Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:08:30 (2368)

1995-12-21 16:08:30# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:08]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var satt að segja hálfsorglegt að hlusta á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson reyna að rökstyðja þessa tillögu hér áðan. Ein af röksemdum hv. þm. var að lántökukostnaður mundi lækka. Að sjálfsögðu, hv. þm. Ef ríkið er ábyrgðaraðili, lækkar alltaf lántökukostnaðurinn. Íslandsbanki þarf t.d. að greiða hærri lántökukostnað en ríkisbankarnir erlendis. Eigum við þá að fara að veita Íslandsbanka ríkisábyrgðir til að lækka lántökukostnaðinn, hv. þm.? Það er ein af röksemdunum fyrir því að einkavæða ríkisbankana að þeir sitji til jafns við Íslandsbanka hvað lántökukostnað snertir. En nú er málunum snúið á haus og sagt að til þess að lækka lántökukostnaðinn, eigi að veita ríkisábyrgð. Það getur ekki verið alvara hv. þingmanns að færa það sem rök hér fyrir því að ríkið gangi inn í þennan rekstur með þessum hætti.

Í öðru lagi segir þingmaðurinn að í þessum þúsund millj. séu 300 millj. sem aldrei komi til með að falla ábyrgð á fyrr en verkinu er lokið. Hv. þm., það stendur bara ekki í tillögunni. Það er ekki stafur um það í tillögunni, hv. þm. Eina skilyrðið sem sett er í tillögunni er að ríkissjóði standi til boða að kaupa hlutabréfin. Þess vegna er þingmaðurinn að lýsa hér skilyrði sem ekki er nefnt á nafn. Þótt eitthvað sé tilgreint í hliðarnefndaráliti þeirra þingmanna sem flytja tillöguna, þá hefur það ekkert gildi varðandi bindingu hæstv. fjmrh. Samkvæmt þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar er fjmrh. heimilt að veita þessa þúsund milljóna ríkisábyrgð án nokkurra annarra skilyrða en kaupa á hlutabréfunum. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm. auk fyrirspurnar minnar um lækkun lántökukostnaðarins: Ætlar hann að breyta tillögunni til að setja þetta skilyrði inn?