Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 13:00:45 (2319)

1995-12-21 13:00:45# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[13:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi mikla speki var mér nú ljós að fjárlög eru afgreidd til eins árs í senn en ég þakka hv. þm., formanni efh.- og viðskn., fyrir það að upplýsa það samt ef einhver hefur verið í vafa um þetta. Hins vegar er ekki verið að leggja til slíka afgreiðslu á þessu frv. sem við erum að ræða. Tekjustofninn sem verið er að mynda er varanlegur. Það er ekki gert ráð fyrir því að gjaldið lækki aftur á næsta ári. Það er verið að hækka þetta gjald um 100% og fjárlögin byggja á því að tekjur Umferðarráðs verði skertar á móti um nákvæmlega sömu upphæð. Ef ekki kemur einhver yfirlýsing frá hæstv. ríkisstjórn um stefnuna í þessum málum, þá þyrfti nú meira en lítið bláeyga menn til þess að gera því ekki skóna að ætlunin sé að hafa þetta svona áfram. Á meðan ekkert annað liggur fyrir, neyðumst við til að trúa því, hv. þingmenn. Ef það er ekki ætlunin, þá er væntanlega einfalt mál að koma og gefa yfirlýsingu um það. En mér sýnist að hæstv. fjmrh. haldi hér öllum í gíslingu og það megi ekki láta þau orð út úr sér. Kannski er rétt að heyra hvað hæstv. dómsmrh. hefur að segja um þetta ef honum hefur vaxið kjarkur. Mér finnst alveg ótrúlegt að hæstv. fjmrh. skuli getað haldið mönnum í gíslingu með þessum hætti.