Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:04:08 (2413)

1995-12-21 21:04:08# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:04]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þessa umræðu líða svo að nota ekki tækifærið til að gera nokkrar athugasemdir vegna ummæla sem komið hafa fram er varða árið 1995. Mér finnst rétt að það komist a.m.k. inn í þingtíðindi þótt ekki séu líkur á að margir hlusti á umræður svona síðla kvölds.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði um vanda Sjúkrahúss Suðurnesja. Ég vil láta þess getið að ég hef hér í höndum nýútkomið blað framsóknarmanna í Vesturlandskjördæmi þar sem hæstv. heilbrrh. gefur að nokkru leyti svör við því sem hv. þm. spurði um. Sjúkrahúsið á Suðurnesjum er eitt af þremur sjúkrahúsum sem sérstakur tilsjónarmaður var settur með. Þau voru eins og kunnugt er sjúkrahúsin á Akranesi, í Hafnarfirði og í Keflavík. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði hvers mætti vænta í sambandi við Sjúkrahús Suðurnesja.

Í þessu blaði er viðtal við hæstv. heilbrrh. þar sem margt athyglisvert kemur fram en þar segir hæstv. heilbrrh. ýmislegt sem full ástæða er til að vekja athygli á. Um þetta mál sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vék að spyr blaðamaðurinn hæstv. heilbrrh. sisvona, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þú lentir í hörðum slag vegna tilnefningar tilsjónarmanna með sjúkrahúsum, þar á meðal í þínum eigin heimabæ. Var þörf á þessu?`` Hæstv. heilbrrh. svarar orðrétt, með leyfi forseta: ,,Hörðum slag, segir þú. Hann er nú ekki harður hér á Akranesi enda er skynsamt fólk hérna.`` Með öðrum orðum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, það er ekki eins skynsamt fólkið á Suðurnesjum svo ekki sé minnst á Hafnfirðingana. Þetta er þá væntanlega skýringin á því af hverju einskis sérstaks er að vænta fyrir það fólk. Það er ekki eins skynsamt eins og Skagamenn. Þetta er a.m.k. það sem hæstv. heilbrrh. lætur eftir sér hafa um þessi mál.

Annars staðar í sama blaði lætur hæstv. heilbrrh. hafa það eftir sér að þegar hún hafi tekið við völdum í heilbrrn. hafi verið þar ófrágenginn skuldahali upp á 1 milljarð kr. Þetta er sennilega í fjórða sinn sem hæstv. heilbrrh. lætur hafa það eftir sér. Ég vildi því nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þeim upplýsingum sem m.a. er að hafa í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995 og í þeim tillögum sem koma um viðbætur frá hæstv. fjárln. sem hv. formaður fjárln. gaf upplýsingar um hér áðan. Í frv. er sótt um aukafjárgreiðsluheimildir til stofnana ríkisins á vegum hinna einstöku ráðuneyta fyrir árið 1995 og þar kemur glögglega fram hvaða viðbótarheimildum er verið að sækjast eftir og af hvaða ástæðum sóst er eftir þeim.

Af hálfu fjmrn. er beðið um aukningu á fjárgreiðsluheimildum heilbr.- og trmrn. samtals um röska 2,3 milljarða kr. í frv. Ég vildi gjarnan eyða örlitlum tíma, virðulegi forseti, til að setja fram skýringar fjmrn. og heilbrrn. á tilorðningu þessa erindis.

Þar segir í fyrsta lagi um lífeyristryggingarnar, sem er hluti af þessum 2,3 milljörðum kr., að farið sé fram á að fjárveiting liðarins verði hækkuð um 1.330 millj. kr. sem er sundurliðað þannig að annars vegar er um að ræða 630 millj. vegna kostnaðarauka í eingreiðslum lífeyrisþega vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að þær skyldu greiddar í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Þetta var ákvörðun sem ríkisstjórnin tók á grundvelli laga um almannatryggingar sem nú á að afnema.

Í annan stað hækka bæturnar samkvæmt gildandi lögum miðað við almennar launabreytingar á vinnumarkaði um 700 millj. kr. Þannig að þarna var annars vegar um bein lagafyrirmæli að ræða og hins vegar ákvörðun ríkisstjórnar um að hækka bætur til samræmis við það sem gerst hafði í kjarasamningum. Ekki er hægt að segja að þetta hafi verið vanstjórn heilbrrh. sem var að hverfa úr ráðuneytinu þá um vorið. Þannig skýrast allar umframfjárveitingar vegna lífeyristrygginga á árinu 1995.

Í öðru lagi er upplýst að farið er fram á að framlag vegna sjúkratrygginga verði aukið um 550 millj. Þar eru gefnar tvær meginskýringar: Í fyrsta lagi töpuðust 100 millj. kr. sem áætlaðar voru vegna sparnaðar í sérfræðilækningum vegna áhrifa þess að tilvísanakerfið var ekki upptekið. Hver ber ábyrgð á því? Er það sá sem hér stendur sem tók þá ákvörðun? Nei, virðulegi forseti. Það er núv. heilbrrh. sem tók þá ákvörðun að tilvísanakerfi skyldi ekki ganga í gildi. Þess vegna vantaði 100 millj. kr. Það er beðið um að hv. Alþingi sjái til að greiða þær.

Í þriðja lagi náðist ekki fram áform um 100 millj. kr. lækkun vegna þess að áformum um lyfjalög sem ég lagði fram á þessu þingi var frestað. Og ég spyr: Hver gekk harðast fram í því? Var það sá sem hér stendur? Nei, virðulegi forseti. Það var sá sem þarna átti að sitja í stóli heilbrrh. en ekki verður það skrifað á reikning okkar alþýðuflokksmanna.

Þá er vikið að nokkrum minni atriðum svo sem héraðslækni í Reykjavík og héraðslækni á Norðurl. e. Í tillögum mínum og ríkisstjórnarinnar fyrir fjárlög ársins 1995 var gert ráð fyrir að bæði þessi embætti yrðu lögð niður og spöruðust þar nokkrir fjármunir. Alþingi féllst hins vegar ekki á þetta og hafnaði þessum tillögum. Það er ábyrgð Alþingis en ekki ríkisstjórnar.

Þá er rætt um Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum. Þar er farið fram á tæplega 40 millj. kr. hækkun fjárheimildar --- vegna hvers? Vegna dóms Hæstaréttar. Vegna þess að Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð að ríkissjóður skyldi bæta Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum þessa fjárhæð vegna bakvaktagreiðslu til starfsmanna sjúkrahússins. Var það sök fráfarandi ríkisstjórnar eða heilbrrh. að Hæstiréttur kvað upp þennan dóm?

Þá er rætt um Ríkisspítala. Þar er lagt til að fjárheimild verði aukin um alls 92 millj. af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég hafði með samþykki ríkisstjórnarinnar gert sérstakt samkomulag við stjórnarnefnd spítalanna í mars um 50 millj. kr. viðbótarfjárhæð. Í öðru lagi hafði núv. heilbrrh. gert samkomulag við þennan sama spítala með samþykki ríkisstjórnarinnar um 35 millj. til að unnt yrði að fjölga hjartaaðgerðum og loks ákvað ríkisstjórnin að leita eftir heimild fyrir 7 millj. kr. aukaframlagi til að koma á fót miðstöð fyrir áfallahjálp hjá Ríkisspítölunum. Allt ákvarðanir ríkisstjórna sem teknar höfðu verið að tillögum ráðherra, bæði þess ráðherra sem hér stendur og sat þá í ráðuneytinu og núv. ráðherra. Ber að skrifa þetta á kostnað óstjórnar Alþfl. í heilbrigðismálum?

Hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur er tekið fram að þar þurfi ekki viðbótarfjárveitingu nema bara vegna lífeyrisskuldbindinga sjúkrahússins sem samið var um á yfirstandandi ári og Alþingi hefur nýlega afgreitt.

Um Framkvæmdasjóð aldraðra er tekið fram að þar hafi uppgötvast 209 millj. kr. sem ríkissjóður hafði innheimt og átti að skila til Framkvæmdasjóðsins en stóð ekki skil á. Þar með, herra forseti, er upp talið það sem segir í fylgiskjölum með frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995 varðandi útskýringar á því hvers vegna óskað er eftir að fjárheimildir heilbr.- og trmrn. verði auknar um 2,3 milljarða kr. Og ég spyr: Hvar í þessum tölum er sá milljarður sem hæstv. heilbrrh. þráfaldlega er með yfirlýsingar um að sé að kenna óstjórn fyrrv. ráðherra og þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í? Það er ekki að finna hér. Vissulega skal ég fúslega viðurkenna að þarna er um að ræða nokkra fjárvöntun vegna þess að það gekk ekki allt eftir sem vonast var til. En meginhluti þessarar fjárhæðar stafar af ákvörðunum sem teknar voru vegna ákvæða laga um tryggingabætur vegna kjarasamninga og aðgerða sem hæstv. fyrrv. ríkisstjórn stóð að með samþykki bæði forsrh. og fjmrh.

Mér finnst síðan full ástæða til þess, af því að hér hefur í þjóðfélaginu verið allveruleg umræða um málefni Ríkisspítala, að fara nokkrum orðum um stöðu Ríkisspítala á árinu 1995 og eftir það ár. Það kemur fram að í desember á því ári, árinu 1994, voru veittar til Ríkisspítalanna umfram það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir samtals 491 millj. kr. með sérstöku samkomulagi við þáv. stjórnendur Ríkisspítala. Fjárlagafrv. var lagt fram fyrir árið 1995 í byrjun þings eins og vani er og auðvitað voru Ríkisspítalar ekki sáttir við sínar fjárveitingar. Þar var gert ráð fyrir því að hækka í desember fjárframlögin til Ríkisspítala um 296 millj. kr. í fjáraukalögum ársins 1994, auk 84 millj. kr. vegna samnings heilbrigðisstétta. Þar að auki var fjárlagagrunnurinn hækkaður um 195 millj. kr. fyrir árið 1995 þannig að Ríkisspítalarnir fengu í lok ársins 1994 um 500 millj. kr., hvorki meira né minna en um 500 millj. kr. umfram það sem fjárlagafrv., sem lagt var fram í október 1994, gerði ráð fyrir. Þá stóð eftir halli frá árinu 1994 sem metinn var á 70 millj. og síðan var Ríkisspítölum ætlað að ná 160 millj. í sparnað á árinu 1995, þ.e. Ríkisspítalarnir fá næstum því þrefalt meira fé í desember 1994 en þeim er ætlað að spara á næsta ári.

[21:15]

Ekki er nóg með það, herra forseti, heldur var í ársbyrjun 1995 ráðstafað 90 millj. kr. til viðbótar til spítalans, 90 millj. kr. í lok aprílmánaðar þannig að þá erum við komin með ráðstöfun til Ríkisspítalanna umfram fjárlagafrv. það sem lagt var fram í október 1994 hvorki meira né minna en 600 millj. kr. Ekki nóg með það heldur er í þessu fjáraukalagafrv. gert ráð fyrir því að Ríkisspítalarnir fái til viðbótar í fjáraukalögum fyrir þetta ár 90 millj. kr. Þá eru Ríkisspítalarnir búnir að fá samtals tæplega 700 millj. kr. á nokkrum mánuðum umfram það sem gert var ráð fyrir að þeir fengju í fjárlagafrv. ársins 1995. Þá er löngu búið að jafna allan halla ársins 1994 og svo að segja búið að jafna alla þá fjárvöntun sem þeir töldu sig sjálfir þurfa á árinu 1994. Þá standa eftir hjá þessari voldugu stofnun af fjármunum sem þeir hafa ekki fengið samkvæmt eigin áætlun í ársbyrjun 1995 þegar lagðar eru saman fjárþörfin á árinu 1995 og fyrri ára um 60 millj. kr.

Ef menn skoða það sem kemur fram frá fjárln. þá hafa Ríkisspítalarnir á árinu 1995 fengið svo til algerlega jafnaða þá fjárþörf sem þeir töldu sig sjálfir við fjárlagagerðina við lok ársins 1994 þurfa til að geta staðið undir eðlilegum rekstri. Það er búið að láta þá hafa á örfáum mánuðum til viðbótar við upphaflegar tillögur í fjárlagafrv. um 700 millj. kr. Það standa ekki út af nema 40--60 millj. kr. af samanlagðri fjárþörf þeirra eins og þeir mátu hana sjálfir við upphaf fjárlagaársins 1995. Samt sem áður virðist niðurstaðan vera sú að rekstrarhalli á spítalanum í árslok samtals sé uppsafnaður 530 millj. kr. Með öðrum orðum hafa bæst um 500 millj. kr. á árinu við fjárþörf spítlans frá því sem þeir áætluðu hana sjálfir vera við upphaf ársins. Ég bið hv. þm. aðeins að hugleiða hvernig þessi mál standa, hversu mikið viðbótarfjármagn hefur verið veitt í þennan rekstur, hversu litlu munaði að þeirra eigin fjárþörf eins og hún var metin hefði verið að fullu jöfnuð. Ég bið hv. þm. að skoða það í samhengi við það að á sama tíma og gert var samkomulag við Ríkisspítalana í desembermánuði og þeir fengu síðan viðbótarfjárveitingu í mars árið 1995 var sams konar samkomulag gert við Sjúkrahús Reykjavíkur, nákvæmlega sams konar samkomulag sem að mati starfsmanna heilbrrn. og fjmrn. áttu í báðum tilvikum að tryggja eðlilegan og áfallalausan rekstur þessara stofnana allt árið. Þegar upp er staðið er niðurstaðan sú að Sjúkrahús Reykjavíkur þarf ekki viðbótarfjárveitingu. Sjúkrahús Reykjavíkur var rekið á sléttu á árinu 1995 miðað við þá afgreiðslu sem gerð var á vandamálum þess samhliða þeim afgreiðslum sem gerðar voru á vandamálum Landspítalans. Niðurstaðan verður sú að á sama tíma og fjárveitingarnar nægja til reksturs Sjúkrahúss Reykjavíkur skilar Landspítalinn 530 millj. kr. halla.

Herra forseti. Þetta er til umhugsunar. Það er líka til umhugsunar að stjórnendur Ríkisspítala skuli ekki hafa nýtt með sama hætti eins og stjórnendur Sjúkrahúss Reykjavíkur möguleika sem lög og reglugerðir ráðuneytisins gefa til þess að auka tekjur sínar en þetta er vissulega til umhugsunar vegna þess að í þessu kemur fram að Ríkisspítalarnir voru ekki sniðgengnir á árinu 1995. Svo miklum viðbótarfjármunum var veitt til þeirra, bæði af fyrrv. ríkisstjórn og einnig fyrir tilstuðlan núv. hæstv. heilbrrh.

Það er eitt atriði, herra forseti, sem ég vildi koma að einnig og spyr í því tilefni hvort hæstv. heilbrrh. sé í húsinu.

(Forseti (RA): Hæstv. heilbrrh. mun vera í húsinu og verða gerðar ráðstafanir til að láta hana vita af óskum hv. þm.)

Þá vildi ég gjarnan, virðulegi forseti, fá að gera hlé á máli mínu því að ég hef erindi upp að bera sem ég tel að hæstv. heilbrrh. verði að vera nærstaddur til að ég geti fengið svör við en það eru nokkrar skýringar á því sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra í umræðum fyrr og skiptir mjög miklu máli um framhaldið og þá ekki síst um þá innheimtu sem nú á sér stað af fólki sem þarf að leita sér lækninga. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að koma.

Það sem mig langar til að spyrjast sérstaklega fyrir um vegna þess að ég átti ekki kost á því að vera viðstaddur þær umræður, ég hef þær eftir annarra sögn og þær eru ekki komnar enn í þingtíðindi og því get ég ekki gengið úr skugga um hvort rétt sé hermt, en mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt eftir henni haft að hún hafi látið þau orð falla á fundi fyrir nokkrum dögum að það orkaði tvímælis að innheimta svokallaðra ferliverka hefði við lög að styðjast. Ferliverk eru verk sem unnin eru án þess að til innlagnar þurfi að koma, þ.e. sjúklingur hefur ferlivist. Þannig skýrist þetta ókunnuglega orð. Þetta eru verk sem eru yfirleitt unnin á læknastofum úti í bæ en einnig er hægt að vinna á spítölum. Ég gaf út á meðan ég sat í heilbrrn. reglugerð um innheimtu ferliverka og eftir henni hefur verið starfað, þó ekki á öllum sjúkrastofnunum. Ríkisspítalarnir hafa ekki starfað samkvæmt þessari reglugerð en fjöldamargar aðrar sjúkrastofnanir og mér er sagt að hæstv. ráðherra hafi sagt á Alþingi að hún teldi að það orkaði mjög tvímælis að þessi reglugerð stæðist lög.

Virðulegi forseti. Þetta er mikið alvörumál. Það er mikið alvörumál þegar ráðherra eins málaflokks kemur upp í ræðustól á Alþingi og gefur þá yfirlýsingu að innheimta sem getur numið þúsundum kr. á greiðslum sjúklinga fyrir læknisverk standist ekki lög. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hún hafi látið slík ummæli falla. Ég vil gjarnan upplýsa að þessi innheimta var ákveðin í tíð síðustu ríkisstjórnar, það mál var borið upp á ríkisstjórnarfundi, rætt af ráðherranefnd og samþykkt og því ekki bara á ábyrgð eins ráðherra heldur allrar ríkisstjórnarinnar. Það er alvörumál ef heilbrrh. lætur í ljós þá skoðun á Alþingi að það sé vafasamt að þessi innheimta standist lög. Hafi það gerst sem ég spyr hæstv. ráðherra um hvort hafi gerst er eingöngu um tvennt að ræða: Ef ráðherra vill skjóta stoðum undir slíka innheimtu þannig að hún sé lögleg þá bregði ráðherra tafarlaust við, geri bragarbót eða óski eftir að Alþingi setji þau lög sem veita slíkri innheimtu stuðning. Ef hæstv. ráðherra gerir ekkert slíkt ber honum skylda til að hætta þá þegar innheimtunni og gefa út fyrirmæli um að þar sem lagaheimild skorti sé ekki lengur heimilt að innheimta viðkomandi þóknun af sjúklingum. Ráðherra getur ekki lýst því yfir á Alþingi að innheimta af þessu tagi hafi vafasama lagastoð án þess að aðhafast nokkuð í málinu, með öðrum orðum að láta fara fram innheimtu af þessu tagi eins og ekkert hafi í skorist þó að ábyrgðaraðili málaflokksins telji að hún standist ekki lög.

Hæstv. forsrh. hefur að vísu gefið þá lagaskýringu fyrr á þinginu að sé um ívilnandi ákvæði að ræða eins og um bílalán öryrkja, sem hafi öðlast hefðarrétt með því að þau hafi tíðkast í 40 ár eða meira, þó svo vafasamt sé hvort lög séu á bak við sem veiti þeim nægilega stoð, þá sé hefðarrétturinn orðinn svo ríkur af því að þetta sé í þágu fólks að sérstök lög þurfi til að taka hann af. Þetta hefur hæstv. forsrh. sagt. En mér er ekki kunnugt um að þetta gildi líka á hinn veginn, þ.e. ef innheimt hefur verið gjald af fólki án lagastoðar þó að það hafi verið gert í 2--3 ár hafi innheimtan unnið sér hefðarrétt þannig að hægt sé að halda því áfram án þess að undirbyggja innheimtuna með lagasetningu. Ég vil fá, virðulegi forseti, alveg ótvírætt frá hæstv. heilbrrh. hver er skoðun hans. Hafi hæstv. heilbrrh. haldið því fram að það sé vafasamt að innheimtan sé byggð á lagalegum grunni ber ráðherranum skylda til að aðhafast. Hafi hæstv. ráðherra ekki sagt þetta eða hafi hæstv. ráðherra skoðað málið betur síðan hann sagði þetta og komist á þá skoðun að um sé að ræða löglega innheimtu, þá ber hæstv. ráðherra skylda til þess að skýra Alþingi frá því þannig að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um það hvort forráðamaður þessa málaflokks telji að innheimta af þessu tagi standist lög eða ekki.