Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 13:03:43 (2321)

1995-12-21 13:03:43# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[13:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Málið er í reynd ósköp einfalt. Það liggur fyrir þinginu stjórnartillaga um að auka tekjur Umferðarráðs til að hefja aðgerðir í umferðaröryggismálum. Vonandi verður sú tillaga afgreidd sem ályktun Alþingis innan fárra mánaða. Við skulum segja í febrúar næstkomandi. En þá er hún í raun og veru í lausu lofti og innistæðulaus nema tekjustofninn verði fyrir hendi, að Umferðarráð fái viðbótartekjur sem nemi útgjöldum vegna þeirra verkefna sem áætlunin gerir ráð fyrir. Það var talið að til þess þyrfti a.m.k. 50 kr. hækkun á umferðaröryggisgjaldinu.

Það sem ég er að biðja um er að áður en þessi ráðstöfun á hækkun gjaldsins, sem í reynd rennur beint í ríkissjóð í gegnum skerðingu á móti á framlagi ríkisins til Umferðarráðs, verði afgreidd, verði okkur gerð grein fyrir því hvernig menn hugsa sér þá að fullnusta tillöguna sem hér liggur fyrir, stjórnartillöguna. Í hvaða samhengi á hún þá að vera við afgreiðslu málsins? Það sem þarf að liggja fyrir til þess að hægt sé að afgreiða málið er að menn heiti því að tryggja Umferðarráði þennan viðbótartekjustofn með einum eða öðrum hætti þegar áætlunin kemur til framkvæmda. Það er það sem þarf að liggja fyrir og ég er að biðja um af umhyggjusemi fyrir þessari stjórnartillögu sem ég, einn manna hef tekið að mér að verja og reyna að sjá um að verði ekki eyðilögð.