Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:41:26 (2420)

1995-12-21 21:41:26# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:41]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt ef málið er ekki ljóst fyrir hv. 8. þm. Reykn. og ef hann hefur eitthvað misskilið það minnisblað sem hann taldi að væri kynnt fyrir sér. Ég held að ég muni það rétt að ég hafi verið viðstaddur þegar inntak minnisblaðsins var kynnt fyrir honum í fyrsta skipti. Þá lá minnisblaðið jafnframt á borðunum og hann fór höndum um það þannig að ég get ómögulega skilið að hann hafi haft einhvern annan skilning á því en texti þess bar í sér. Það er rétt að samkvæmt textanum gæti þetta mál dregist fram til 1. október 1996. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vona að það dragist ekki svo lengi og að málsaðilar, þar á meðal hæstv. heilbrrh. og starfslið hennar í heilbrrn., muni vinna snarpar að málinu en dagsetningin 1. október 1996 gefur til kynna. Ég held að það sé nauðsynlegt bæði fyrir þær stofnanir sem í hlut eiga og ekki síður fyrir ráðuneytið til þess að það hafi yfirsýn yfir sinn málaflokk.