Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 23:07:58 (2439)

1995-12-21 23:07:58# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[23:07]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvers lags eiginlega, með leyfi forseta, kjaftæði var þetta nú eiginlega? Að byrja á almennum árásum á stjórnarandstöðuna fyrir það að hún sé að fara halloka í einhverju máli í umræðum og þess vegna séu menn að drepa því máli á dreif með því að tala um þetta mál. Hvaða eiginlega blaður er þetta, hæstv. forseti? Ef hæstv. fjmrh. finnst þetta vera svona þá er það dapurlegt en það er leiðinlegast fyrir hann sjálfan. Veruleikinn er ekki svona. Í fyrsta lagi er veruleikinn þannig að það hafa komið fram mjög veigamikil rök í þessu Hvalfjarðargangamáli og ég get talað um það á eftir þegar tími vinnst til undir tíma. En í öðru lagi verð ég að segja það varðandi þetta mál, hæstv. forseti, að það er grafalvarlegt. Það þýðir ekki fyrir hæstv. fjmrh. að ætla sér að þvo hendur sínar með ummælum eins og hann viðhafði áðan.

Gallinn er sá að hann svaraði engu af því sem ég bar fram áðan í spurningaformi. Ég spurði: Af hverju fékk dómstóllinn ekkert svigrúm? Ég spurði: Hvar var ríkislögmaður í þessu máli? Ég spurði: Vill hæstv. fjmrh. rökstyðja það að hagsmunum ríkisins hafi verið nægilega vel sinnt í málinu? Hann svaraði þessu ekki. Hann svaraði engu af þessu. Eftir stendur mjög alvarlegur hlutur, hæstv. forseti. Það er ekki kostur á því að ræða það í andsvaratíma en það verður væntanlega hægt að gera það síðar í þessari umræðu um fjáraukalög ársins 1995, því að nóg er nóttin sýnist mér, hæstv. forseti.