Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:24:27 (2362)

1995-12-21 15:24:27# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:24]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mín ræða verður stutt. Við erum nú komin að lokum mikillar lotu um ríkisfjármál. Það sem tekist hefur verið á um er hvort tveggja: meginstefna ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum eins og hún birtist í bandorminum. Í annan stað höfum við tekist á um stefnu almennt í efnahagsmálum sem birtist í fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. Þegar púðrinu slotar eftir þessa lotu og menn geta kannað vígvöllinn er ástæða til þess að draga saman niðurstöður í örstuttu máli.

Ríkisstjórnin hafði uppi áform um að leggja á sérstök innritunargjöld á sjúkrahús. Hún hefur fallið frá því.

Í annan stað: Ríkisstjórnin hafði uppi áform um að aftengja atvinnuleysisbætur við tiltekinn kauptaxta, þ.e. við laun. Ríkisstjórnin er á undanhaldi í því máli og hefur fallist á breytingar þannig að fjármunir á árinu 1996 eru áfram tryggðir. Þar var það verkalýðshreyfingin sem knúði á um undanhaldið. Í annan stað er kominn inn texti um viðmiðun við þróun verðlags, launa og efnahagsmála sem gildir árið 1997. Þá er komið að kjarasamningum þannig að málið er í höndum hvors tveggja, verkalýðshreyfingar og Alþingis þannig að þarna hefur náðst þýðingarmikill varnarsigur.

Þriðja málið var aftenging lífeyrisbóta og launa. Þar er staða málsins sú að verkalýðshreyfingin hefur tryggt fjármuni í samræmi við kjarasamninga á árinu 1996. Því næst kemur árið 1997 þar sem viðmiðunin er sú hin sama að því er varðar atvinnuleysisbætur við laun, verðlag og efnahagsþróun. Síðan kemur sólsetursákvæði og þau ákvæði sem nú gilda í lögum og við beittum okkur fyrir að stæðu óbreytt standa óbreytt. Það er ákveðin trygging í því máli.

Í fjórða lagi er að nefna það mál sem varðar þolendur ofbeldisverka og þeirra réttarbót sem átti að vera fólgin í því að þeir hefðu tryggar greiðslur sem þeim höfðu verið dæmdar eða úrskurðaðar af réttarkerfinu. Þetta mál var upphaflega rekið þannig af hæstv. dómsmrh. að hann vildi bæta sér upp getuleysi sitt til þess að spara í ráðuneyti sínu innan rammafjárlaga með því að slá á frest gildistöku laga sem Alþingi hafði einróma samþykkt í málinu. Alþingi brást við því nánast ókvæða og niðurstaðan er sú að frá þeim tillögum sem lágu fyrir í bandormi hefur þessu máli verið gerbreytt og margir hafa lýst óánægju sinni með það að ekki hefur náðst fullnaðarsigur. Því hefur verið lýst á þann veg að frá því sem upphaflega var áformað hafi bandormurinn skert réttindi þessa hóps um 70%. Með þeim breytingum sem við höfum nú náð fram hefur verið tryggt að réttindin haldast um það bil 70%.

Hvað varðar ábyrgð ríkisins að viðbættum vöxtum, það varðar að fá út ábyrgð ríkisins takmarkaða við 50%, það varðar að þök á bótafjárhæðir hafa verið hækkuð þótt vextir komi ekki á höfuðstól ef um er að ræða afturvirkar greiðslur. Þetta er áfangasigur. Menn geta sagt: 70% réttlæti er ekki réttlæti. Það er rétt. Engu að síður hefur þessi smánarblettur sem virkilega var á Alþingi ef málin hefðu staðið óbreytt verið þurrkaður af.

Að því er varðar einstök mál hefur sá ávinningur náðst að tilraunin til þess að fella niður bótagreiðslur sem voru til þeirra verst settu og voru lágar hefur mistekist sem og tilraunin til þess að hækka skerðingarhlutfallið að því er varðar tekjutengingu lífeyrisþega við grunnlífeyri.

Loks náðist það fram að 61. gr., sem var óskiljanleg en lýsti þó áformum um opna heimild til ráðherra um gerbreytingar í ríkisrekstri, hefur verið dregin til baka þrátt fyrir það að ríkisstjórnin áskilji sér rétt til þess að flytja um það sjálfstætt mál sem hún hefur að sjálfsögðu.

Að því er varðar fjárlögin eru þau mál enn í uppnámi og við vitum ekki á þessari stundu hvernig tekið er á því máli að leysa innbyggðan ríkisfjármálavanda sjúkrahúsanna en um það verður tekist á við afgreiðslu fjárlaganna.

[15:30]

Loks er þess að geta að það eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar á þessu þingi sem hafa lagt fram tillögur um að draga verulega úr ríkissjóðshallanum, bæði með því að leggja fram tillögur um almennan sparnað í ríkisrekstri þannig að á hvorum tveggja vígvellinum, annars vegar þegar verið er að takast á um mikilvæg grundvallaratriði velferðarþjónustunnar á Íslandi og svo hins vegar stefnumörkun til framtíðar í efnahagmsálum og ríkisfjármálum hefur stjórnarandstaðan að mínu mati sýnt með samstöðu sinni, tillöguflutningi og málflutningi að hún hefur staðist þetta próf. Þetta er raunverulega fyrsta prófið á þessu kjörtímabili sem verulega reyndi á.

Hitt er svo annað mál að það er vaxandi halli í fjárlögum, trúlega niðurstaðan hjá því sem var í upphaflegu fjárlagafrv. og var þó teflt á of tæpt vað. Þá hefur ríkisstjórnin lýst áformum sínum með tillöguflutningi, sem við fjöllum um á eftir við frv. til lánsfjárlaga, með einstakri tillögu sem varðar Spöl hf., sýnt að hún er aldeilis ekki á þeim buxunum að beita lánsfjárlögum til stuðnings aðhaldssamri efnahagsstefnu. Þetta er að mínu mati aðalatriði þessa máls. Það var mjög mikilvægt að menn eru sammála um túlkun á þessum atriðum eins og fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar sem síðan var samsinnt af formanni efh.- og viðskn., Vilhjálmi Egilssyni.

Nú þegar þessari lotu er lokið vil ég, virðulegi forseti, draga upp þau aðalatriði málsins sem upp úr standa vegna þess að þau skipta sköpum. Það hefur reynt á það hverju stjórnarandstaðan hefur fengið áorkað og getur fengið áorkað með einörðum málflutningi og vönduðum tillöguflutningi og hún hefur staðist það próf.