Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 18:29:03 (2402)

1995-12-21 18:29:03# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[18:29]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hvalfjarðargöngin eru merk og þörf samgöngubót sem ég er hlynntur. Okkur hefur frá upphafi verið tjáð að þau yrðu lögð án tilstilli ríkisvaldsins. Nú er sá draumur allur.

Það er gagnrýni vert að þessi beiðni kemur fram svo seint að ekki hefur unnist tími til að kanna allar hliðar þessa flókna máls svo vel sem skyldi. En mér finnst að við eigum að horfa á stöðuna eins og hún er núna. Hver er staðan nú? Hún er sú að búið er að gera samning við Spöl hf. um framkvæmd þessa verks og ríkið á að taka að sér að leggja veg að göngunum báðum megin frá. Sá vegur mun kosta 800 millj. kr. Það er í raun nú þegar ríkisábyrgð á verkinu. Ég fer í það á eftir hvað ríkisábyrgð þýðir.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust hv. efh.- og viðskn. má skipta þessari ábyrgð í þrennt. Það kemur reyndar fram á þskj. 458, frhnál. Það eru í fyrsta lagi 300 millj. kr. vegna kostnaðar og áhættu af þegar gerðum samningum, þ.e. ef eitthvað bregst, dráttur verður á framkvæmdum sem er mjög líklegt o.s.frv., þá eigi ríkið að ábyrgjast þær 300 millj. en væntanlega gegn því að Spölur hf. endurgreiði það ef það félag getur það. Þetta er sú áhætta sem ég tel vera nauðsynlega til þess að koma þessu verki í framkvæmd.

[18:30]

Í öðru lagi eru 300 millj. til þess að ríkistryggja skuldabréf vegna hugsanlegrar áhættu við styrkingu ganganna. Rökin fyrir þessari ábyrgð eru þau að hún muni lækka vexti á þeim skuldabréfum sem Þróunarfélagið ætlar að kaupa af Speli og muni stytta þann tíma sem vegfarendur þurfa að borga toll til að fá að fara um göngin, þ.e. að það mundi stytta þann tíma sem borgarar landsins þurfa að borga, ef ríkið veitti ábyrgð á þetta lán, í tvö eða þrjú ár, hef ég heyrt. Þetta er ekki endilega nauðsynlegt en kann að vera skynsamlegt og á þetta reynir ekki fyrr en heilu ári eftir að fyrsti bíllinn keyrir í gegnum göngin. Þá þurfa menn að taka ákvörðun um þessa ábyrgð, hvort menn vilja stytta tímann sem vegfarendur borga tollinn í tvö til þrjú ár gegn ríkisábyrgð.

Að síðustu er 400 millj. ábyrgð ætluð til þess að flytja jafnstóran hluta, þ.e. 400 millj., helminginn af þessum 800 millj. sem ríkið átti að byggja hvort sem er, frá ríkissjóði inn í verkefnið þannig að það verði greitt með veggjöldum þeirra sem fara um göngin í framtíðinni. Þetta er að mínu mati ekki bráðnauðsynlegt. Það kann að vera skynsamlegt að flytja verkefni frá ríki til einhvers aðila sem borgar það eins og þarna veggjöldin en það er í sjálfu sér ekki þörf á þessu og þetta breytir engu um ábyrgð ríkissjóðs. Þessi um 400 millj. ábyrgð ríkissjóðs breytir akkúrat engu. Ef eitthvað kemur upp á er ríkissjóður hvort sem er búinn að tapa því í þessum 800 millj. Þessi ábyrgð sem ég get um kemur til viðbótar 50 millj. vegna rannsókna og 70 millj. sem ríkissjóður hefur lagt fram að undanförnu vegna þess að Spölur hefur ekki verið megnugur að standa í samningaviðræðum, samningagerð og slíku. Þetta hefði að sjálfsögðu mátt gera með því að auka hlutaféð þar sem ríkissjóður kæmi inn sem hluthafi en Spölur er eins og hér hefur komið fram einkafyrirtæki, næstum alfarið í eigu opinberra aðila.

Á þskj. 456 kemur fram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Heimildin er veitt með því skilyrði að ríkissjóði standi til boða að kaupa hlutabréf Spalar hf. eigi síðar en árið 2018 og að staðfest kostnaðar- og tekjuáætlun sé við það miðuð að öllum greiðslum af lánum og innheimtu veggjalds verði lokið innan 30 ára eftir að veggöngin verða tekin í notkun.``

Þetta er tvennt. Í fyrsta lagi er þessi ábyrgð, þessar 1.000 millj. veittar gegn því að ríkissjóður megi kaupa hlutabréfin til baka og í öðru lagi þurfa veggjöldin að standa undir framkvæmdinni á ekki lengri tíma en 30 árum. Þetta eru tvö skilyrði sem þarf að uppfylla en ekki annaðhvort.

Ég vildi gjarnan koma inn í þessu sambandi í fyrsta lagi: Hvað er ríkissjóðshalli? T.d. þegar Verslunarskólinn byggir viðbyggingu, leikfimishús, þá er það ekki ríkissjóðshalli. En ef Menntaskólinn í Reykjavík byggir leikfimishús, þá er það ríkissjóðshalli vegna þess að annað fyrirtækið er einkafyrirtæki sem er greitt með gjöldum frá ríkissjóði en hitt er hreint ríkisfyrirtæki. Þetta sýnir okkur í raun hvað halli ríkissjóðs er hæpinn eins og hann er reiknaður nú og leiðir okkur í þann sannleik að við verðum að finna betri mælikvarða á halla ríkissjóðs. Ég tel að halli ríkissjóðs sem fer í framkvæmd sem stendur undir sér sjálf, t.d. með veggjöldum sé ekki í rauninni halli því að ríkissjóður kemur ekki til með að borga.

Hver er áhættan í þessu dæmi? Þetta er tvenns konar áhætta. Það er áhætta af byggingartíma og það er áhætta af rekstri. Áhættan af byggingartíma er tvenns konar: Það er í fyrsta lagi ,,tótaláhætta``. Það geta opnast þarna einhver göng, þar sem vatnið fossar niður og göngin verða aldrei tekin í notkun. Þetta á við um allar framkvæmdir. Þetta hefði getað gerst inni á Sigöldu, þetta hefði getað gerst við Blöndu. Það hefur gerst úti í heimi að menn hafa verið að byggja heilu stíflugarðana og svo fossar bara allt vatnið í burt. Þetta hefur komið fyrir og þetta gerðist við Kröflu. Það var ekki búið að framkvæma. Við náðum ekki nema helmingnum af þeirri orku sem átti að koma þar fram þannig að þetta getur gerst. Þetta er sú áhætta sem ríkissjóður tekur með þessum 800 millj., með veginum að göngunum. Ef þetta kæmi upp mundi ríkissjóður tapa í fyrsta lagi 50 millj. í rannsóknir, síðan 70 millj. sem hafa farið í samningagerð og svo hluta af þessum 800 millj. sem eru vegurinn að göngunum. Á þessu eru að mínu mati ekki voðamiklar líkur.

Ef við lesum hvernig þessar tvær ábyrgðir koma til, fyrstu 300 millj. kr. ábyrgðirnar, þá er önnur ekki greidd fyrr en ljóst er að við samningana verður staðið og það mundi ekki gerast ef það yrði altjón og önnur verður ekki greidd fyrr en ári eftir að fyrsti bíllinn keyrir í gegn og það kæmi heldur ekki til við altjón.

Svo getur komið önnur áhætta sem felst í því að það þarf að styrkja göngin sérstaklega. Þá kemur til 300 millj. kr. seinni liðurinn sem talinn er upp á þskj. 458. Ef þarf að styrkja göngin getur ríkissjóður ábyrgst þetta skuldabréf fyrir því. Það getur gerst að það þurfi ekkert að styrkja göngin. Þá kemur 2. liður ekki til. Þá getur Þróunarfélagið alls ekki lánað neitt eða keypt neitt skuldabréf. En ef það skyldi koma til, þá getur Þróunarfélagið keypt skuldabréfið með 9,2% vöxtum. Það sem verið er að fara fram á hérna er það að ríkissjóður hafi heimild til að kaupa þetta skuldabréf og þar sem ríkissjóður borgar miklu lægri vexti er hægt að stytta tímann sem veggjald er nauðsynlegt. Allt er þetta háð því að ríkissjóður geti keypt göngin eftir 2018 eða Spöl.

Áhættan er sem sagt þessi og hún verður aldrei meiri en 300 millj. sem er bráðnauðsynlegt eins og ég taldi upp og 120 millj. sem þegar er búið að leggja upp í. Það er öll áhættan sem í reynd er í þessum samningi eins og ég er þegar búinn að fara í gegnum, umfram það sem er nú þegar komið.

Nú stöndum við frammi fyrir því að fara út í viðbótar 300 millj. kr. ábyrgð sem er í reynd sú ábyrgð sem fellur á ríkissjóð og þess að þurfa að laga veginn inn Hvalfjörðinn, endurbyggja hann allan og reisa brýr og það sem ekki hefur komið fram, kaupa Akraborg því að ríkissjóður þarf líka að borga stofnkostnaðinn af Akraborginni. Sá kostnaður fellur núna að sjálfsögðu niður. Sá kostur sem við stöndum frammi fyrir frá sjónarhorni ríkissjóðs er annars vegar að taka á okkur 300 millj. kr. ábyrgð til viðbótar við það sem er í dag eða að byggja veginn inn Hvalfjörðinn með brúm og öllu slíku. Þetta er valkosturinn sem við stöndum frammi fyrir.

Það sem gerist við það að þessi göng eru grafin svo að maður tali um kostina er það að tíma- og bifreiðasparnaður borgaranna verður umtalsverður. Borgararnir spara mikinn tíma. Það tekur tíma að keyra 45 km. Menn spara bensínkostnað og slit á bílum og það er umtalsvert.

Svo er annað sem ekki hefur heldur verið minnst á. Þessi göng gera það að verkum að Akranes og jafnvel Borgarnes og Reykjavíkursvæðið allt saman verður eitt atvinnusvæði. Menn geta unnið uppi á Grundartanga og búið í Reykjavík. Menn geta unnið í Reykjavík og búið uppi á Akranesi. Þessu má ekki gleyma heldur þannig að þetta dæmi allt saman er að mínu mati mjög arðbært nema til komi einhver ,,katastrófa``, að göngin verði ónýt en þá áhættu tökum við alltaf þegar við förum út í framkvæmdir hvort sem það eru virkjunarframkvæmdir eða annað. Vegna þess arna alls og að við erum ekki að tala um raunverulega aukningu á ábyrgð ríkissjóðs nema um 300 millj. með þessari tillögu, þá er ég hlynntur henni og gerðist meðflm. hennar.