Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:32:46 (2434)

1995-12-21 22:32:46# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði nú búist við því að eftir að hv. þm. Jón Kristjánsson hafði setið með sínum mönnum yfir vanda spítalanna fengi ég ítarlegri svör. Ég ætla hins vegar ekki að álasa honum fyrir það að geta ekki svarað mér með ítarlegri hætti vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að þetta er spegilmynd af vinnubrögðum stjórnarliðsins í þessu mikilvæga máli. Þeir einfaldlega hafa ekki náð utan um það. Þeir hafa ekki kafað djúpt ofan í það og þeir skilja það ekki út í hörgul. Ég skil það svo af máli hv. formanns fjárln. alveg eins og þegar ég hlýði á hæstv. heilbrrh. Mér finnst hvorugt þeirra skilja málið út í hörgul. Ég verð að segja það að mér finnst það undrun sæta að hv. formaður fjárln. veit ekki einu sinni hver rekstrarvandinn er. En ég get upplýst hann um að það sem upp á vantar eru um það bil 380 millj. kr. til þess að ráða bót á þessum uppsafnaða rekstrarhalla. Hann hefur eða stjórnarliðið og hann fyrir þess hönd hefur nú látið til þess ganga 250 millj. kr. Þá eru eftir 130 millj.

Það er alveg ljóst að þetta mun valda verulegum vandræðum innan spítalakerfisins. Það er alveg ljóst að það vantar þarna miklar fjárhæðir. Það mun leiða til þess að biðlistar munu aukast verulega og það mun líka leiða til þess að lokanir munu stóraukast. Ég bendi á það, herra forseti, að það var einmitt hæstv. heilbrrh. sem er í sama flokki og hv. þm. Jón Kristjánsson sem lét svo ummælt í einni af merkum ræðum sem hún flutti á síðasta kjörtímabili að það að loka deildum stappaði nærri glæpi.

Á síðasta kjörtímabili fór það aldrei verr en svo að mestar voru lokanirnar 11,6%. Það var reyndar árið 1995 þegar flokkur hv. þm. Jóns Krisjánssonar réði fyrir heilbrigðismálunum hálft árið. 1994 voru það 7,6% allra legurúma sem stóðu auð.

Hver verður niðurstaðan, herra forseti, á næsta ári þegar tillögur hv. þm. Jóns Kristjánssonar og hæstv. heilbrrh. ná fram að ganga? Þær munu leiða til þess að fimmta hvert rúm á Ríkisspítölunum mun standa autt. Með öðrum orðum, það sem kölluð var glæpastarfsemi á síðasta kjörtímabili af hæstv. heilbrrh. er nú glæpastarfsemi þremur sinnum meiri að umfangi. Mundi maður ekki kalla það mafíuverk?