Afbrigði um dagskrármál

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 13:41:33 (2333)

1995-12-21 13:41:33# 120. lþ. 76.98 fundur 161#B brtt.# (afbrigði við dagskrá), GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[13:41]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er augljóslega um efnisbreytingu að ræða en engan veginn þá formbreytingu sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lætur í veðri vaka. Í ljósi þess er bráðnauðsynlegt að hv. nefnd taki málið til umfjöllunar. Ég fyrir mína parta leit svo á að um það væri að ræða í nefndum frumvarpsgreinum að hæstv. heilbrrh. vildi skapa sér rými til þess að fara í boðaðar skipulagsbreytingar á stjórnkerfi þessara mála allra saman en ekki það að fyrir henni og ríkisstjórninni vekti að skipta út öllum formönnum og öllum nefndarmönnum í sjúkrahúsum og heilsugæslum um land allt þann 1. janúar nk. Hér er því algerlega nýtt mál á ferðinni og engan veginn bjóðandi þessari virðulegu stofnun að menn afgreiði það á 2--3 mínútum með afbrigðum. Ég tek því undir þær óskir, hæstv. forseti, að þetta mál fái gaumgæfilega skoðun í nefnd og menn taki það ekki til afgreiðslu með afbrigðum.