Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 13:30:22 (2324)

1995-12-21 13:30:22# 120. lþ. 76.1 fundur 263. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[13:30]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 29/1963, með síðari breytingum. Frv. þetta er flutt af efh.- og viðskn. Frv. er aðeins ein efnisgrein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þeir starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur, sem við gildistöku laga þessara starfa hjá Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala, Reykjavík, og eiga aðild að sjóðnum, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu frá þeim tíma sem Sjúkrahús Reykjavíkur tekur til starfa.``

Þetta lagafrv. er lagt fram í tengslum við stofnun Sjúkrahúss Reykjavíkur sem tekur til starfa 1. janúar 1996 samkvæmt samningi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala. Þetta er lagt fram í því skyni að það séu tekin af öll tvímæli um réttarstöðu starfsmanna sem flytjast frá St. Jósefsspítala yfir á Sjúkrahús Reykjavíkur.

Ég geri ekki tillögu um að þessu máli verði vísað til nefndar heldur beint til 2. umr.