Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:15:27 (2428)

1995-12-21 22:15:27# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:15]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi fyrra svarið. Það sem breyst hefur í hugarheimi hv. þm. er það að nú er hann í ríkisstjórn en áður var hann í stjórnarandstöðu og ekki fleiri orð um það.

Hitt skildi ég öllu síður að allt í einu er eins og meiri hluti fjárln. hafi í raun ekki haft afskipti af þessum málum á Fáskrúðsfirði og hafi enga hugmynd um það í hverju þessir breyttu samningar, endursamningar eins og hv. þm. orðaði það, eru fólgnir. Samt sem áður leggur hv. meiri hluti fjárln. til að taka 10 millj. af þessu verkefni þótt hún hafi litla eða enga hugmynd um það. Ég spyr því hæstv. heilbrrh. sem gengur fram hjá: Hvar er þetta minnisblað og þetta samkomulag? Ég geri þá skýru kröfu til þess að ég fái það í hendur þannig að hægt sé að fjalla um þetta mál með efnislegum hætti, ekki bara einhverjar tölur á blaði upp á það að teknar séu 10 millj. af Fáskrúðsfirðingum, Austlendingum, orðalaust með vísan til einhverrar nefndarskipunar sem enginn veit hver er og enginn hefur séð afrakstur af. Ég geri skýra kröfu til þess og ég beini orðum mínum til hv. formanns fjárln. þar sem þetta eru hans tillögur sem við fjöllum um, að hann komi höndum yfir þetta minnisblað sem hann hlýtur að byggja sínar tillögur á og komi þeim í hendur þeirra þingmanna sem eftir því óska. Ég hlýt að gera þá eðlilegu kröfu. Öðruvísi er ekki hægt að fjalla efnislega um þessa tillögu. Annars erum við bara að blaðra út í loftið. Annars erum við að ræða málið á svart/hvítum nótum. Hv. þm. er í ríkisstjórn. Hann var utan hennar fyrir tveimur árum og mikill áhugamaður um málið. Nú hefur hann fullkomlega misst áhugann á því og heldur að það sé eitthvert minnisblað uppi í ráðuneyti. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem við getum ekki sætt okkur við við þessa umræðu, virðulegi forseti.