Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:42:58 (2421)

1995-12-21 21:42:58# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:42]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta skjal, minnisblað með stöfum formanns og varaformanns fjárln., hefur verið rætt á tveimur fundum þingmanna Reykjaneskjördæmis. Á fyrri fundinum voru eingöngu þingmenn kjördæmisins, á seinni fundinum voru fulltrúar sveitarfélaganna, Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og stjórnarmenn í Sjúkrahúsi Suðurnesja. Það var á þeim fundi sem framkvæmdastjóri sjúkrahússins lagði fram ítarlega lýsingu á því í framhaldi af niðurstöðum sérstaks skoðunarmanns, hvaða fjárhæðir þyrfti til þess að gera upp skuldahalann og leysa fjárhagsvanda sjúkrahússins. Þannig hafa verið nefndar á fundum þingmanna kjördæmisins ákveðnar upphæðir í þessum efnum. Mig minnir að hv. þm. Árni Mathiesen hafi því miður verið fjarverandi á þeim fundi.

Ég tel að það sé alveg nýtt í málinu sem nú hefur verið staðfest að í dag viti enginn hverjar þessar upphæðir verða og það muni hugsanlega ekki koma í ljós fyrr en á seinni hluta næsta árs. Vonandi fyrr, sagði hv. þm., en hugsanlega ekki fyrr en á seinni hluta næsta árs. Þetta er alls ekki grundvöllurinn sem okkur var kynntur sem inntak þessa minnisblaðs.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér er ekki ljóst hvernig við eigum þá að taka á málinu í framhaldinu því að það gefst sjálfsagt ekki tími til að ræða við forustumenn sveitarfélaganna eða sjúkrahússins á grundvelli þessara mála. En ég fullyrði það að forustumenn sjúkrahússins hafa talið að í þessari niðurstöðu lægi skýrt fyrirheit um tilteknar lágmarksupphæðir a.m.k. til lausnar þessum vanda.

Hitt er svo efni sem er kannski rétt að ræða síðar hvort ekki er óhjákvæmilegt að formaður og varaformaður fjárln. birti þinginu samninga sem þeir eru byrjaðir að undirrita. Ég tel það satt að segja hæpið fordæmi að formaður og varaformaður fjárln. séu að undirrita samninga sem ekki eru birtir þinginu.