Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:13:44 (2382)

1995-12-21 17:13:44# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:13]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru engin ný sannindi. Það lá fyrir á Alþingi 1994 þannig að ekki þarf að koma upp núna í andsvari og flytja þinginu þau tíðindi. Þessi breytti samningur var staðfestur á Alþingi 20. apríl 1994 og 25. febrúar á þessu ári lýsti hæstv. ráðherra mjög rækilega hvað þetta væri í góðu lagi, varðandi fjármögnun, með því að þylja upp alla þessa fínu erlendu aðila sem hefðu komið að málinu. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvenær hann uppgötvaði þau sannindi sem hann flutti í ræðu sinni áðan. Það var ekki 1994, þegar hann bað um staðfestingu á samningnum á Alþingi. Það var ekki í febrúar á þessu ári, heldur allt í einu nú. Þess vegna segi ég við virðulegan forseta: Það er alveg augljóst að það er óhjákvæmilegt að fresta þessari umræðu hér og nú. Hafi verið einhverjar efasemdir um það áður en hæstv. samgrh. flutti sína ræðu þá er orðið alveg ljóst að ekki er hægt að halda áfram með málið í umræðu eins og hæstv. ráðherra lagði það fyrir með ræðu sinni.