Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:12:54 (2427)

1995-12-21 22:12:54# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:12]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn. spurði eitthvað á þá leið hvað hefði breyst í hugarheimi mínum frá því fyrir tveimur árum. Það hefur breyst að við fjárlaganefndarmenn vorum í þeirri þröngu stöðu í heilbrigðismálum að sjá til þess að engar nýframkvæmdir yrðu í stofnkostnaði við sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og dvalarheimili á næsta ári. Aðeins skyldi greiða skuldir og standa við verksamninga.

Við stóðum frammi fyrir því að samningum hafði verið slegið á frest og við vildum stuðla að því að það væri endursamið um þau mál. Það var vilji okkar. Ég hef ekki haft afskipti af Fáskrúðsfjarðarmálinu ef svo má segja í fjárln. Ég stuðlaði að því sem þingmaður Austurl. með öðrum þingmönnum Austurl. að það mál var sett í ákveðinn farveg. Nefnd heimamanna og ráðuneytisins vann að því að endurskoða það mál og komast að niðurstöðu og ég veit ekki annað en nefnd hafi skilað áliti til ráðuneytisins en fjárln. hefur ekki fengið þau plögg í hendurnar. Ráðuneytið hefur ákveðna tillögu í því máli þar sem sveitarstjórnarnefnd á Fáskrúðsfirði skipaði sér fulltrúa í nefndina.

Ég vona að þessar skýringar nægi en í þessum aðgerðum er einlægur vilji af okkar hálfu að endursemja um þessi mál og koma þeim í tryggan og ákveðinn farveg miðað við þá þröngu stöðu sem við erum í núna.