Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:10:41 (2426)

1995-12-21 22:10:41# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:10]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt að e.t.v. hefur þetta samkomulag sem við hv. þm. Jón Kristjánsson vorum aðilar að galopnað málið til þess að hægt sé að finna lausn á því. Vandi þessarar sjúkrastofnunar var mikill og margar ástæður eru fyrir því hvers vegna hann var upp kominn. Ég tel að það sé mikilvægt viðfangsefni okkar hv. þm. í fjárln. og hv. þm. Reykn. að finna sameiginlega lausn á vanda þessarar stofnunar fremur en reyna að gera tilraunir okkar til samkomulags tortryggilega. Ég er sannfærður um að það er fullur vilji meiri hluta fjárln. að standa þannig að málum að þegar upp verður staðið og samkomulag hefur náðst við Suðurnesjamenn muni þessi stofnun standa sterkari eftir. Það er sannfæring mín og vissa að svo verður vegna þess að við fundum það mjög vel þegar við stóðum í þessari milligöngu að það var ríkur og mikill vilji hjá Suðurnesjamönnum til þess að ná samkomulagi en því miður hafði þetta mál farið í strand vegna þess að menn höfðu e.t.v. farið fullgeyst af stað. Það er alltaf þannig að það þarf að leita samkomulags til þess að niðurstaða geti fengist og ég held að það minnisblað sem er auðvitað óformleg yfirlýsing aðila eigi að geta verið leiðarvísirinn og leiðarsteinninn að því samkomulagi sem er nauðsynlegt að ná til þess að hægt sé að styrkja þessa stofnun, Sjúkrahús Suðurnesja. Eins og fram kemur í margnefndu minnisblaðinu gerum við ráð fyrir því að samstarf við sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu eigi að geta verið þáttur í því að styrkja stöðu þessa sjúkrahúss og það vona ég að verði.