Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 14:38:47 (2347)

1995-12-21 14:38:47# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[14:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. 13. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, varðandi það hversu óréttlátt það er að fjármagnstekjur skerði almannatryggingabætur á miðju næsta ári eða 1. sept. næsta ár og hversu illa það kemur niður á þeim sem hafa fengið miskabætur sem eingreiðslur, sérstaklega eingreiðslur sem eiga að duga sem bætur vegna varanlegs heilsutjóns og eiga að duga alla ævina. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera gagnvart þessum hópi.

Ég tek einnig undir með hv. 13. þm. Reykv. varðandi afturvirknina því að þeir lífeyrisþegar sem eru með fjármagnstekjur af þessum orsökum vegna þess að þeir hafa fengið eingreiðslur eða aðrar fjármagnstekjur hafa ekki átt kost á því að fjárfesta með það í huga að þessar bætur skerða almannatryggingabæturnar þeirra mánaðarlega. Eins og hv. þm. benti á hefðu margir e.t.v. fjárfest í ríkisskuldabréfum sem byrja ekki að skerða fyrr en þau eru leyst út og það munar um fyrir þennan hóp. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra taki tillit til þessara hópa og svari okkur um það hvernig hún hyggst bregðast við til þess að þetta óréttlæti gangi ekki yfir lífeyrisþega.