Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:50:42 (2401)

1995-12-21 17:50:42# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það reynist nauðsynlegt að ræða þetta sérkennilega mál sem hér er komið upp með nokkuð öðrum hætti og undir öðrum formerkjum en kannski hefði verið heppilegast og nauðsynlegt ef hæstv. samgrh. hefði ekki hagað máli sínu eins og hann gerði áðan. Satt best að segja er langt síðan ég hef séð einn hæstv. ráðherra leggja jafnmikið af mörkum í þágu málefna sinna að koma þeim áfram í gegnum þingið eins og hæstv. ráðherra gerði.

Herra forseti. Ég hafði ætlað að lýsa þeim tilfinningum mínum í bland við þessa tillögu að ég tel mikil vonbrigði að svona skuli komið eftir allt sem á undan er gengið í sambandi við þetta mál. Því miður eru að rætast spár sem sumir höfðu uppi um að svona mundi að lokum fara þrátt fyrir yfirlýsingar um annað og þrátt fyrir að grundvöllur málsins hafi frá upphafi verið annar, þ.e. sá að hér væri og yrði um algerlega sjálfstætt mál að ræða sem stæði á eigin forsendum utan vegáætlunar og ríkið bæri ekki neina ábyrgð á eða lenti í öðrum kostnaði en þeim sem alltaf hefur legið fyrir að tengja mannvirkið inn á þjóðvegakerfið. Þannig voru forsendur málsins lagðar í byrjun og þannig hafa þær verið kynntar allt fram til gærdagsins. Af því að sá sem hér stendur á nokkra aðild að og ber að segja má mikla ábyrgð á upphafi málsins tel ég óhjákvæmilegt að verja með vissum hætti hendur mínar gagnvart málflutningi hæstv. samgrh. áðan.

Ég átti lengi vel erfitt með að átta mig á því hvaða tilgangi þau ræðuhöld þjónuðu hjá hæstv. ráðherra að rifja söguna upp með þeim hætti sem hann gerði. Af því að ég er orðinn nokkuð vanur að lesa í hringlaga eða sporöskjulagað hugsunarferli hæstv. samgrh. af löngu samstarfi við hann og sambúð við hann í pólitík held ég að ég hafi undir lokin áttað mig á því hvað hæstv. ráðherra ætlaðist til að menn læsu út úr orðum sínum. Það er sem sagt að gallaður upphafssamningur og mistök þeirra sem stóðu að því að hrinda þessu máli úr vör kostaði það nú að nauðsynlegt væri að veita ríkisábyrgð upp á milljarð. Í reynd var hæstv. ráðherra að reyna að segja að vegna þess að í upphafssamningnum hefðu menn boðið fyrirtækinu Speli hf. upp á of hagstæð skilyrði og hugsanlega of mikinn hagnað í fyllingu tímans hefði reynst nauðsynlegt að knýja fram ýmsar breytingar og það kostaði svo aftur ríkisábyrgð núna. Ef átti að reyna að fá einhvern botn í málflutning samgrh. þá fannst mér hann helst verða þessi. En þetta er stórfurðulegur málflutningur svo að ekki sé meira sagt.

Voru það áhyggjur hæstv. samgrh. út af því að fyrirtækið mundi hagnast svo gríðarlega á þessu máli og hluthafar þess, sem reyndar eru að stærstum hluta opinberir aðilar, að það væri nauðsynlegt að fara í sérstakar aðgerðir gegn því? Og hvernig gæti fyrirtækið hagnast? Það mundi væntanlega ekki gera það, hvorki að breyttum né óbreyttum samningi nema þá vegna þess að allt gengi svo skínandi vel á besta máta. Framkvæmdin tækist vel, yrði ódýr ef ekkert kæmi upp á, engin ófyrirséð útgjöld yrðu, rekstrarkostnaður yrði lágur og mikil umferð um göngin. Að öllum þessum forsendum uppfylltum er það alveg rétt. Bæði elsti samningurinn og seinni samningar hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að fyrirtækið og hluthafar þess gætu fengið hlutdeild í þeim hagnaði en ekki nema hlutdeild vegna þess að verulegur hluti hagnaðarins á samkvæmt samningnum að ganga til þess að flýta afborgunartímanum og verða til þess að mannvirkinu er skilað fyrr til Vegagerðarinnar. Svona er nú málið. Það er þá orðin staðreynd sem er nokkuð merkileg og umhugsunarefni fyrir menn að hæstv. ráðherra er svona harður á móti því að einkaaðili geti átt arðsvon í vændum í verkefni af þessu tagi, að hann fer í allar þessar skógarferðir til að koma í veg fyrir það og breyta þá forsendum málsins að því leyti til.

Í samningum sem hæstv. ráðherra sjálfur ber ábyrgð á og hefur gert við fyrirtækið eru áfram möguleikar fyrirtækisins á því að greiða arð og draga hann frá rekstri upp á 14% sem er væntanlega aðalstærðin í þessum efnum því að endanlegur hagnaður eftir rekstur og arðuppgjör og afborganir verða ekki stóra talan í þessum efnum. Þá er nokkuð sérkennilegt að hann skuli þá gera þetta að úrslitaatriði.

Herra forseti. Því miður er óhjákvæmilegt að leiðrétta hæstv. ráðherra í þeim tilvikum sem hann fer beinlínis rangt með. Hæstv. ráðherra gerði það að miklu máli áðan að það þrengdi að mönnum, okkur held ég að hæstv. ráðherra hafi sagt því að hann talaði mjög mikið ýmist í 1. persónu eintölu eða fleirtölu, að fyrirtækið hefði einkarétt á jarðgangagerð undir Hvalfjörð fram á næstu öld. Þetta voru óbreytt orð ráðherrans. Þetta er beinlínis rangt. Það hefur aldrei átt sér stoð. Það hafa aldrei í neinum samningum, hvorki upphafssamningnum, breytingunum 1993 né breytingunum í vetur verið slík ákvæði fyrir hendi. Maður verður að spyrja sig, herra forseti, hvaða traust er hægt að bera til hæstv. ráðherra sem kann ekki einu sinni grundvallarstaðreyndir í máli af þessu tagi og fer rangt með það úr ræðustóli. Í upphafssamningnum sem ég hef í höndunum er þannig gengið frá þessu í 3. gr. að leiði hagkvæmnisathugunin, sem fyrirtækinu var í upphafi heimilað að standa fyrir, það í ljós að mati félagsins að veggöngin geti orðið arðvænleg þá skuli fyrirtækið hafa í sjö ár einkarétt á því að leggja veggöng um utanverðan Hvalfjörð. Þetta er á árinu 1991 þannig að sjö ár í viðbót við það er árið 1998. En hefjist hins vegar ekki framkvæmdir innan fjögurra ára fellur einkarétturinn niður þannig að fyrirtækið hefur þá aldrei frá því að niðurstöður hagkvæmnisathugunar liggja fyrir haft nema fjögurra ára tíma til þess að hefja framkvæmdirnar. Þá fellur rétturinn niður. Jafnvel frá deginum í dag nær þetta ekki fram yfir aldamót og er þá hagkvæmnisathuguninni löngu lokið þannig að verulega er farið að ganga á þann tíma sem fyrirtækið hefur til þess að hefja framkvæmdir. Það er þannig. Þetta er kannski ekki stórt mál en ég taldi rétt að leiðrétta þetta hér út af því að hæstv. ráðherra fór út í þetta á annað borð að fara beinlínis rangt með hlutina.

Herra forseti. Ég sagði að það væru vonbrigði að svona væri komið í þessu máli og það eru mér sannarlega mikil vonbrigði, sérstaklega í ljósi upphafs málsins. Það er alveg rétt sem hæstv. samgrh. sagði og ég man vel eftir því einnig að það vakti nokkra athygli að sá sem hér talar, alþýðubandalagsmaðurinn sá, skyldi á sínum tíma standa fyrir því að þessu einkafyrirtæki var heimilað að ráðast í könnun á því hvort þetta verk væri hagkvæmt og þá standa fyrir framkvæmdum á því ef svo yrði og þá jafnframt, sem liggur í eðli málsins, að leggja á vegtoll í göngunum til þess að fjármagna framkvæmdina. Þetta var ekki gert í neinu fljótræði heldur að vandlega athuguðu máli og á grundvelli tiltekinna forsendna. Í mínum huga hefur það allan tímann verið nauðsynleg prófraun í sambandi við mál af þessu tagi að menn stæðu við þær forsendur, gæfu þær ekki eftir. Það hefur alltaf verið áætlun mín að þannig ætti að standa að málunum. Verkið ætti að sanna sig sjálft og standa og falla með því að hinar upphaflegu forsendur þess héldu, því að þannig var það kynnt. Þannig var það kynnt stjórnvöldum og þannig var á það fallist.

[18:00]

Það er rétt að menn hafi þá í huga það upphaf málsins að áhugasamir aðilar á Vesturlandi hrintu því úr vör, stofnuðu þetta undirbúningsfélag eða bundust samtökum um það. Þeir komu til stjórnvalda og spurðu hvort þeir mættu láta á það reyna hvort hægt væri að taka þetta verk út úr allri vegáætlun, allri röð og láta framkvæma það með þessum hætti á sjálfstæðum forsendum. Ég sem þáv. samgrh. athugaði málið og sagði að vandlegri athugun lokinni að ég teldi rétt að leggja ekki stein í götu þess að þetta einkafyrirtæki gerði þetta. Ég flutti þáltill., stóð fyrir samningum og fékk málin þannig úr garði gerð að fyrirtækið gat farið af stað með athugunina. (Gripið fram í: Það styttir leiðina norður.) Ég held að það sé alveg ástæðulaust að gefa sér einhverjar sjálfstæðar forsendur af því tagi. Mörg samgöngumannvirki sem komust til framkvæmda og voru undirbúin í minni tíð styttu ekki beinlínis leiðina norður í land, hv. þm., eins og jarðgöng á Vestfjörðum eða ferja til Vestmannaeyja. Hafi einhver samgrh. á seinni árum sýnt að hann hugsaði ekki eingöngu um sitt kjördæmi, hygg ég að það sé sá sem hér stendur. Það er annað en nú er uppi.

Þannig var það að þessi sósíalisti lagði fyrstur manna í samgöngusögunni til að þetta yrði gert. Ég veit að það kemur ýmsum á óvart eins og hæstv. samgrh. að ég er þrátt fyrir allt ekki íhaldssamari en þetta. Ég þorði að beita mér fyrir þessari nýbreytni sem enginn annar hefur gert, hvorki fyrr né síðar. A.m.k. ekki í sambærilegu máli eða af sambærilegri stærðargráðu. Þetta vekur eðlilega undrun og þykir mörgum merkilegt, sérstaklega þeim sem hafa haft það fyrir íþrótt að stimpla ræðumann sem alveg sérstakan talsmann fortíðarinnar og gæslumann íhaldssamra sjónarmiða. En lengi skal manninn reyna og svo kynni að vera að slíkar einkunnir ættu ekki alltaf stoð í veruleikanum þegar betur er að gáð. Ég treysti mér til að gera þetta vegna þess að ég taldi efnislegar forsendur málsins vera slíkar að það væri skynsamlegt. Og ég hef þann leiða sið að reyna að taka vitsmunalega afstöðu til hlutanna og skynsamlega og láta ekki einhverjar fyrir fram gefnar skoðanir hindra mig í því. En ég stend hins vegar líka við mína grundvallarsannfæringu í pólitík og skammast mín ekki fyrir það og mér er alveg nákvæmlega sama þótt einhverjir kalli það íhaldssemi. Það er önnur íhaldssemi en sú sem ég hef skömm á.

Mjög mikilvægt undirstöðuatriði í sambandi við þetta mál allt er það að verkið væri ekki þar statt sem það er í dag ef ekki hefði verið það sem ég hélt vera algjöra pólitíska samstöðu um að það skyldi byggja á þessum grundvelli. Um það hefur að ég hélt verið alger pólitísk samstaða. Og það er ekki fyrr en í tíð núv. ríkisstjórnar og að einhverju leyti fyrri ríkisstjórnar eða í tíð hæstv. samgrh. á fyrra kjörtímabili sem menn byrja að læðast út á þá braut að þetta verði smátt og smátt að ríkisframkvæmd. Og hvers vegna er mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga? Vegna þess að það hefði væntanlega ekki orðið samstaða um að taka þetta mál fram fyrir mörg önnur stór samgöngumál í landinu ef það hefði verið sett inn á vegáætlun og sett í forgangsröðun samgöngumannvirkja. Þá hefðu hlutirnir litið öðruvísi út. Réttlætingin fyrir því að taka það til hliðar og láta athugun fara fram á því hvort þetta gæti gerst svona til hliðar og viðbótar öðrum framkvæmdum var sú að það stæði á eigin forsendum.

Ég hef trekk í trekk á undanförnum árum varið þetta mannvirki eða undirbúninginn að framkvæmd þess og ég hef gert það einmitt með þessum rökum. Það á að standa til hliðar og ekki koma niður á öðrum framkvæmdum nema að þessu eina leyti að auðvitað þarf svo að tengja það við vegakerfið þegar það verður komið í gagnið.

Nú er það svo, herra forseti, að í gamla daga var tæknin ekki orðin slík sem hún er í dag og m.a. ekki hér í þingsölum. Vorið 1991 þegar greidd voru atkvæði um þáltill., hvar samningur um Spöl var fylgiskjal var ekki til þetta ratkerfi sem skráir viðveru manna. En þingtíðindin geyma það þó að 35 alþm. greiddu samhljóða atkvæði með tillögunni. Það skar sig enginn úr, þingmenn allra flokka, þar með talið flokks núv. hæstv. samgrh. E.t.v. er hæstv. samgrh. svo minnugur og þá jafnframt svo vinsamlegur að hann upplýsi okkur um það hvort hann man sig hafa verið með í þessum hópi. En það er ljóst að allir sem viðstaddir voru greiddu atkvæði með tillögunni og um það var einróma samstaða á þingi. Ég lít því svo á að allar þessar forsendur málsins hafi notið víðtæks, pólitísks stuðnings. Samningurinn með þeim ákvæðum sem hæstv. samgrh. hamast núna gegn var líka studdur af Sjálfstfl. Það er því alveg ótrúlegt að menn skuli koma og ætla að snúa hlutunum svona á haus eins og hæstv. ráðherra er núna að gera. Það er málinu ekki til framdráttar.

Ég endurtek að mér fannst ekki þá og finnst ekki enn að aðalatriði málsins sé hvort fyrirtækið Spölur og hluthafar hagnist eitthvað í fyllingu tímans ef allt gengur upp, eftir mikla áhættu og langa bið. Enda er alveg ljóst að þetta fyrirtæki var ekki stofnað til þess sem slíks. Það var ekki tilgangurinn með hluthöfunum, fyrirtækjunum á Vesturlandi, sveitarfélögum og öðrum slíkum aðilum. Markmiðið með stofnun félagsins var að koma þessu verki á og ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið keppikefli aðstandendanna að einhverjar alveg sérstakar hagnaðarvonir væru inni í dæminu. Nema þá að menn tengdu þær við möguleika fyrirtækisins til þess að fá verkið framkvæmt og hugsunin væri þá að ná aðilum inn í fyrirtækið með fé á grundvelli hagnaðarvona sem gerði það svo sterkt að það gæti framkvæmt verkið. En ætti það þá ekki að geta það án ríkisábyrgðar? Við skyldum ætla það. Ef mönnum litist svo vel á þetta sem gróðavænlegt fyrirtæki að þeir streymdu inn í það með hlutafé þyrftu þeir a.m.k. ekki að hafa áhyggjur af þætti ríkisins í því sambandi. Þannig hefði það þó verið aðgerð í sjálfu sér.

Eitt enn er nauðsynlegt að hafa í huga í þessu sambandi og það er spurningin um það hvort hætta sé á því að í krafti þessa einkaleyfis til þess að byggja og reka jarðgöngin geti rekstraraðilinn misfarið með aðstöðu sína, okrað á umferðinni og grætt óhóflega af þeim sökum. Svarið er nei. Það er ekki vegna þess að Verðlagsstofnun eða Samkeppnisstofnun eigi að setja gjaldskrá, í því tilviki var líka farin önnur og ný leið. Það er vegna þess að í samningnum stendur að vegurinn umhverfis Hvalfjörð skuli alltaf vera opinn mönnum til þess að fara hann ef gjaldskráin í göngunum verður ósanngjörn. Það er beinlínis tekið fram að fyrirtækinu er óheimilt að hækka gjaldskrá sérstaklega ef tímabundnir samgönguerfiðleikar yrðu á landi. Þetta er með öðrum orðum hugsað þannig að göngin og gjaldskráin þar verði alltaf að keppa við þann möguleika að menn fari veginn. Þar með stillir það sig sjálft af að einhvers staðar liggja efri mörk fyrir þeirri gjaldtöku sem gerir umferðina um göngin samkeppnishæfa. Ef menn hækkuðu gjaldskrána of mikið skiptu menn einfaldlega ekki við rekstraraðila ganganna heldur keyrðu hringinn. Þetta er ósköp einfalt. Það liggur í eðli málsins og í samningnum frá byrjun þannig að sú hætta er ekki fyrir hendi. Og þá átta ég mig í raun og veru ekki lengur á því hver átti að vera botninn í málflutningi hæstv. samgrh. Nema þá sá að spilla vísvitandi fyrir málinu og setja allt í loft upp með alls konar árásum og skotum út og suður á alla aðila sem komið hafa að málinu, kennandi öllum öðrum um en sjálfum sér. Það er hvorki merkileg né rismikil framganga, herra forseti.

Að lokum, herra forseti, fáein orð um tillöguna sjálfa og stöðuna gagnvart henni. Það er að mínu mati mjög bagalegt að málið skuli koma svona seint inn og vera svo illa kynnt sem raun ber vitni. Hvað sem hver segir er það ekki vönduð meðferð á máli að það birtist mönnum efnislega og í endanlegri gerð í fyrsta sinn að kvöldi dags um það bil sólarhring áður en ætlunin er að drífa það út. Einhvern tíma hafa menn tekið sér aðeins meiri umhugsunarfrest vegna minni mála en það að ákveða á einu bretti reyndar ekki bara 1.000 millj. kr. ábyrgð ríkisins heldur 1.070 millj. kr. því það kemur á daginn að það er búið að veita þessu fyrirtæki í tvígang fyrirgreiðslu. Því miður að því er virðist í bæði skiptin áður en heimildanna var aflað. Fyrst á árinu 1993 að ég hygg, frekar en 1994, var fyrirtækinu veitt 50 millj. fyrirgreiðsla til að standa straum af rannsóknarkostnaði. Ég hef fyrir því skjalfestar sannanir úti á skrifstofu minni að þeir fjármunir voru reiddir af hendi af hálfu fjmrh. áður en heimild var fengin fyrir því á Alþingi. Gögnin fékk ég í hendur af því að ég sat og sit reyndar enn í efh.- og viðskn. Nú er komið hér aftur undir lok ársins 1995 og beðið um 70 millj. í viðbót fyrirtækinu til handa. Mér er ekki grunlaust um að aftur hátti þannig til að í reynd sé fyrirtækið búið að fá þessa fjármuni eða a.m.k. búið að ákveða að veita því þessa fjármuni án þess að heimildar hafi verið aflað fyrir því. Það skyldi þó ekki vera þannig, herra forseti, að þeir sem ættu að ganga hægt um gleðinnar dyr og vera hógværir í orðavali væru einmitt þeir sem svona hafa staðið að hlutunum? Það var ekki farið í felur með neitt þegar málið var kynnt í byrjun og upphaflegur samningur var lagður fyrir þingið. Þá var það á hverjum tíma sem opin bók fyrir öllum mönnum. Á meðan málið var í höndum þeirrar ríkisstjórnar afgreiddi þingið allar heimildir á tilsettum tíma áður en til nokkurs kostnaðar var stofnað.

Niðurstaðan sem hér blasir við er sem sagt sú, herra forseti, að með þessum heimildum í viðbót upp á 70 og síðan 1.000 millj. er verið að leggja til að samtals verði ábyrgð ríkisins í þessu dæmi þar með komin í 1.120 millj. kr. Og hvað sem hver segir er íslenska ríkið auðvitað komið býsna langt inn í verkið þegar svo er komið. Þegar til viðbótar kemur svo innlend fjármögnun á byggingartíma að einhverju leyti með aðild Íslandsbanka og Landsbanka og langtímafjármögnun með aðild lífeyrissjóðanna er alveg ljóst að ábyrgðin af velferð þessa máls er að mjög verulegu leyti komin á íslenskar herðar: Ríkisins, eigenda Spalar sem eru opinberir og hálfopinberir aðilar og svo innlendra fjármögnunaraðila. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að hér sé spurt hvað sé næst. Enda var það mín fyrsta spurning í gærkvöldi í efh.- og viðskn. Erum við ekki því miður að hrekjast inn á þá braut að fjárfesting í málinu af hálfu innlendra aðila sé orðin svo mikil og svo mikið í húfi að það verði ekki um annað að ræða en klára málið hvað sem það kostar? Og ríkið í reynd komið í þá stöðu að það geti ekki bakkað út? Kannski má segja að við séum búin að setja býsna mikið í málið nú þegar. Fyrirtækið Spölur er búið að leggja í þetta um 100 millj. Ríkið er fyrir löngu búið að veita 50 millj. í viðbót og sennilega a.m.k. búið að lofa ef ekki greiða þar á ofan 70 millj. Það sem þegar er búið að binda í málinu er þá af stærðargráðunni 150--220 millj. Það er þó nokkuð, kannski 5--10% af áætluðum heildarkostnaði við málið. Þannig er nú þetta.

[18:15]

Að lokum, herra forseti, fáein orð varðandi þessa ábyrgðarhlið á málinu. Það fer mjög tvennum sögum af því hver þörf fyrirtækisins er í dag fyrir viðbótarábyrgðir. Það er alveg ljóst að það hvernig vegtengingin við göngin verður leyst er sjálfstætt mál. Ég lagði til strax í gærkvöldi að því yrði ekki blandað saman við þessa ábyrgð, að 400 millj. kr. sem eru vegna veganna yrði haldið algjörlega aðskildum og utan við þetta mál. Þeir eiga ekkert skylt við það hvort ríkið fer að veita einhverjar ábyrgðir vegna jarðganganna sjálfra. Þess vegna átti að sjálfsögðu ekki að biðja um einhverja ríkisábyrgð, lántökuheimild eða annað slíkt í einni óskilgreindri tölu þar sem 400 millj. kr. væru vegna veganna. Eða er verið að reyna að plata menn eitthvað með því? Það er að vísu lagt til að sú breyting verði á að göngin sjálf eða vegtollurinn borgi helming af kostnaðinum, 400 millj. af 800 millj. kr. Það er efnisleg breyting sem er allt í lagi að ræða og taka afstöðu til en það átti þá að gera með algjörlega sjálfstæðum hætti, annaðhvort í sérmáli eða í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar síðar. Þá hefði talan lækkað í 600 millj.

Síðan er röksemdin fyrir 300 millj. í viðbót að þær séu til þess að lækka vexti. Það sé eini tilgangurinn fyrir ríkisábyrgðinni, að lækka vexti. Hvernig fá menn það út? Menn fá það út með því að segja: Fyrirtækinu stendur til boða að taka þetta að láni hjá Þróunarfélaginu. Þróunarfélagið ætlar að okra á fyrirtækinu. Þess vegna verðum við að lækka vextina með því að veita ríkisábyrgð. Með öðrum orðum, menn nota okurvexti Þróunarfélagsins sem röksemdir fyrir því að gefa út 300 millj. kr. ríkisábyrgð til að lækka vaxtakostnaðinn. Þetta er dálítið sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Þá stendur eftir, að því er best verður séð, raunveruleg beiðni eða þörf til þess að verkið komist áfram fyrir 300 millj. kr. ábyrgð til fyrirtækisins sem þó á ekki að verða virk fyrr en göngin hafa verið byggð. Það er þá það efnislega sem menn ættu að hafa uppi á borðinu og taka afstöðu til. Auðvitað hefði átt að setja málið svona upp, þótt ekki væri nema að breytingartillöguskjalið væri sett upp í þremur stafliðum:

a. Ábyrgð vegna 300 millj. kr. við verklok,

b. Ábyrgð vegna ófyrirséðs kostnaðar á byggingartíma, þ.e. meiri styrkingar til þess að losna undan okurvöxtum Þróunarfélagsins, og

c. Sjálfstæð ákvörðun um það hvort menn vildu fara þá leið að veita ríkisábyrgð á lán til Spalar hf., sem aftur tæki þá á sig 400 millj. kr. kostnað eða helminginn af kostnaðinum við vegtenginguna.

Svona liggur málið efnislega. Ef menn vilja að vitað sé hvað verið er að tala um, taka afstöðu til og greiða atkvæði um þá á að leggja málin þannig upp að það sé hægt að skilja þau. Það er hneykslanlegt, herra forseti, að málið skuli vera lagt fyrir með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það vill svo til að ég þykist hafa þokkalegar forsendur til að átta mig á málinu af vissum, sögulegum ástæðum. En ég get kannski ekki gert sömu kröfu til allra. Mér er alveg ljóst að menn máttu vera meira en lítið glöggir og snöggir til að skilja málið til botns t.d. á fundi efh.- og viðskn. í gærkvöldi, þegar það nú bættist við að skýringar gesta nefndarinnar gengu alveg í kross. Ég ætla ekki að rekja það í einstökum atriðum af því að ég er ekki viss um að það væri mjög til hagsbóta eða gerði verkefnið trúverðugt út á við og ég vil ekki skemma fyrir því. En það var sérkennilegt að heyra ráðuneytisstjóra samgrn. og stjórnarformann fyrirtækisins tala í kross um tiltekna þætti þessa máls. Manni brá dálítið og velti fyrir sér hvort það gæti þá virkilega verið þannig að fleira væri ekki eins vandlega undirbúið og það þyrfti að vera. Þetta er nú ekki gott, herra forseti. Svona er ekki gaman. Okkur mörgum sem er annt um þetta mál og berum til þess hlýjan hug þykir þetta ekki gott, a.m.k. á það við um undirritaðan. Ég er dapur yfir stöðunni sem komin er upp í málinu. Vegna þess --- þá kemur loksins að því, herra forseti, --- að ég er og hef verið spenntur fyrir því að unnt yrði að ráðast í þessa framkvæmd. Ég hef verið það. Ég gæti tekið undir sjónarmið ríkisrekstrarsinnans, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, að ég væri alveg tilbúinn til þess að Vegagerðin annaðist þetta mál, var það frá byrjun, en það var bara borið öðruvísi upp við stjórnvöld. Óskin var um að einkaaðilar fengju að spreyta sig á því að gera þetta, án hjálpar ríkisins, og ég var líka tilbúinn til þess.

Mér finnst slæmt ef málið er komið í óefni og hálfgert klúður vegna þess að það væri mjög gott mál ef á sjálfstæðum forsendum væri hægt að stytta leiðina fyrir alla umferðina vestur og norður um land um 45 km eða þar um bil, búa til enn stærra og sterkara atvinnusvæði við sunnanverðan Faxaflóa. Í því er auðvitað fólgin veruleg þjóðhagsleg arðsemi að samgöngubætur af þessu tagi verði að veruleika, nýting ökutækja og tíma manna, sparnaður á eldsneyti, greiðari samgöngur og allt sem því fylgir. Það er geysilegt stórmál fyrir samgöngur í verulegum hluta landsins að þessi framkvæmd geti komist á, ef hún er hagkvæm, gengur upp og málið stenst. Ef það verður svo að tollurinn þurfi ekki að verða hærri en það að menn borgi með glöðu geði nokkur hundruð kr. til þess að spara sér krókinn og eldsneytið og til að flýta fyrir sér.

Það er líka rétt að ástæða er til að benda á ástand vegarins fyrir Hvalfjörð. Þar bíður stórt verkefni sem lendir inn á almenna vegáætlun ef ekki reynist unnt að ráðast í göngin, það er alveg ljóst. Það verða mönnum gríðarleg vonbrigði, sérstaklega um vestanvert landið, ef ekki tekst að ráðast í framkvæmdina. Því er ábyrgð manna, sem standa þannig að þessu að málinu er stofnað í hættu, líka mikil. En það er síður en svo að þeir sem vilja ræða um þetta mál efnislega beri þar sökina. Það er frekar hæstv. samgrh. sem kemur hingað og er, það er ekki hægt að segja annað, eins og naut í flagi, ber menn alls konar sökum og fer jafnvel rangt með staðreyndir málsins. Hann greiðir ekki mjög fyrir framgangi þess. Það er þess vegna vont, herra forseti, að mönnum er eins og málið liggur nú fyrir og er statt í umræðunni stillt upp við vegg. Það er sagt: Já eða nei við þessu, eins og þetta er, á þeim forsendum sem liggja fyrir. Engar frekari upplýsingar gefnar, ekkert fundarhlé, enga nefndarfundi, engar breytingar á tillögunni, bara já eða nei. Þá eru menn settir í þá óþægilegu aðstöðu að annaðhvort kyngja þeir þessu og greiða því atkvæði eða ... (Samgrh.: Eða eru bara á móti t.d.) Eða eru þá á móti, já. (Samgrh.: Það er hægt að sitja hjá.) Bíddu rólegur, hæstv. ráðherra. Ég get alveg botnað þessa vísu hjálparlaust. Já, eða greiða atkvæði á móti. Hvað fengju þeir þá á sig? Þótt þeir mundu gera það á fullkomlega efnislegum forsendum, fyrst og fremst vegna þess að málið væri ekki bært til afgreiðslu, þá fengju þeir að sjálfsögðu hæstv. samgrh. og aðra slíka á bakið og hæstv. ráðherra mundi segja: Þarna eru þrjótarnir sem urðu þess valdandi að það var ekki hægt að gera jarðgöng undir Hvalfjörð. Ég hef breitt bak og hefur áður þurft að standa af mér svona gusur frá hæstv. ráðherra þannig að það mundi í sjálfu sér ekki hræða mig, a.m.k. ekki málflutningur þess hæstv. ráðherra. En ég hef þurft að verja ýmsar mínar ákvarðanir fyrir linnulausum árásum hans um langt árabil eins og t.d. hamaganginn í hæstv. ráðherra gegn Vestmannaeyjaferjunni og mætti þar fleira skrautlegt nefna til, sem hefur satt best að segja verið sérkennilegt að upplifa af hálfu yfirmanns samgöngumála í landinu á köflum. (Samgrh.: Voru nægar lánsheimildir fyrir hendi þegar skrifað var undir?) Það var á hverjum tíma gert nákvæmlega í samræmi við heimildir Alþingis eins og þær lágu alltaf fyrir (Samgrh.: ... ekki nægar lánsheimildir.) Nákvæmlega ... (Samgrh.: Þetta er ósatt. Þetta er ósatt)

(Forseti (GÁS): Ekki samtöl ...)

Um árabil var búið að samþykkja á Alþingi heimildir til handa samgrh., bæði forverum mínum og mér, að endurnýja þessa ferju (Gripið fram í.) og málið var borið undir þingið á hverju stigi eins og venjulegt er. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁS): Ekki samtöl í þingsal.)

Þarna heyrir hæstv. forseti hvernig hæstv. samgrh. lætur í þessum málum, umsvifalaust kominn upp með dylgjur og rógburð um menn, umsvifalaust. Afflytur málin til þess að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, getur aldrei farið rétt með staðreyndir stundinni lengur, ef hann þá kann þær, þannig að maður veit yfirleitt ekki hvort það er af vankunnáttu eða öðrum hvötum sem málflutningur hæstv. ráðherra er með þessum hætti.

Já, herra forseti. Það er vont að mönnum sé stillt upp við vegg með þessum hætti. Ég skil vel að margir eigi bágt sem eru ekki sáttir við það í hvaða búningi málið er en er samt annt um þetta verk og vilja ógjarnan verða til þess að leggja stein í götu þess. Þess vegna hefði það verið mín ósk og beiðni númer eitt að menn reyndu til þrautar að fara yfir málið og átta sig á því hvort ekki væri hægt að ná einhverju betra samkomulagi um meðferð þess en nú liggur fyrir. Ég væri ákaflega mikill áhugamaður um það og skal ekki verða verri liðsmaður en hver annar í því að reyna að fara yfir það. Getum við á næstu klukkutímum, samhliða öðrum störfum í þinginu, fundið okkur lendingu og samkomulag um málsmeðferðina a.m.k., sem gerir málið betur bært til þess að um það sé tekin ákvörðun. Ég hef sjálfur lagt til alveg mögulegar og skynsamlegar forsendur í þeim efnum um að þessari stóru tölu verði deilt upp, menn líti á hvern þátt fyrir sig og spyrji sig að því hvort hann sé nauðsynlegur. Það er ekki alltaf vitlaust að segja í fyrsta lagi, í öðru lagi og í þriðja lagi. Stundum er það kannski þannig að efni máls er þríeitt eða þar um bil. Þá er ekkert vitlaust að skýra málin aðeins með slíkum aðferðum. Ég veit að vísu að hæstv. samgrh. er ekki mikið fyrir það, eins og fréttamenn þekkja vel. Þess vegna vil ég að lokum, herra forseti, taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að kostur gefist til þess.

Að allra síðustu er það þetta. Nú er það svo að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra fer með framkvæmdarvaldið í landinu. Það er þeirra hlutverk að sjá um mál af þessu tagi og einnig að bera þau fram fyrir þingið, þegar svo ber undir. Ef ákveðinn vilji þeirra er að að afgreiða hluti hér í krafti síns meiri hluta þá að sjálfsögðu gera þeir það og bera líka pólitíska ábyrgð á því. Þá verður það að hafa sinn gang. Ég mun ekki leggja stein í götu þess, með ræðuhöldum eða öðrum slíkum hætti, að ákvörðun verði tekin um þetta mál. Hvort ég verð neyddur til að hverfa frá stuðningi við málið, í þeim skilningi að ég geti ekki í fyrsta skipti greitt atkvæði með þingmáli sem er ætlað til að liðka fyrir framgangi þess, verður að ráðast af því hver verður endanlegur búningur málsins. Ég efast um að ég gæti samvisku minnar vegna gert það, greitt atkvæði ríkisábyrgð í einni tölu af þessu tagi. Ég er bara ekki það kjarkmikill, eins og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa þó lýst yfir að þeir séu, að ég telji mig geta tekið ábyrgð á svo víðtækri ráðstöfun almannafjár, án þess að hafa betri forsendur til þess. En ég mundi gera það mjög nauðugur að styðja ekki meðferð mála á þingi, sem væri að mati manna til þess að reyna að greiða fyrir framgangi málsins. Ég held að ég mundi ekki greiða atkvæði gegn því, ekki leggja stein í götu þess, að ríkisstjórnin færi þá fram með málið eins og hún hefur stofnað til þess, þó að það sé ógæfulegt. Í því felst að sjálfsögðu lýðræðið, að meiri hlutinn geti ráðið slíku, og við þingmenn stjórnarandstöðunnar getum því miður ekki betrumbætt vinnubrögð ríkisstjórnar sem við eigum ekki aðild að, og verðum auðvitað að búa við það og sæta því.

Herra forseti. Það er dapurlegt, að sjá hvernig hlutirnir eru í pottinn búnir. Ég hefði sannarlega viljað að hægt væri að ræða um væntanlegt upphaf þessara framkvæmda undir öðrum og skemmtilegri kringumstæðum á þingi rétt fyrir jólin heldur en raun ber vitni.