Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 14:07:27 (2341)

1995-12-21 14:07:27# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[14:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það væri út af fyrir sig ástæða til þess við 3. umr. um þetta mál að setja á nokkra tölu um einstök atriði í frv., þær aðgerðir og hremmingar sem boðaðar eru fyrir fjölda heimila í landinu, ekki síst heimila elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnulausra. En í nafni þess samkomulags sem hefur verið gert um málið mun ég stytta mál mitt, virðulegi forseti, og ræða eingöngu um brtt. sem ég flyt við 3. umr. Ég vil þó ekki láta hjá líða við þessa umræðu að lýsa vonbrigðum mínum með að ekki hafi náðst samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að stjórnarflokkarnir falli að fullu frá skerðingu á bótum til þolenda afbrota sem þeir hafa boðað. Engu að síður hefur áfanga verið náð í að leiðrétta hlut þolenda afbrota sem er mjög mikilvægur. En við hljótum að láta reyna á það við afgreiðslu fjárlaga, 3. umr., hvort ekki sé hægt að ná frekari sátt um að horfið verði að fullu frá því að skerða bætur til þolenda afbrota. Samt sem áður ber að þakka það sem vel er gert og stjórnarflokkarnir hafa að mörgu leyti komið vel til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar. Það ber að þakka.

Ég vil, virðulegi forseti, snúa mér að brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Svavari Gestssyni og Össuri Skarphéðinssyni. Virðulegi forseti. Þar sem mér er kunnugt um að hæstv. heilbrrh. er mikil áhugamanneskja um framgang þessarar tillögu væri æskilegt að hún væri viðstödd umræðuna. --- Ég þakka fyrir það að hæstv. heilbrrh. er mættur í salinn.

Við 2. umr. um málið var felld tillaga frá minni hlutanum þess efnis að ekki yrði gengið til þess verks sem ríkisstjórnin ætlar sér, að láta fjármagnstekjur skerða almannatryggingabætur. Byrjað yrði á því að skerða greiðslur til þeirra sem fá lífeyri, þ.e. lífeyrisþega, vegna fjármagnstekna áður en fjármagnstekjuskattur hefur verið lagður á aðra landsmenn. Því miður, virðulegi forseti, var tillaga minni hlutans felld við 2. umr. málsins en þess er nú freistað, af þeim þingmönnum sem standa að þessari brtt., að vekja málið á nýjan leik við 3. umr. málsins. Við flytjum því tillögu um að í stað þess sem af hálfu meiri hlutans er kirfilega neglt niður í lögum að fjármagnstekjuskattur skuli byrja að skerða bætur lífeyrisþega ,,frá og með 1. september árið 1996 vegna tekna ársins 1995`` komi eftirfarandi, með leyfi forseta:

[þar til] ,,sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt og þau komi til framkvæmda. Jafnframt komi þá ákvæði 29., 32. og 36. gr. laga þessara til endurskoðunar.``

Áður en ég held lengra vil ég vekja athygli forseta á því að það hafa orðið mistök í prentun við þessa brtt. Það er talað um að hún sé við 63. gr. frv. en hún er við 62. gr. frv. (Gripið fram í: 63. gr. er ekki til.)

Ég held að öllum sem skoða málið vandlega séu ljós rökin fyrir þessari breytingu. Það hafa iðulega verið uppi hugmyndir af hálfu fyrri ríkisstjórnar um að fara þá leið sem núv. ríkisstjórn ætlar að fara, þ.e. að byrja á því að koma á fjármagnstekjuskatti með því að láta fjármagnstekjuskatt skerða bætur til lífeyrisþega. Það hefur ávallt verið komið í veg fyrir slíkt þegar þeir sem hafa ætlað að reyna þetta hafa krufið málið til mergjar og skoðað hve mikið óréttlæti felst í að byrja upptöku fjármagnstekjuskatts með þessum hætti.

Ég vil minna á, eins og ég gerði raunar við 2. umr. málsins og eins í atkvæðagreiðslu við brtt. 1. minni hlutans, að landssamband fatlaðra hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við þessa tillögu meiri hlutans um að standa þannig að upptöku fjármagnstekjuskatts að hann byrji á því að skerða bætur lífeyrisþega. Athugasemdir landssambands fatlaðra eru svo alvarlegar að ég óskaði eftir því við 2. umr. málsins og beindi þá orðum mínum til formanns efh.- og viðskn. að hann sæi svo til að boðað yrði til fundar milli 2. og 3. umr. Þar yrði fjallað um gagnrýni landssambands fatlaðra og ábendingar um að mjög komi til álita, og sé álitaefni sem nauðsynlegt sé að skoða, hvort hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða. Þegar svo alvarlegar ábendingar og athugasemdir koma fram hjá svo stórum landssamtökum, eins og landssamtökum fatlaðra, en umbjóðendur þeirra verða margir fyrir þessari skerðingu, þá ætti formaður efh.- og viðskn. að verða við sanngjarnri ósk sem kemur fram um að efh.- og viðskn. taki málið til umfjöllunar og skoðunar. Athugað sé hvort rök sem landssamband fatlaðra setur fram, sem ég tel mjög sannfærandi, eigi sér einhverja stoð.

Hv. formaður efh.- og viðskn. taldi ekki til þess ástæðu. Landssamband fatlaðra segir í bréfi sínu að ef vilji meiri hlutans nái fram að ganga og þetta ákvæði verði að lögum, þá muni það leita niðurstöðu hjá umboðsmanni Alþingis. Hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., sagði að það væri þá bara gott og blessað. Þeir mundu þá leita álits hjá umboðsmanni Alþingis og Alþingi tæki málið upp ef umboðsmaður Alþingis kæmist að þeirri niðurstöðu að verið væri að brjóta á þessu fólki. Ég hefði talið eðlilegri vinnubrögð hjá hv. Alþingi að það rannsakaði það sjálft, kryfi þetta mál til mergjar og skoðaði hvort sú ábending, sem hér kemur fram og er alvarleg, hafi við einhver rök að styðjast. Það eru eðlileg vinnubrögð. En við sem erum í minni hlutanum verðum sennilega að lúta því að meiri hlutinn ætlar sér ekki að skoða þetta álitamál sem hér er komið upp. Ég verð ég að una því þó illt sé, virðulegi forseti, að efh.- og viðskn. taki þetta mál ekki til sérstakrar skoðunar. En ég vil, með leyfi forseta, lesa bréf landssambands fatlaðra þar sem það verður ekki tekið fyrir í efh.- og viðskn., en það er dags. 20. des. eða í gær, og hljóðar svo:

[14:15]

,,Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra lítur það alvarlegum augum ef niðurstaða Alþingis verður sú að fjármagnstekjuskattur verði látinn skerða bætur almannatrygginga þegar byrjað verður á því að skerða greiðslur til þeirra sem fá lífeyri, þ.e. aldraðra og öryrkja, gagnvart fjármagnstekjum áður en fjármagnstekjuskattur hefur verið lagður á aðra landsmenn á næsta ári.

Þá hlýtur að koma mjög til álita hvort hér er um brot á stjórnarskránni að ræða sem kveður á um að allir séu jafnir fyrir lögum.``

Þetta er mjög veigamikill punktur sem landssambandið setur fram. Auk þess segir í bréfinu að ,,... hér sé um afturvirkni skattalaga að ræða og svo virðist að gengið sé einnig gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þessi aðgerð kemur mjög í bakið á ákveðnum hóp í þjóðfélaginu þar sem skattur á fjármagnstekjur vegna ársins 1995 verður látinn skerða bætur á árinu 1996. Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, mun leita niðurstöðu hjá umboðsmanni Alþingis verði þetta ákvæði að lögum.`` Undir þetta ritar Guðríður Ólafsdóttir, formaður landssambands fatlaðra.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef greint frá er um mjög alvarlega ábendingu að ræða sem hefði átt að taka eðlilega fyrir hjá nefndinni. Ég lít svo á að þeirri ábendingu sé beint til þingsins að hér gæti verið um tvenns konar brot á stjórnarskránni að ræða. Í fyrsta lagi á ákvæði 65. gr. sem segir að allir skulu jafnir fyrir lögum en hér er verið að taka út einn ákveðinn þjóðfélagshóp sem eru lífeyrisþegar, bótaþegar almannatrygginga, að láta fjármagnstekjuskattinn eingöngu ná til þeirra meðan aðrir sleppa, fólk sem hefur kannski miklu meiri fjármagnstekjur en lífeyrisþegar nokkurn tíma hafa. Þetta er einfalt, hæstv. heilbrrh. Með þessari aðgerð eru ekki allir jafnir fyrir lögum.

Í annan stað er nefnt bæði afturvirkni skattalaga og að gengið sé gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég held að það sé alveg ljóst að samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í frv. ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að allar vaxtatekjur vegna yfirstandandi árs, ársins 1995, sem hafa myndast á bankabókum lífeyrisþega og öryrkja, munu skerða bætur almannatrygginga á árinu 1996 eða frá 1. sept. að telja þannig að hér er um afturvirkni að ræða í mínum huga. Ef lífeyrisþegar hefðu vitað að það stæði til að skerða bætur með þeim hætti að láta vexti, hverja krónu --- það er ekki hver króna, það er að vísu 50% --- skerða bæturnar hefði þetta fólk hugsanlega gert aðrar ráðstafanir varðandi tekjur sínur sem það á í banka.

Það hefur komið fyrir á þeim árum sem ég hef setið á þinginu að reynt hefur verið að setja fram skattbreytingar gagnvart fyrirtækjunum í landinu einmitt fyrir jólin en viðbáran af hálfu sjálfstæðismanna hefur allaf verið sú að það geti ekki tekið gildi fyrr en ári seinna þar sem hér sé um afturvirkni að ræða, það sé verið að setja skatt á tekjur yfirstandandi árs. Einmitt það erum við að gera, hæstv. ráðherra, gagnvart þessum hópi.

Síðan er ein röksemdin til viðbótar og hún er sú að eins og þetta er framkvæmt núna er raunverulega ekkert eftirlit haft með því hvort lífeyrisþegar telji fram vaxtatekjur sínar. Bæturnar skerðast hjá þeim sem eru samviskusamir og telja fram vaxtatekjur sínar en kannski ekki hjá öðrum lífeyrisþegum sem hafa ekki talið fram vaxtatekjur sínar.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta allt því vera í skötulíki hjá hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er það mjög eðlileg tillaga sem við fjórir hv. þm. setjum fram og tökum þá raunverulega undir með sjónarmiðum hæstv. ráðherra sem hefur haldið því fram að fjármagnstekjuskattur yrði kominn á 1. sept. á næsta ári og að fjármagnstekjuskattur skerði ekki bætur bótaþeganna fyrr en sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt. Ég tel algerlega útlátalaust af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu hæstv. ráðherra og ég veit að ef hún mundi beita sér í þessu máli gæti hún náð því fram hjá hæstv. ríkisstjórn að þetta héldist í hendur sem er mjög eðlileg krafa sérstaklega vegna allra þeirra galla sem ég hef talið fram varðandi framkvæmd málsins.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson taldi að hér væri ekki um skatt að ræða. Hér væri um að ræða bætur og þess vegna væri hægt að skerða þær, jafnvel þó að þetta væru bætur sem hefðu komið til á yfirstandandi ári. Ég lít ekki á þetta sömu augum. Ef við skoðum röksemd hv. þm. Vilhjálms Egilssonar um að þetta séu bætur og því ekki skattur í skilningi skattalaganna þá vil ég minna á að rétt fyrir jólin árið 1993 var samþykkt skerðing á vaxtabótum. Þá var það röksemd þáv. ríkisstjórnar og fjmrh., þess sama fjmrh. sem nú er, að skerðingin á vaxtabótum gæti ekki komið til framkvæmda 1. jan. 1994, það var sem sagt í desember 1993 sem skerðingin var samþykkt. Vegna þess að þarna væri um afturvirkni að ræða væri ekki hægt að láta skerðinguna koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1996. Ekki vegna tekna yfirstandandi árs. Hér gildir alveg sama röksemdin. Ef við sleppum því nú sem hér er verið að halda fram að verið sé að leggja skatt á einn hóp og brjóta gegn stjórnarskránni og færum okkur yfir í röksemd hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, tökum hana góða og gilda... (Gripið fram í.) Það er ekki verið að rugla neinu saman. Vaxtabætur er ein tegund af bótaflokki sem ríkið borgar til þess að auka kjör heimilanna í landinu. Með sama hætti eru lífeyrisbætur líka bætur sem eru greiddar úr ríkissjóði þannig að þarna gildir nákvæmlega það sama.

Hæstv. ráðherrar. Ábending sem kom fram í atkvæðagreiðslunni áðan frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur er líka mjög alvarleg og ber að skoða sérstaklega og sýnir hún enn einn gallann á þessari framkvæmd. Ég efast ekki um að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir hafi rétt fyrir sér í þessu máli. Hún bendir á þá sem hafa orðið fyrir slysum og orðið fyrir varanlegri örorku þannig að viðkomandi verði kannski ekki vinnufær það sem eftir er og hann fái ákveðna eingreiðslu í slysabætur sem gætu verið um 3--5 millj. kr. sem ættu að vera framfærsla hans um ókomin ár. Segjum svo að hann hafi fengið þessar bætur 1. jan. 1995 og sé búinn að vera með þetta á vöxtum til þess að ávaxta þetta lítilræði sem hann hafi fengið til þess að lifa næstu árin. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort hæstv. ráðherra hefur meðtekið hve alvarlegir hlutir eru á ferðinni. Er það meiningin ef um varanlega örorku er að ræða, og öryrkinn hefur fengið eingreiðslu í ársbyrjun 1995, og hefur ávaxtað hana, að vextirnir af slysabótunum, af þessari eingreiðslu, skerði bætur hans á árinu 1996? Ég sé að hæstv. ráðherra hefur mikinn skilning á þessu máli.

Herra forseti. Af því að ég ætla ekki að verða til þess að tefja umræðuna þá vil ég segja það í lokin af reynslu minni af samstarfi við Sjálfstfl. að ég hef enga trú á því að það sé nokkur vilji af hálfu sjálfstæðismanna til þess að koma á fjármagnstekjuskatti nema fjármagnstekjuskatti á lífeyrisþega. Það þekkjum við sem höfum verið í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Þess vegna væri mikil trygging fyrir hæstv. ráðherra og hv. framsóknarmenn ef það ákvæði kæmi inn sem við fjórir þingmenn erum að tala fyrir og er þess efnis að fjármagnstekjuskattur skerði ekki bætur ellilífeyrisþega fyrr en komin eru lög um fjármagnstekjuskatt. Við gerum enga athugasemd við að það sé 1. sept. á næsta ári svo fremi að hér hafi verið lögfestur fjármagnstekjuskattur sem taki til allra í landinu þannig að allir séu jafnir fyrir lögum, hæstv. ráðherra. En við gerum alvarlega athugasemd við að einn ákveðinn hópur sé tekinn út úr.

Ég ætla í lokin að nefna að í því plaggi sem oftast er nefnt í ræðustólnum og vitnað í, ,,Fólk í fyrirrúmi``, hefur Framsfl. ákveðnar skoðanir á því hvernig eigi að taka upp fjármagnstekjuskatt og þar segir, með leyfi forseta:

,,Eignarskattsstofn verði breikkaður og fjármagnseignir skattlagðar með sama hætti og aðrar eignir. Frítekjumark verði hækkað og persónuafslættir hjóna millifæranlegir að fullu.``

Mér skilst að framsóknarmenn hafi mjög ákveðna tillögu um hvernig eigi að útfæra fjármagnstekjuskatt sem skoðanir eru verulega skiptar um. Eftir því sem ég hef spurnir af talar Sjálfstfl. í þeirri nefnd sem fjallar um fjármagnstekjuskatt fyrir allt annarri leið. Til þess að framsóknarmenn geti að einhverju leyti staðið við fyrirheit sín um fjármagnstekjuskatt þó að Sjálfstfl. knýi þá til þess að fara aðra útfærslu varðandi upptöku hans er hér ákveðin trygging sem við í stjórnarandstöðunni bjóðumst til þess að styðja framsóknarmenn með. Ég ítreka, virðulegi forseti, þetta er útlátalaust af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ekki síst hæstv. heilbrrh. ef hún meinar það sem hún hefur sagt í umræðunni. Ég spyr hæstv. heilbrrh. að því í lokin hvort hún sé ekki sama sinnis og hún var þegar við ræddum málin á dögunum að hún sagði að það væri ekki spurning að fjármagnstekjuskattur yrði tekinn upp 1. sept. Ég spyr hvort hún telji þá ekki eðlilegt að þessi tillaga fái framgang í þinginu og ég spyr hvort það sé virkilega svo að eingreiðslur, sem koma til örorkulífeyrisþega vegna slysabóta, skerði bætur hjá lífeyrisþegum. Í þriðja lagi ætla ég að spyrja ráðherrann hvernig hún ætlar að tryggja að þessi skattlagning sem skerðir bætur á næsta ári lendi ekki bara á þeim lífeyrisþegum sem telja samviskusamlega fram vaxtatekjur sínar á skattframtölum og lendi þar af leiðandi í skerðingu bóta en hinir sem gera það ekki, af því að það er lítið eftirlit hægt að hafa með þessu eins og það er núna, sleppi við skerðingu bóta. Hér er enn um mismunun að ræða.

Öll þessi rök sem ég hef sett fram, virðulegi forseti, mæla með því að hv. Alþingi samþykki tillögu okkar fjórmenninganna.