Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:41:40 (2364)

1995-12-21 15:41:40# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þá er loks eftir langa mæðu komið að lokum umfjöllunar þingsins um þetta leiðindamál, bandorminn, á herrans árinu 1995. Þó að þetta mál hafi í meðförum þingsins vegna baráttu stjórnarandstöðunnar og þrýstings utan að úr þjóðfélaginu tekið nokkrum framförum og innihald þess skánað í mörgum veigamiklum atriðum er það samt svo að eitt af því sem gerir það nokkuð sérstakt er að þrátt fyrir alla lengdina er það að uppistöðu til heldur til hins verra. Satt best að segja er sjaldgæft að finna jafnviðamikið frv. þar sem nánast öll helstu efnisákvæði frv. eru íþyngjandi eða fela í sér skerðingar eða afnám réttinda af einum eða öðrum toga. Ég minnist þess varla að hafa áður tekið þátt í að vinna að máli sem er svo einhliða illt og þetta plagg hér. Þar af leiðandi er það svo, herra forseti, að þó að það hafi heldur skánað í meðförum þingsins er það enn að uppistöðu til þannig að ekki er hægt að sætta sig við það og ég greiði því atkvæði gegn þessu frv.