Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:37:51 (2377)

1995-12-21 16:37:51# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÓRG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:37]

Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð sterk venja í þinginu að þegar beðið er um ríkisábyrgð af því tagi sem hér er til umfjöllunar þá sé það viðkomandi ríkisstjórn sem leggi slíka tillögu fram með ítarlegum rökstuðningi. Það er ekki gert í þessu máli heldur kom hér í gær rétt fyrir miðnættið tillaga upp á einn milljarð, fyrst flutt af fjórum þingmönnum, svo prentað upp og tveir í viðbót skikkaðir til að vera með. Enginn ráðherra hefur rökstutt þetta mál í umræðunum eða tekið á því ábyrgð, enginn. Síðan er upplýst til viðbótar af hv. síðasta ræðumanni að efh.- og viðskn. hafi engar upplýsingar fengið sem geri nefndarmönnum kleift að meta málið eða mynda sér afstöðu á grundvelli upplýsinganna, þrátt fyrir ítarleg störf í nefndinni, og ég bið hæstv. forseta að taka vel eftir þessu. Það er nú búið að rekja það hér að engar upplýsingar hafa komið fram í nefndinni sem hægt er að telja viðhlítandi.

Síðan bætist það við að einn af flm. hefur nú flutt ræðu þar sem hann rökstyður það álit sitt að 300 millj. kr. nægi á þessu þingi fyrir áramót til þess að greiða úr því sem flm. kalla vanda málsins. Það má vel vera að það sé rétt, hæstv. forseti. En ég segi við hæstv. forseta: Í ljósi þessa alls er afar óskynsamlegt að eyða tíma þingsins í áframhaldandi ræðuhöld í þessu máli. Ég legg til að hæstv. forseti samþykki þá tillögu að umræðu sé frestað, efh.- og viðskn. fái að fjalla um málið og safnað sé efnislegra gagna í málinu en ekki hafinn hér langur og mikill málfundur um þetta mál sem liggur fyrir með þeim hætti sem nú þegar er búið að upplýsa. Ég vil þess vegna eindregið styðja það, hæstv. forseti, að málinu verði frestað nú og tekið til við önnur mál svo hægt sé að greiða fyrir störfum þingsins.