Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:39:07 (2419)

1995-12-21 21:39:07# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:39]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að gera tilraun til þess að skýra þetta mál. Ég verð hins vegar að segja eins og er að ég er eiginlega engu nær. Mér finnst svör hv. þm. og hv. formanns fjárln. fela það í sér og bið um að það sé útskýrt fyrir mér hvort sá skilningur er réttur, að það verði ekki ljóst fyrr en á seinni hluta næsta árs hvaða upphæðir Sjúkrahúsið á Suðurnesjum og heilsugæslan fær til þess að leysa þessi vandamál. Ég hélt satt að segja að málið lægi þannig fyrir eftir þá fundi sem við, þingmenn kjördæmisins, höfum átt með forráðamönnum sveitarfélaga og sjúkrahússtjórninni, að nú við endanlega afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlagafrv. yrðu nefndar upphæðir sem færu langleiðina í það að duga til að gera upp þessar skuldir og tryggja viðunandi rekstur á næsta ári.

Nú heyrist mér hins vegar þessir tveir hv. fjárlaganefndarmenn vera að segja að nú viti enginn hvaða upphæð fer til Sjúkrahúss Suðurnesja vegna þess að heilbrrh. eigi eftir að ákveða það og það verði hugsanlega ekki ákveðið fyrr en á seinni hluta næsta árs. Ef þetta er réttur skilningur hjá mér sem ég vona að sé ekki, þá tel ég að þetta sé allt allt annað en var kynnt fyrir okkur sem inntak þess samkomulags sem formaður og varaformaður fjárln. settu stafina sína undir ásamt hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. Ég bið um að það sé útskýrt alveg nákvæmlega fyrir mér: Er þetta virkilega þannig að upphæðirnar verði ekki ljósar fyrr en á seinni hluta næsta árs?