Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:37:48 (2436)

1995-12-21 22:37:48# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það vel að vandinn er alveg gríðarlegur og hæstv. heilbrrh. er sannarlega ekki öfundsverður af sínu hlutskipti. Ég er þeirrar skoðunar að vandinn verði ekki leystur nema með því að fjölga lokunum, nema með því að auka þjónustugjöld á einhverjum sviðum. Ég er alveg klár á því. Jafnvel þó að ég sé mótfallinn slíkum leiðum eru engar aðrar leiðir til. (Gripið fram í: Ertu mafíósi þá?) En munurinn á mér og mínum flokki og hæstv. heilbrrh. og flokki hv. þm. Jóns Kristjánssonar er þessi: Við höfum ekki logið að fólkinu. Við höfum sagt það hreint út að það eru ekki aðrar leiðir. En hæstv. heilbrrh. hefur sagt að það stappi nærri glæpi að loka deildum og hæstv. heilbrrh. hefur líka sagt að þjónustugjöld séu sjúklingaskattur og hún sé á móti þeim. Með öðrum orðum, allar þær leiðir sem menn neyðast til að grípa til eru leiðir sem hæstv. heilbrrh., meðan hún var óbreyttur stjórnarandstæðingur, dansaði stríðsdans gegn og beitti öllum ráðum til þess að mótmæla og andæfa. Það sem ég er að sýna fram á, hv. þm. Jón Kristjánsson, er einfaldlega þetta: Stóru orðin eru lítils virði. Þegar til kastanna kemur eru engar aðrar leiðir en þær sem Alþfl. var að reyna að fara í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá gengu engir í stjórnarandstöðunni jafnhart fram í að mótmæla þeim og flokkur hv. þm. Jóns Kristjánssonar og fremst í flokknum var hæstv. heilbrrh. Hvert einasta orð sem hún sagði á síðasta kjörtímabili um aðgerðir Alþfl. liggur dautt og ómerkt vegna þess að hvert einasta einstigi sem við fetuðum hefur hún fetað lengra. Á því sem henni þótti við gera slæmt á síðasta kjörtímabili hefur hún hert. Skrúfurnar sem hún kvartaði undan að við hefðum sett í gatið hefur hún keyrt enn lengra niður og naglarnir sem hún kvartaði undan að við hefðum rekið hefur hún keyrt á kaf. (Gripið fram í: Þetta er vond samviska.)