Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 13:07:36 (2323)

1995-12-21 13:07:36# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[13:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú að tosast áfram. Hæstv. dómsmrh. komst núna hálfa leið í mark. Hann fór býsna nærri því að segja að þetta væri einstök ráðstöfun bundin við þetta ár og síðan ekki söguna meir. A.m.k. má segja að það hafi legið í hans máli að svo yrði það svona ,,den tid, den sorg`` þegar að því kæmi og hann væri ekki skuldbundinn hæstv. fjmrh. til þess að leggja honum til þessar tekjur í formi þeirrar sérkennilegu ráðstöfunar að gera umferðaröryggisgjaldið að skattstofni með þessum hætti. Það er það sem í reynd er verið að gera. Við höfum oft áður séð svona æfingar, bókhaldslegar eða færslulegar æfingar um einhverja starfsemi sem áður hefur verið kostuð af ríkinu. Henni eru merktar einhverjar tekjur og síðan sker ríkið niður framlag sitt á móti. Þar með segja menn að þetta sé allt í lagi og algjörlega sjálfstæður tekjustofn fyrir viðkomandi málaflokk en það kemur auðvitað alveg út á eitt. Ég er nú að hugsa um að taka þann kostinn, herra forseti, að lýsa þeim skilningi mínum að hér liggi í raun og veru fyrir yfirlýsing hæstv. dómsmrh. um það að fyrir þessum tekjustofni til aukinna aðgerða á sviði umferðaröryggismála verði séð og Alþingi sé í trausti þess óhætt að afgreiða þetta frumvarp nema hæstv. fjmrh. mótmæli því sérstaklega. Ég lít svo á að hans þögn yrði sama og samþykki við því.