Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:36:26 (2393)

1995-12-21 17:36:26# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:36]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að rétt sé að það sé upplýst sem ég sagði áðan. Það á við málsmeðferð varðandi þetta efni að gert verði hlé og málin skoðuð betur. Í því felst engin afstaða. Ég talaði um fjóra þingflokka stjórnarandstöðunnar. Það er ekki rétt með farið. Það eru ekki þingflokkssamþykktir sem liggja að baki þessari ósk um málsmeðferð og vitaskuld liggur ekki fyrir nein afstaða þingflokka eða þingmanna um efni tillögunnar. Við erum ekki að ræða um hana. Við erum að ræða um formið á umræðunni. Tilteknir forustumenn stjórnarandstöðunnar hafa tjáð sig og ég skil það svo að stjórnarandstæðingar almennt geti fallist á það en ég vil ekki fullyrða neitt um alla þingflokka eða einstaka þingmenn í því efni.

Í öðru lagi vil ég taka fram til að upplýsa hæstv. forseta um málsmeðferð af því að hv. formaður efh.- og viðskn. gerði hana að umtalsefni að þegar komið var á fund efh.- og viðskn. í gærkvöldi var þessi tala, 1.000 millj., fyrst rædd og talað út frá þeim hugmyndum, nokkrir menn kallaðir þar til og farið yfir málið á stuttum fundi. Mjög mörgum spurningum var ósvarað í efninu. Síðan viku þingmenn stjórnarandstöðunnar af fundi vegna þess að meiri hlutinn vildi ráðgast aðeins sín á milli og við þá aðila sem komu að málinu hvaða upphæð ætti að vera á ríkisábyrgðinni. Það var alveg ljóst að meiri hlutinn vildi flytja málið á sína ábyrgð, minni hlutinn var ekki aðili að því, og umræða í efh.- og viðskn. var á þeim nótunum og það er þess vegna sem menn hafa verið að tala um 300 millj. eða 400 millj. Umræðan var meira á þeim nótunum, líka meðal meiri hlutans. Það er fyrst, herra forseti, þegar við sitjum í þingsal um kvöldið að við nefndarmenn í efh.- og viðskn. sjáum hvaða tala er í tillögu meiri hlutans, einn milljarður. Þannig að það er alveg ljóst hvernig málið er afgreitt frá efh.- og viðskn. Það er gert með þessum hætti. Þetta mál er ekki inni í samningum okkar enda gat það ekki verið inni í samningum þegar tölur lágu ekki fyrir. Miðað við allt þetta er ekki verið að fara fram á mikið. Við höfum ekki tekið afstöðu til efnis málsins á nokkurn máta. Við höfum bent á ýmis atriði sem þarf að skoða nánar. Ég gæti vel trúað því að innan stjórnarflokkanna vildu menn e.t.v. líta á nokkra þætti, ekki síst í ljósi ræðu eins flutningsmanns eins og ég nefndi áðan að það sé heppilegt allra hluta vegna að gera hlé á fundinum á þessu máli þannig að það gefist ráðrúm að ræða það í efh.- og viðskn. frekar.