Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:36:00 (2435)

1995-12-21 22:36:00# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:36]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ræða hv. 15. þm. Reykv. sýni í hnotskurn þann vanda sem við er að glíma í heilbrigðiskerfinu og ég held að það þurfi ekki að vera með nein brigslyrði um það hverjir skilja vandann og hverjir ekki. Ég veit að hv. formaður heilbr.- og trn. skilur þennan vanda og hann veit það jafnframt að það er ekkert auðvelt að ráða bót á honum í einu vetfangi. Það hefur ekki reynst auðvelt á þeim tíma sem hans flokksbræður voru í ríkisstjórn og stýrðu þessum málum.

Ég endurtek að það er viss von í því fólgin að halli Ríkisspítalanna hefur minnkað núna síðari hluta ársins. Það er vilji til þess hjá sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu að taka upp samstarf til að spara fjármuni þannig að það standa til þess vonir að hægt verði að koma böndum á þennan rekstur því öll viljum við stefna að eins góðri heilbrigðisþjónustu eins og unnt er. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra.