafa þessa hluti í framtíðinni. Er ætlunin að falla frá afgreiðslu tillögunnar um umferðaröryggismál? Ef hún verður afgreidd síðar á þinginu, hvað þá með þennan fjáröflunarþátt málsins til þess að auka umferðaröryggi? Á þá að leggja þá hækkun ofan á það sem hér er lagt til í frv. þannig að gjaldið verði hækkað í tvennum tilgangi í þetta mikið á skömmum tíma? Langbest þætti mér að afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu hæstv. ríkisstjórnar kæmi um að þessi fjáröflun í ríkissjóð yrði bara í eitt ár og að því loknu breyttist þetta í tekjustofn fyrir umferðaröryggisáætlunina eins og ráð var fyrir gert. Það er alveg nóg fyrir hæstv. fjmrh. að ræna þessu gjaldi í eitt ár. Það eru lagðir nógir skattar á umferðina, samtals um 18 milljarðar kr. eins og kom fram í atkvæðaskýringu fyrir nokkru síðan, þó að það bætist nú ekki við að þetta gjald verði stórhækkað fyrst og fremst sem tekjustofn í ríkissjóð.

Herra forseti. Ég fer fram á að umræðunni verði frestað ef ekki koma einhver svör við þessu frá hæstv. ríkisstjórn eða hv. form. efh.- og viðskn.