Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:40:19 (2431)

1995-12-21 22:40:19# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað eiga orðastað við hæstv. fjmrh. en það kann að vera sérkennilegt að biðja um það. Maður skyldi ætla að slíkur maður sem flytur málið sjálft sæti í salnum en ég hef ekki séð hann hér í allt kvöld þannig að hann leggur greinilega ekki mikla áherslu á að málið sem hér er til meðferðar fái afgreiðslu, þ.e. fjáraukalög fyrir árið 1995. Satt best að segja er það býsna oft þannig að meðferð fjáraukalaga er ekki mjög nákvæm hjá þessari stofnun. Ég held að stundum gerist það að hv. fjárln. gefi sér kannski fulllítinn tíma til að fara yfir fjáraukalög þó að í fjáraukalagafrumvörpum leynist oft ákvæði sem eru ákaflega athyglisverð.

Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh. um kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 5 og er undir liðnum ,,999 Ýmislegt`` og orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í öðru lagi hefur gerðardómur nú verið kveðinn upp í máli jarðeigenda í Einarsnesi í Mýrasýslu gegn landbúnaðarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins út af netalögnum við ósa Hvítár í Borgarfirði. Niðurstaða málsins er að ríkissjóði ber að greiða um 40 millj kr. í bætur sem reiknaðar skulu með sömu forsendum og aðferðum og gilda fyrir aðrar jarðir við ósa Hvítár. Gerðarsamningurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjárveitingu til að greiða bæturnar sem gerðardómurinn kann að úrskurða. Gerð er tillaga um viðbótarframlag til þess að ganga frá uppgjörinu.``

Hér á að fara að borga litlar 40 millj. kr. samkvæmt þessu skjali samkvæmt gerðardómi eða sök sem kveðin hefur verið upp og það er býsna umhugsunarvert. Ég vil sem sagt beina spurningum til hæstv. fjmrh. um þetta mál og ég tek eftir, ef ég sé rétt, hæstv. forseti, að hann hefur ekki komið í salinn enn þá. Það er spurning hvort ég á von á því að hann komi hérna.

(Forseti (RA): Það mun rétt vera. Hann hefur ekki komið í salinn enn þá. En það hefur þegar verið sent eftir honum en ég veit ekki hvað tefur hann.)

Ég bíð þá, hæstv. forseti, með að bera fram spurningar mínar þangað til hæstv. ráðherra kemur í salinn.

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra mun vera á næstu grösum.)

Virðulegi forseti. Ég þurfti að ræða við hæstv. fjmrh. um eitt atriði í fjáraukalagafrv. Það er svo sérkennilegt að hann hefur ekki látið sjá sig í þessari umræðu. Það er nokkuð athyglisvert hvaða alúð ráðherrarnir leggja við að koma sínum málum fram. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi fjáraukalagafrv. og frhnál., það sem kemur fram í nefndarálitinu að ríkissjóður ætlar að greiða 40 millj. kr. í bætur til eigenda Einarsness í Mýrasýslu. Hér er um að ræða afar sérkennilegt mál svo að ekki sé meira sagt og það á sér mjög langan aðdraganda.

[22:45]

Þannig háttar til að með lögum um lax- og silungsveiði frá 1957 var ákvæðum um netaveiði breytt þannig að möguleikar bænda til netaveiða voru skertir. Í framhaldi af því hófust langvinn málaferli, málarekstur af ýmsu tagi. Matsmenn voru kallaðir til, gerðardómar settir niður og það tókst að ljúka þessum málum með vissum hætti gagnvart fáeinum aðilum, veiðiréttareigendum. Eins og ég sagði áðan er hér um að ræða netalagnir. Þegar málið hafði gengið alllengi þannig fyrir sig að ekki fengust niðurstöður óskaði eigandi Einarsness, Óðinn Sigþórsson, eftir úrskurði umboðsmanns Alþingis um þetta mál. Ég hygg að Óðinn Sigþórsson hafi verið varaþingmaður einhvern tíma fyrir Sjálfstfl. á Vesturlandi, munaði þá litlu alla vega. Umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, úrskurðaði sig frá málinu og Stefán Már Stefánsson tók að sér að sinna verki umboðsmanns og kvað upp niðurstöður sínar sem hann kynnti með bréfi sem er dags. 29. september 1993. Í lok álits umboðsmanns sem er ítarlegt eða 23 síður A4 segir svo, með leyfi forseta:

,,Lokaniðurstöður mínar eru því þær að ég tel rétt að landbrn. hefji samningsumleitanir við Óðin Sigþórsson, eiganda Einarsness, um ákvörðun og greiðslu bóta vegna veiðiskerðingarinnar fyrir landi Einarsness á þeim grundvelli sem fram kemur í liðum 22 og 24--26`` sem er svo nánar rakið í þessu skjali.

Þetta er kveðið upp 29. desember 1993 og þar er lagt til að það verði hafnar samningsumleitanir við Óðin Sigþórsson. Af einhverjum ástæðum tekur það landbrn. ótrúlega langan tíma að fjalla um þessa niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður skilar áliti sínu til landbrn. 29. des. 1993 og það er reyndar ekki fyrr en 4. apríl 1995 eða um það bil fjórum eða fimm dögum fyrir síðustu alþingiskosningar að gert er samkomulag í landbrn. um gerðardóm í þessu máli undirritað af Halldóri Blöndal, þáv. landbrh. og Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni sem er nokkuð þekktur líka og í sama stjórnmálaflokki. Vitundarvottur annar er aðstoðarmaður landbrh. Samkomulagið er á rúmlega einni síðu A4 og er athyglisvert fyrir þær sakir að þar er gert ráð fyrir að setja gerðardóm í málið en honum er falið algerlega 100% nákvæmt hlutverk. Í rauninni eru ákvæðin þannig og samningurinn um gerðardóminn með þeim hætti að gerðardómurinn hefur svo sem ekkert annað hlutverk en það að skrifa svo að segja upp það sem stendur í samkomulaginu. Ég ætla að lesa, hæstv. forseti, þetta einstæða samkomulag sem er gert í kosningavikunni 1995:

,,Hinn 29. des. 1993 skilaði settur umboðsmaður Alþingis, Stefán Már Stefánsson, áliti til landbrh. í tilefni af kvörtun Óðins Sigþórssonar í Einarsnesi, Mýrasýslu, mál nr. 629/1992. Kvörtun Óðins laut að því að hann taldi sig hafa orðið að sæta ólögmætri mismunun við uppgjör eignarnámsbóta vegna tjóns sem hann hlaut af veiðiskerðingarákvæðum 35. gr. þágildandi lax- og silungsveiðilaga, nr. 53/1957`` eins og rakið er í áliti umboðsmanns og ég vitnaði til áðan.

,,Í niðurstöðum umboðsmanns kemur fram að ríkissjóði beri að beita sömu meginsjónarmiðum um ákvörðun á greiðslu bóta gagnvart öllum sem hann semur eða hyggst ganga til samninga við í tilefni af umræddum skerðingarákvæðum. Taldi umboðsmaður rétt að landbrn. hæfi samningaumleitanir við Óðin á þessum grundvelli. Aðilar hafa ræðst við án þess að til samninga hafi leitt.

Af þessum sökum og með vísan til laga um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989, hafa aðilar orðið sammála um að leggja málið í gerð þriggja manna á neðangreindum forsendum og skal hvor aðili um sig tilnefna einn mann í dóminn en aðilar hafa komið sér saman um að Valtýr Sigurðsson héraðsdómari verði oddamaður héraðsdómsins.

1. Við útreikning á veiðitjóni Einarsness fyrir árin 1977--1983 skal leggja sömu forsendur til grundvallar og gert er í samkomulagi ríkissjóðs við Bóndhól og fleiri jarðir frá því í maí 1991. Það skal gera þetta svona. Tjón skal metið á verðlagi ársins 1983 eins og gert er í fyrrgreindu samkomulagi og skulu ákvæði samkomulagsins um vexti gilda að jöfnu. Ríkissjóður greiðir eiganda Einarsness 200 þús. kr. vegna lögmannsþóknunar fyrir störf fram að meðferð málsins fyrir gerðardóminum.

2. Við útreikning veiðitjóns fyrir árin 1984--1987 skal viðhafa sömu aðferð hvað varðar veiðitjón í kílóum og verðútreikning og gert var með ákvörðun ríkissjóðs um bætur til Bóndhóls og fleiri frá í des. 1993.

3. Þær bætur sem eigandi Einarsness hefur fengið greiddar á umræddu tímabili skulu koma til frádráttar sem hér segir:

a. Fyrir árin 1977--1983 á verðlagi ársins 1983.

b. Fyrir árin 1984--1987 á sama verðlagi og ákvörðun samkvæmt 2. tölul. tók mið af.

4. Aðilar verði sammála um að gerðardómurinn leggi mat á hvort og þá hvernig nýja veiðisvæðið fyrir landi Einarsness, sem skapaðist í kjölfar þess að óslína Hvítár var færð, samanber yfirmatsgerð 1977 frá Nestá um Borgarfjarðarbrú, kemur til álita í þessu máli þannig að jafnræðis verði gætt með jörðunum í heildarbótagreiðslum.

5. Reikningsforsendur skulu fylgja gerðinni þannig að ljóst megi vera að sömu aðferðinni hafi verið beitt við útreikning bóta vegna allra jarðanna sem sættu veiðiskerðingu vegna 35. gr. laga nr. 53/1957.

6. Aðilar eru sammála um að úrskurður gerðardómsins felur í sér fullnaðarbætur vegna skerðingar bankaákvæðis, laga nr. 53/1957, þannig að jafnræði hafi verið náð við eigendur jarðanna sem aðild áttu að samkomulaginu í maí 1991.

7. Kostnaður við gerðardómsmeðferðina, þar með talinn kostnaður eiganda Einarsness vegna málsmeðferðar fyrir gerðardóminum, skal greiddur úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun gerðardómsins. Af hálfu landbrh. er ágreiningsmál þetta lagt í gerðardóm með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlega fjárveitingu til að greiða þær bætur sem gerðardómurinn kann að úrskurða og verða bætur inntar af hendi þegar heimild til þeirra liggur fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

Undir þetta rita 4. apríl 1995 Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. og Halldór Blöndal landbrh.

Þetta samkomulag er gert 4. apríl 1995, örfáum dögum fyrir kosningar og það eru nokkrir félagar sem setjast niður og ganga frá málinu. Maður hlýtur auðvitað að velta því fyrir sér, hæstv. forseti, hvort það er heppilegt fyrirkomulag í stjórnkerfinu að svona nokkuð geti gerst. Það held ég að sé ekki.

En þeir komu sér nákvæmlega saman um hvernig gerðardómurinn ætti að starfa og það er svo nákvæmt og svo smámunasamt í einstökum atriðum að það er meira að segja tekið fram í hvaða mælieiningum eigi að vigta laxinn, það sé í kílóum en ekki grömmum þegar úrskurður er kveðinn upp. Ég hygg satt að segja að það hefði ekki þurft ákaflega löglærðan mann til þess að reikna út niðurstöðu þessa samkomulags vegna þess að það er stafað ofan í gerðardóminn algerlega í smáatriðum. Í rauninni virkar þetta þannig að gerðardómurinn sjálfur sé svo að segja formsatriði miðað við þær aðstæður sem hér er lagt upp með.

Síðan fjallar gerðardómurinn að sjálfsögðu um málið eins og lög gera ráð fyrir og hann kveður upp niðurstöðu 20. okt. 1995 og þeir sem kveða upp gerðardóminn samkvæmt þessari fyrirskipun eru Valtýr Sigurðsson, oddamaður dómsins, Árni Jónsson, fyrrv. landnámsstjóri og Jón Sveinsson hdl. sem margir hér þekkja. Með öðrum orðum birtist niðurstaðan okkur á bls. 5 í þessu þskj., lengst inni í nefndaráliti meiri hluta fjárln. um fjáraukalögin fyrir árið 1995.

Það er alveg 100% öruggt, hæstv. forseti, að það hefur ekki öllum þingmönnum gefist kostur á að kynna sér forsendur þessa máls. Ég fullyrði að lítil grein hafi verið gerð fyrir málinu hér. Ég fullyrði að það hafi lítil grein verið gerð fyrir því af hverju ríkissjóður þarf að punga út 40 millj. kr. vegna skerðingar á veiðirétti með netum fyrir tiltekinni jörð í Borgarfirði. Ég fullyrði að menn hafa ekki haft aðstæður til að meta þá hluti. Ég fullyrði líka, hæstv. forseti, að umbúnaður málsins er ákaflega óheppilegur svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Hæstv. forseti. Það eru í þessu máli nokkur atriði sem ég tel óhjákvæmilegt að fjalla um en ég veit að það er lítill möguleiki til þess að fjalla um þetta mál sem skyldi. Klukkan er 11 og á morgun er ætlunin að ljúka þingi fyrir hátíðar og það er greinilegt að tíminn til að fjalla um þetta mál er mjög lítill. Ríkisstjórnin kaus að taka allan tíma Alþingis í dag í umræður um milljarð, ríkisábyrgð á milljarði í göng beint ofan í umræðuna um það að nú þurfi að skera og koma í veg fyrir að skuldirnar lendi á börnunum okkar, beint ofan í umræðuna um að hallann á ríkissjóði þurfi að minnka, beint ofan í umræðuna um að það sé ekki hægt að reka Ríkisspítalana, beint ofan í umræðuna um að ekki sé hægt að reka Sjúkrahús Reykjavíkur eða heilbrigðisþjónustuna í landinu yfirleitt. Milljarður króna kemur í litlum snepli hér inn og menn ætla að taka hér í gegn rétt si svona. Í nefndarálitum meiri hluta fjárln. um hin ýmsu mál koma upp atriði eins og þetta þar sem verið er að taka í gegn tugi milljóna króna án þess að Alþingi hafi verið gerð grein fyrir málinu í einstökum atriðum þannig að nokkur sómi sé að.

Auðvitað er þetta mál þannig að um það mætti nota miklu stærri orð en þau sem ég hef flutt hér en ég fullyrði og endurtek: Ég tel að hérna hafi ekki verið heppilega að málum staðið. Ég vil fara yfir þetta atriði:

1. Ég tel að gerðardómurinn hafi ekki fengið neitt svigrúm til að fjalla um málið af því að honum hafi verið sniðinn svo þröngur stakkur af samkomulaginu sem var undirritað í landbrn. í kosningavikunni.

2. Hvar var ríkislögmaður í þessu máli? Af hverju rak ríkislögmaður ekki þetta mál fyrir gerðardómnum? Af hverju var málið tekið úr höndum ríkislögmanns, því að það var upphaflega í höndum ríkislögmanns, og sett í hendur lögmanns sem hefur í rauninni hætt málflutningsstörfum í meginatriðum fyrir þó nokkrum árum vegna allhás aldurs? Af hverju fékk ríkislögmaður og hans embætti ekki að fara með málið? Hvar var ríkislögmaður?

3. Var hagsmunum ríkisins nægilega vel sinnt? Getur hæstv. fjmrh. sannfært Alþingi um að hagsmunum ríkisins hafi verið nægilega vel sinnt í þessari stöðu sem er með þeim hætti eins og ég hef hér rakið að kunningjahópur kemur að málinu þar sem menn eru svo að segja að semja hver við annan? Vill hæstv. fjmrh. rökstyðja hvernig hann telur að hagsmunum ríkisins hafi verið nægilega vel sinnt í þessu máli.

4. Ég spyr hv. formann fjárln.: Á hvaða forsendum var þetta mál afgreitt í fjárln. Hvaða gögn lágu fyrir fjárln. í þessu máli? Hver voru þau? Ég vil fá lista, hæstv. forseti, ef kostur er yfir þau gögn, fylgiskjöl málsins í fjárln. Ég vil vita á hvaða grunni fjárln. tekur ákvörðun um 40 millj. kr. í fjáraukalögunum með þeim hætti sem ég hef verið að rekja.

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst og fremst draga fram þessi atriði til að undirstrika það meginatriði að í þessu máli er ekki heppilega haldið á hlutunum til að fá fram upplýsingar um það á hvaða forsendum þessar 40 millj. eru settar út og líka til að vekja athygli á því að hér er verið að afgreiða fjölda flókinna mála á þessu síðkvöldi, án þess að það gefist eðlilegt tóm til að fara yfir hlutina. Við lýstum því yfir fyrir hönd stjórnarandstöðuflokkanna í gærmorgun að ábyrgðin á þinghaldinu, niðurstöðunum í þessum flýti og asa, væri öll á ríkisstjórninni, hroðvirknin lægi á ábyrgð hennar. Það verður auðvitað að ítreka það af þessu tilefni og þetta mál er enn ein staðfestingin á því að Alþingi Íslendinga er í hættu statt þegar ekki gefst kostur á að fara eðlilega yfir mál fyrir utan það að hagsmunailminn leggur af þessu máli ótrúlega víða, hæstv. forseti.