Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 20:35:06 (2407)

1995-12-21 20:35:06# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[20:35]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995. Við 2. umr. um frv. gerði nefndin og meiri hluti hennar 11 breytingartillögur við frv. sem voru samþykktar við þá umræðu. Í ræðu formanns kom þá fram að fjallað hefði verið um nokkur mál til viðbótar í nefndinni en ákvörðun um þau hefði verið frestað til 3. umr. Að auki hafa komið fram nokkur ný útgjaldatilefni síðar. Umfjöllun um þau mál er nú lokið í nefndinni og leggur meiri hluti hennar til að frv. verði samþykkt með þeim 20 breytingum sem gerðar eru tillögur um á þskj. 451, en útgjaldaauki þeirra vegna nemur alls 522,9 millj. kr. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu auk þess sem fjallað verður um þær í framsögu. Nefndarálitinu fylgja yfirlit yfir fjárheimildir ráðuneyta árið 1995 og þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar hefur gert tillögur um við 2. og 3. umr. frumvarpsins.

Ég sný mér að skýringum við einstakar brtt. og þær skýringar hefjast á málaflokkum menntmrn.

Verkfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar er leitað eftir heimild fyrir 7 millj. kr. viðbótarframlagi. Undanfarin ár hefur myndast halli á rekstri stofnunarinnar sem að stærstum hluta stafar af því að nokkur tími líður frá því að verkefni eru framkvæmd og þar til greitt er fyrir þau. Framlaginu er hins vegar ætlað að mæta þeim hluta hallans sem á rætur að rekja til þess að fjáröflun eins verkefnis brást óvænt og til þess að greiða kostnað við mál sem leggja þurfti í og tengjast verndun einkaleyfisréttar.

Ýmis fræðistörf. Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var ákveðið að ráðast í útgáfu á Sögu Íslands og annaðist Hið íslenska bókmenntafélag ritstjórn og útgáfu verksins. Gert var samkomulag um að umsjónarkostnaðurinn yrði greiddur úr ríkissjóði en að hann yrði síðan endurgreiddur með hlutdeild í söluandvirði útgefinna rita. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. aukafjárveitingu þar sem tekjur af sölu ritanna hafa ekki orðið þær sem vænst var.

Ýmis íþróttamál. Farið er fram á 5 millj. kr. viðbótarheimild vegna fjárhagserfiðleika Handknattleikssambands Íslands í kjölfar heimsmeistaramótsins í handknattleik sem haldið var hér á landi sl. sumar.

Þá er komið að landbrn. Í fyrsta lagi ætti að breyta fyrirsögninni Búnaðarfélag Íslands í Bændasamtök Íslands. Á árinu 1992 var lögum breytt á þann veg að greiðsluskylda framlaga samkvæmt jarðræktarlögum myndast ekki lengur sjálfkrafa heldur er hún háð fjárveitingu Alþingis. Í fjáraukalögum ársins 1994 var þó veitt sérstakt framlag til bygginga áburðarhúsa og vatnsveitna á árunum 1992 og 1993 þar sem þær jarðabætur voru að stórum hluta tilkomnar vegna stjórnvaldsákvæða um hreinlæti við mjólkurframleiðslu. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. viðbótarheimild til að ganga frá eftirhreytum þessara uppgjöra.

Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa. Í frv. til fjáraukalaga árið 1995 er gerð tillaga um 4,7 millj. kr. viðbótarframlag til ráðuneytisins, einkum vegna ófyrirséðra útgjalda sem hlutust af samningaviðræðum um fiskveiðar við önnur ríki. Í kjölfar endurmats á þeim kostnaði er leitað eftir viðbótarheimild að fjárhæð 2,5 millj. kr.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Undir liðnum Dómsmál, ýmis kostnaður, er gerð tillaga um 1,7 millj. kr. heimild til að kosta lögfræðiþjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana.

Félmrn. Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Í byrjun þessa árs gekk óveður yfir Vestfirði sem olli verulegri röskun á starfsemi vistheimilisins Bræðratungu vegna snjóflóðahættu á Ísafirði. Farið er fram á 0,6 millj. kr. viðbótarframlag til að mæta þessum ófyrirséðu útgjöldum.

Styrktarfélag vangefinna. Leitað er eftir 9,5 millj. kr. viðbótarheimild til að jafna uppsafnaðan rekstrarhalla félagsins frá síðustu árum þar sem verkefni félagsins hafa verið umfangsmeiri en gert hefur ráð fyrir í fjárveitingum. Tillagan miðast við að gerður verði samningur við kaup ríkisins á þjónustu frá félaginu til að tryggja að starfsemin rúmist framvegis innan ramma fjárlaganna.

Sólheimar í Grímsnesi. Félmrn. hefur látið gera mat á þjónustuþörf fatlaðra á Sólheimum og í framhaldi af því hefur verið unnið að gerð þjónustusamnings um starfsemina. Fjárþörf vistheimilisins hefur verið endurmetin á þeim grundvelli. Afla þarf aukinnar fjárheimildar sem nemur 18,7 millj. kr. til að mæta hækkun rekstrargrunns og til að bæta áhrif kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu 1995. Tillagan miðast við að viðbótarframlagið verði greitt þegar félmrn. og stjórn Sólheima hafa komist að samkomulagi um þjónustusamning um starfsemina.

Heilbr.- og trmrn. Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Leitað er eftir 75 millj. kr. viðbótarframlagi til að mæta rekstrarvanda nokkurra sjúkrahúsa utan Reykjavíkur. Þar er einkum um að ræða Sjúkrahús Suðurnesja, St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, Sjúkrahús Akraness og Sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Framlagið miðast við tillögur heilbrrn. sem vinnur að lausn á fjárhagsstöðu sjúkrahúsanna en þeirri skoðun er ekki lokið. Gert er ráð fyrir að fjárveitingunni verði skipt þegar gengið hefur verið frá samkomulagi við stjórnir sjúkrahúsanna um fjárframlög og starfsumfang og verði henni úthlutað eftir því sem aðhaldsaðgerðir koma til framkvæmda.

Ríkisspítalar. Forsvarsmenn Ríkisspítala gerðu samning við heilbrrh. og fjmrh. um lausn á fjárhagsvanda spítalanna í desember á síðasta ári. Í framhaldi var því var veitt 296 millj. kr. framlag til spítalanna í fjáraukalögum ársins 1994 auk 84 millj. kr. vegna kjarasamninga heilbrigðisstétta. Einnig var fjárlagagrunnur ársins 1995 hækkaður um 195 millj. kr. Samkvæmt samkomulaginu var Ríkisspítölum ætlað að ná jafnvægi í rekstrinum með því að spara á móti hallanum sem þá stóð eftir frá árinu 1994, en hann var metinn á 70 millj. kr., og síðan 160 millj. kr., til viðbótar á árinu 1995. Í þessu frv. er 90 millj. kr. viðbótarheimild til þess að unnt verði að draga úr lokun deilda vegna sparnaðaraðgerða. Þessar áætlanir hafa ekki gengið eftir en rekstrarhallinn árið 1994 var um 130 millj. kr. og stefnir í að uppsafnaður halli spítalanna verði um 400 millj. kr. í árslok 1995. Í samræmi við nýtt samkomulag milli heilbrrh. og fjmrh. varðandi fjárhagsstöðu spítalanna er gerð tillaga um að hækka viðbótarframlag ársins 1995 í 242 millj. kr. eða um 150 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir þegar frv. var lagt fram.

Sjúkrahús Reykjavíkur. Í samningi um sameiningu Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti, var kveðið á um að gert yrði samkomulag um framlag til sjúkrahússins vegna uppbótargreiðslna á lífeyri starfsmanna þar sem ekki hafði verið tekið tillit til þeirra í framlögum samkvæmt fjárlögum. Fjmrn. og Reykjavíkurborg hafa nú komist að samkomulagi um málið miðað við uppgjör á uppsöfnuðum greiðslum fyrri ára. Í framhaldi af því er gerð tillaga um að fjárheimild sjúkrahússins verði aukin um 83 millj. kr.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. Fyrirhugað er að hækka framlag liðarins um 49 millj. kr. í fjárlögum ársins 1996 til þess að unnt verði að standa við þá verksamninga sem eru í gildi og ganga frá skuldum vegna verka sem er lokið. Engin ný verkefni koma til framkvæmda. Gert er ráð fyrir að þar af verði 30 millj. kr. fjármagnaðar með lækkun fjárveitingar í ár sem síðan verði endurráðstafað á næsta ári. Miðað er við að 10 millj. kr. verði teknar af fjárframlögum ársins 1995 til hverrar eftirtalinna framkvæmda: Heilsugæslustöðva í Reykjavík, Sjúkrahúss Suðurnesja og Hjúkrunarheimilis Fáskrúðsfirði. Á móti kemur 1,5 millj. kr. viðbótarheimild til Sjúkrahúss Austur-Húnvetninga, Blönduósi, en síðan verði gerð breyting á verksamningi til að tryggja fjármögnunina þar á næsta ári.

[20:45]

Heilsugæslustöðin Akranesi. Settur hefur verið tilsjónarmaður til að vinna að úrlausn á uppsöfnuðum rekstrarhalla stöðvarinnar. Í framhaldi af því er gerð tillaga um 8 millj. kr. viðbótarframlag til stöðvarinnar. Tillagan miðast við að gengið verði frá samkomulagi við stjórn heilsugæslustöðvarinnar um aðgerðir til þess að koma á jafnvægi í rekstrinum til frambúðar.

Heilsugæslustöðin Akureyri. Farið er fram á 4,4 millj. kr. aukafjárveitingu til stöðvarinnar. Í sértekjuáætlun stöðvarinnar í fjárlögum er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins endurgreiði henni kostnað við slysastofugjöld fyrir verk sem unnin eru á aðgerða- og skiptistofu. Það fyrirkomulag hefur nú verið aflagt. Framlagið er ætlað til að mæta tekjutapinu.

Heilsugæslustöð Suðurnesja. Verulegur halli hefur myndast á rekstri stöðvarinnar undanfarin ár. Settur hefur verið tilsjónarmaður til að vinna að lausn á fjárhagsvandanum og í framhaldi af því er gerð tillaga um 35 millj. kr. viðbótarframlag til stöðvarinnar. Tillagan miðast við að gengið verði frá samkomulagi við stjórn heilsugæslustöðvarinnar um aðgerðir til þess að tryggja að starfsumfangið verði framvegis í samræmi við heimildir fjárlaga.

Fjármálaráðuneyti. Ríkisábyrgðir og tjónabætur. Í óveðrinu sem gekk yfir landið undir lok október sl. varð mikið tjón á staurum fyrir rafmagnslínur hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða, auk þess sem fyrirtækin þurftu að keyra dísilstöðvar með talsverðum tilkostnaði til þess að tryggja orkuflutning um Vestfirði. Lagt er til að veitt verði 80 millj. kr. viðbótarframlag til greiðslu tjónabóta til fyrirtækjanna sem skiptist þannig að 50 millj. kr. renni til Rafmagnsveitna ríkisins og 30 millj. kr. til Orkubús Vestfjarða. Fyrirtækin mæti tjóninu að öðru leyti með lántökum eða af rekstrarfé. Tillagan er gerð í ljósi samkomulags milli fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra um að ekki muni koma til slíkrar fyrirgreiðslu framvegis. Gert er ráð fyrir að orkudreifingarfyrirtækin geri sjálf fjárhagsráðstafanir til þess að mæta slíkum áföllum með því að leggja fé til hliðar í tryggingasjóði.

Ýmislegt. Lagt er til að liðurinn hækki alls um 50 millj. kr. af tveimur tilefnum. Í frumvarpinu er gerð tillaga um 25 millj. kr. framlag til björgunaraðgerða og annarrar aðstoðar við íbúa Flateyrar í kjölfar snjóflóðsins sem féll þar í októberlok. Leitað er eftir 10 millj. kr. viðbótarheimild, m.a. til kaupa á bráðabirgðahúsnæði fyrir íbúa sem misstu hús sín í snjóflóðinu. Í öðru lagi hefur gerðardómur nú verið kveðinn upp í máli jarðeigenda í Einarsnesi í Mýrasýslu gegn landbúnaðarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins út af netalögnum við ósa Hvítár í Borgarfirði. Niðurstaða málsins er að ríkissjóði ber að greiða um 40 millj. kr. í bætur sem reiknaðar skulu með sömu forsendum og aðferðum og gilda fyrir aðrar jarðir við ósa Hvítár. Gerðarsamningurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjárveitingu til að greiða bæturnar sem gerðardómurinn kann að úrskurða. Gerð er tillaga um viðbótarframlag til þess að ganga frá uppgjörinu.

Samgönguráðuneyti. Vita- og hafnamálastofnun. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. viðbótarheimild sem renni til endurbóta við Seyðisfjarðarhöfn fyrir móttöku ferðamanna með ferjunni Norrænu.

Iðnaðarráðuneyti. Ýmis orkumál. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. viðbótarframlag sem renni til að aðstoða litlar hitaveitur sem átt hafa í rekstrarerfiðleikum, einkum til greiðslu afborgana af lánum. Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra undirbúi samninga við viðkomandi hitaveitur með hliðsjón af skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu þeirra og að fjárlaganefnd taki málið síðan til umfjöllunar þegar þeir samningar liggja fyrir.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim tillögum sem meiri hluti fjárln. leggur fram við 3. umr. fjáraukalaga. Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hjálmar Jónsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.