Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 14:42:39 (2349)

1995-12-21 14:42:39# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[14:42]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hlutir gerast hratt á hinu háa Alþingi og brtt. sem kom fram fyrir um klukkutíma hefur verið dregin til baka með annarri og það er sannast að segja býsna erfitt að átta sig á því hvað hér er á ferð. Vegna þess að ég hljóp upp til handa og fóta þegar fyrri brtt. kom fram vil ég koma því á framfæri að athugasemd mín var byggð á misskilningi vegna þeirra breytinga sem höfðu verið á frv. og ég lýsi yfir fullkomnu trausti á lögfræðingum Alþingis sem vinna verk sitt vel og dyggilega og það var mín yfirsjón að gera þessa athugasemd. Ég hafði ekki áttað mig á því að það var kominn inn nýr liður a þannig að a varð b og b varð c. Það er skýringin á þessu. Ég vildi koma þessu á framfæri að það er ekki á álagið bætandi að vera með gagnrýni af þessu tagi sem beinist að þeim sem vinna á bak við tjöldin og hafa unnið eins og reyndar við þingmenn fram á rauða nótt. Það kom auðvitað í ljós að þeir höfðu verið að gera hárrétta hluti.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma örfáum athugasemdum að, ekki síst vegna þeirrar umræðu og þeirra athugasemda sem urðu við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. og þá fyrst það sem snýr að atvinnuleysisbótum og bótum almannatrygginga. Ég tek undir þann skilning sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni varðandi þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessum greinum. Ég lít svo á að þarna hafi stjórnarandstöðunni tekist að ná fram breytingum sem skipta máli og tryggja það að bæði þeir sem fá atvinnuleysisbætur og bótaþegar almannatrygginga fái í sinn hlut á næsta ári og þarnæsta í það minnsta hækkanir, hverjar sem þær verða. En eftir stendur og ég vil einmitt ítreka það að hér er verið að festa í lög að bæturnar verða ákveðnar á fjárlögum hverju sinni. Áður var um ákveðnar viðmiðanir að ræða og til þess að skýra þetta betur er það svo að samkvæmt þeim lögum sem enn eru í gildi varðandi atvinnuleysisbætur miðast þær við ákveðinn launaflokk fiskverkunarfólks og vegna þess að hann tekur nokkrum breytingum núna um áramótin, þá hækka atvinnuleysisbætur um 5,4% en bætur almannatrygginga miðast við aðrar hækkanir. Í hlut þeirra sem eru á slíkum bótum kemur 3,5% hækkun þannig að þarna er um mismunandi hækkanir að ræða.

[14:45]

Maður spyr sig auðvitað þegar menn fara eftir um það bil ár að ákveða bætur ársins 1997: Hver verður viðmiðunin þá eftir að búið er að taka atvinnuleysisbæturnar úr þessu samhengi sem þær eru í núna? Við hvað verður þá miðað og verður hækkunin þá hugsanlega minni en ella hefði orðið? Þetta finnst mér að menn þurfi að hafa í huga og fyrst og fremst það að hér er gerð sú grundvallarbreyting að hér eftir eru bæturnar ákveðnar á fjárlögum og ég er algerlega andvíg því. Mér finnst að t.d. atvinnuleysisbætur eigi einfaldlega að vera skilgreindur réttur og síðan eigi þær upphæðir að þróast í samræmi við annað og það sama gildir um bætur almannatrygginga. Þær eiga að vera skilgreindur réttur en ekki að vera háðar ákvörðunum fjárveitingavaldsins hverju sinni þó að auðvitað hljóti bætur að taka mið af almennri efnahagsþróun og annarri þróun. Það geta verið mismunandi breytingar, hvort sem það er hjá verkafólki eða öðrum og við hvern á að miða? Hver er þessi almenna viðmiðun þó að auðvitað felist í því trygging sem við vorum að reyna að knýja fram. Það er þó ákveðin trygging gagnvart fólki sem er á atvinnuleysisbótum og bótaþegum almannatrygginga. Ég tek því undir það að hér hefur verið unninn svokallaður varnarsigur.

Hæstv. forseti. Í öðru lagi ítreka ég það að þó að hér hafi orðið nokkur breyting varðandi það stórmál sem mjög hefur verið rætt í þessu samhengi, sem var sú hrikalega skerðing sem boðuð var á nýsamþykktum lögum um greiðslur ríkissjóðs á bótum þolenda afbrota, stendur það samt sem áður eftir að breyting hefur verið gerð, bæturnar verða skertar og það verður miðað við að höfuðstóll kröfu sé 100 þús. kr. en í lögunum var miðað við 10 þús. kr. og þarna er gífurlegur munur. Það er kannski ekki síst nöturlegt að ræða þetta því að það vantar einungis 15 millj. kr. til þess að ná þeirri upphæð sem áætluð var upphaflega. Að vísu hefur verið bent á ákveðna uppsöfnun, þ.e. að mikið af kröfum bíður en svo dregur úr þessu. Þegar um svona mál er að ræða og við erum að tala um 15 millj. kr. er hræðilega nöturlegt að menn skuli klípa í þetta meðan verið er að samþykkja allt milli himins og jarðar. Ég tók ekki með mér í ræðustólinn þær breytingar sem hér liggja fyrir á fjárlögum en þær eru ekki allar jafnskynsamlegar eða viturlegar. Þetta er spurningin um það hver það er sem þrýstir á, hver hefur aðstöðu til þess að knýja fram vilja sinn. Allan þennan tíma höfum við verið að tala um þá sem veikast standa að vígi, þolendur afbrota, gamla fólkið og fatlaða. Það verður enn og aftur að undirstrika, hæstv. forseti, hve nöturlegt er að standa í þessum umræðum og menn skuli vera að leita fanga á þessum stöðum þó að ég skuli vissulega viðurkenna það eins og við kvennalistakonur höfum margítrekað að það þarf að skoða allt almannatryggingakerfið í heild eins og reyndar stendur til. Það þarf að stokka upp í heilbrigðiskerfinu og breyta þar áherslum. Ég trúi því að hægt sé að ná miklum árangri með fyrirbyggjandi aðgerðum, bæði hvað varðar aldraða og fatlaða og ekki síst að sjá til þess að fólk haldi heilsu betur en því miður leggja menn litlar áherslur í þeim efnum.

Við höfum í umræðunum bent á ferðalög ríkisstarfsmanna, risnukostnað og fleira slíkt sem auðvitað er miklu nær að skera niður en að sækja til hópa eins og þessara. Halda þingmenn virkilegra að við gætum ekki náð því saman að spara risnu og ferðakostnað um 15 millj. kr. til þess að ná upp í það sem á vantar til þess að lögin um bætur til þolenda afbrota næðu fram að ganga?

Hæstv. forseti. Það vill svo til að meiri hluti þeirra þingmanna sem hér sitja í salnum á þessu augnabliki eru konur og ég er viss um... (Gripið fram í: Það eru karlar líka.) Já, ég sagði að meiri hlutinn eru konur og þær og vonandi þeir karlar sem hér sitja líka hafa oft góða þjálfun að halda vel um pyngjuna þó að við séum kannski misjafnar í því eins og aðrir en ekki trúi ég öðru en við gætum ef við legðum saman fundið þessar 15 millj. og það er enn þá tími til stefnu.

Það stendur líka eftir og það er rétt að halda því til haga þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessu lagafrv. að hér er verið að skerða tekjur ellilífeyrisþega með því að beita fjármagnstekjum þeirra. Því miður hefur ekki tekist að hrinda öllum áformum um hækkanir gjalda sem m.a. munu bitna á bótaþegum almannatryggingakerfisins og við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá hvernig þetta kemur út í framkvæmd og þá er ég m.a. að tala um þá hækkun sem fyrirhuguð er á komugjöldum heilsugæslustöðvanna. Þeim verður að vísu dreift á mismunandi hátt á hinn almenna hóp, 16 ára til 67 ára og börnin tekin sérstaklega og aldraðir sérstaklega. Samt sem áður er þarna um hækkun að ræða eins og hefur verið margítrekað í umræðunni. Ég á aðeins eftir að nefna það í þessu samhengi að hér áðan var verið að samþykkja það að lífeyrir skerðist fyrr vegna tekna en áður var í lögum.

Þá á ég aðeins örlítið eftir, hæstv. forseti, og það er spurningin til hæstv. heilbrrh. Að vísu er búið að draga til baka þá brtt. sem lá áðan fyrir varðandi breytingar á 46. og 48. gr. en það væri fróðlegt að fá upplýst hvað þarna er á ferðinni. Hvað knýr á um breytingar á stjórnum heilsugæslustöðva og Ríkisspítalanna, ef ég man rétt stjórnarnefnd Ríkisspítalanna? Reyndar var þar um að ræða ákveðið samkomulagsmál. Það er verið að taka inn varamenn. Nú er ég ekki að tala um það að þetta skuli vera í þessum lögum en hvað knýr á um breytingar á stjórn heilsugæslustöðvanna? Tengist þetta eitthvað áformum hæstv. heilbrrh. um breytingar á því kerfi eða hvað liggur eiginlega að baki? Ég hef ekki fengið neina skýringu á þessu.

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að greiða fyrir þingstörfum og þætti mér afar vænt um ef forseti vildi kalla á hæstv. forsrh. því einu örlitlu atriði er ósvarað áður en þessum umræðum lýkur. Á meðan ég bíð eftir hæstv. forsrh., sem ég hygg að sé í húsinu, vil ég taka undir orð síðasta hv. ræðumanns, Jóhönnu Sigurðardóttur, varðandi athugasemdir fatlaðra. Ég tel að okkur beri skylda til þess að skoða þær athugasemdir mjög alvarlega. Það er alltaf mjög alvarlegt þegar bent er á það að Alþingi sé að gera lagabreytingar sem stangast hugsanlega á við stjórnarskrána og þarna er spurning um það hvað er skattur. Telst það vera skattur þegar tekjur af þessu tagi, þ.e. fjármagnstekjur, eru allt í einu farnar að skerða bætur og þegar það gerist aðeins gagnvart örlitlum hluta fólks? Ég get tekið undir það að þetta orkar mjög tvímælis gagnvart því að allir séu jafnir fyrir lögum en ég er ekki eins viss á þessu varðandi þá grein stjórnarskrárinnar sem fjallar um skatta. Og það er hárrétt hjá þingmanninum að hún hljóðar á þá leið að það má ekki taka skatta fyrr en það ár er liðið sem tekjurnar ná til sem verið er að skattleggja og mörg dæmi eru um slíkt. Sannast að segja er ég ekki sannfærð um það að þessi aðferð mundi túlkast sem skattur en ég man vissulega eftir þessu dæmi um vaxtabæturnar. Bara til þess að við værum örugg á því hvað við værum að gera hér væri auðvitað svo sjálfsagt mál að skoða þetta og væri heldur óskemmtilegt fyrir ríkisstjórnina að fá á sig málaferli vegna þessa og er þó nóg að gert varðandi bæði fatlaða og aldraða. --- Er það ekki rétt hjá mér, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. sé í húsinu?

(Forseti (RA): Jú. Hæstv. forsrh. er í húsinu og hefur lofað að koma innan fárra mínútna og segist eiga í viðræðum við nokkra hv. þm. til að greiða fyrir þingstörfum en ég skal ítreka óskina.)

Við eru öll að gera okkar besta til að greiða fyrir þingstörfum. Ég vil aðeins beina til hans einni spurningu sem ég hygg að hann geti svarað fljótt og vel í andsvari en það er atriði sem mér finnst ekki hægt að skilja við. Ég get á meðan rifjað upp þessa sérkennilegu forgangsröð stjórnarflokkanna að ekki megi leggja niður embætti og ekki breyta stjórnkerfinu á nokkurn hátt. Þá verða þingmenn landsbyggðarinnar ólmir og leggjast á dómsmrh. og ná því fram að sjálfsögðu að hætt sé við að leggja þessi sýslumannsembætti niður. (Gripið fram í: ... úti á landsbyggðinni? Hefur þingmaðurinn sem þingmaður Reykjavíkur aldrei lagst gegn því að leggja niður stofnun í Reykjavík eins og fæðingardeildina eða héraðslæknisembættið í Reykjavík ...?) Nei, ég hef einmitt barist fyrir því að reyna að halda því heimili gangandi vegna þess að þar var í gildi ákveðinn samningur milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Reyndar tengist því hvort sá rekstur er skynsamlegur og það er einmitt verið að skoða það, hv. þm. Það orkar vissulega tvímælis, ekki síst í ljósi þess niðurskurðar sem kvennadeild Landspítalans má nú sæta og þarf vissulega skoðunar og heldur vildi ég að sú deild væri vel rekin og að við skoðuðum rekstur Fæðingarheimilisins vel og rækilega. Ég er eingöngu að benda á það, hv. þm., hvað forgangsröðunin virðist stundum sérkennileg hjá ríkisstjórnarflokkunum.

[15:00]

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma í salinn og vona að ég hafi ekki verið að trufla mikilvægar samningaviðræður. En í gær þegar rætt var um það hvernig við gætum greitt fyrir þingstörfum og verið var að reyna að komast til botns í þessum langa lagabálki, bandorminum, þá kom til umræðu bréf Alþýðusambands Íslands sem barst okkur þingmönnum í gær. Í bréfi Alþýðusambandsins er að finna býsna alvarlega gagnrýni og alvarlegar athugasemdir við það sem ríkisstjórnin hefur verið að boða undanfarnar vikur. Sumt af því hefur verið dregið til baka en í þessu bréfi er því haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við yfirlýsingu sína frá 29. nóv. en í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. nóv. sl. ættu allir bótaflokkar almannatrygginga að hækka um 3,5% frá og með 1. jan. nk. Nú hefur komið í ljós að fyrirhugað er að þessi hækkun nái ekki til allra bótaflokka almannatrygginga. Miðstjórn ASÍ krefst þess að þessi hækkun verði látin ná til allra bótaflokka almannatrygginga eins og fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.``

Spurning mín til hæstv. forsrh. er þessi: Þau boð bárust inn á fund efh.- og viðskn. í gær að forsrh. segði að hann teldi að ríkisstjórnin hefði staðið við þessa yfirlýsingu og ég vil fá að heyra það úr ræðustóli á hinu háa Alþingi frá honum sjálfum hvernig hann svarar þessari fullyrðingu og þeirri ásökun sem hér kemur fram. Var því lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að allar bætur yrðu hækkaðar? Hvert er svar forsrh. við þessum ásökunum?