Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 20:50:42 (2408)

1995-12-21 20:50:42# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[20:50]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt þeirra mála sem einkennt hafa meðferð heilbrigðismála á þessu þingi eru deilur sem staðið hafa um fjármál heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss á Suðurnesjum. Því hefur verið lýst yfir af hálfu fulltrúa sveitarfélaga á fundi með þingmönnum Reykn. að liður í því samkomulagi sem gert var og formaður og varaformaður fjárln. settu stafina sína undir --- og er það nú satt að segja nokkuð nýr siður í þinginu að formaður og varaformaður fjárln. undirriti samningsígildi í formi minnisblaða. Ég ætlaði ekki að ræða það í andsvörum en ýmislegt má segja um þann sið. Mig langar að biðja formann fjárln. að útskýra við þessa umræðu, vegna þess að ein upphæðin í fjáraukalagafrv. snertir uppgjör á skuldum Sjúkrahúss Suðurnesja, hvernig heildarlausnin á fjárhagsvanda Sjúkrahúss Suðurnesja lítur út þegar tekið er tillit til upphæðarinnar sem er að finna í þessu frv. og í öðru lagi þeirra upphæðar sem verður að finna í fjárlagafrv. þegar það kemur til afgreiðslu. Við séum ekki að ræða þetta í brotum undir ýmsum liðum heldur fáum heildaryfirlit yfir uppgjörið á skuldastöðunni og síðan fjárframlög til rekstrar Sjúkrahúss Suðurnesja á næsta ári. Mér þætti vænt um að fjárlaganefndarmaðurinn Árni Mathiesen, sem líka skrifar undir nál., mundi einnig útskýra það eða staðfesta skilning formanns fjárln. í þessari umræðu svo að við sjáum strax í upphafi áður en við förum lengra hvernig dæmið lítur út.