Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:21:17 (2374)

1995-12-21 16:21:17# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:21]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér í ræðustól upplýsti einn flm. þessa frv. að varðandi efnisþætti mundu 300 millj. kr. duga til að klára þetta mál. Hann sagði einnig að viðbótin væri í reynd hækkun fjárlaga. Hér er verið að leggja til tillögu um þúsund millj. kr. ríkisábyrgð þegar 300 millj. mundu duga og menn gætu þá komið með annað frv. þegar betur stæði á.

Herra forseti. Ég verð að biðja um það þegar einn flm. þessa frv. upplýsir þetta með þessum hætti í umræðunni að lögð sé til óþarfaríkisábyrgð upp á 700 millj. að gert verði hlé á umræðu málsins þannig að mönnum gefist ráðrúm til að fara yfir efnisþætti þess, þ.e. hinar tölulegu upplýsingar sem hér liggja að baki. Það er ekki hægt, herra forseti, að ætlast til þess að knúin verði fram ríkisábyrgð upp á þúsund millj. þegar upplýst hefur verið í málinu að 300 millj. væru nóg til að greiða úr þeim bráða vanda sem blasir við. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að hann verði við þeim tilmælum mínum að þetta mál verði látið kyrrt liggja um stund og menn fari betur yfir þá þætti í ljósi yfirlýsinga eins af flm. frv.