Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 23:45:50 (2443)

1995-12-21 23:45:50# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[23:45]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykn. ræddi töluvert um það hvort hér væri um eðlileg vinnubrögð að ræða, hvort það yrði framhald á þessum vinnubrögðum sem hann kallar svo. Ég vona sannarlega að ekkert framhald verði á þeim vegna þess að ég álít að ef framkvæmdarvaldið treystir sér ekki til að standa við undirskrifaða samninga þá eigi að fara fram á endurskoðun á þeim. Það var einfaldlega vegna þess að málið var í erfiðri stöðu og við stóðum frammi fyrir fjárlagagerð að við varaformaður fjárln. höfðum um það frumkvæði að koma málinu í ákveðinn farveg, þ.e. þann að endurskoða gildandi samning. Tekið er fram á hinu margumtalaða minnisblaði að aðilar séu sammála um að endurskoða gildandi samning á tilteknum forsendum, sem eru einnig teknar fram. Þetta er einfaldlega það sem við varaformaður fjárln. höfum aðhafst í þessu máli.

Ef aðilar ná síðan ekki saman verður að meta stöðuna upp á nýtt en samningurinn er auðvitað í gildi. Það er langt í frá að það séu einhver skilyrði frá okkar hendi eða þvinganir í þessu efni um fjárveitingar til Sjúkrahúss Suðurnesja. Það mál fer eftir þeim farvegi sem hefur verið kynntur í fjáraukalagafrv. og fjárlagafrv.